Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Mannréttindi eru ekki eins og tæknileg framþróun“

Mynd: Morgunútvarp Rásar 2 / Ljósmynd
Réttindagæsla fatlaðs fólk er undirmönnuð og vanfjármögnuð og stjórnvöld fylgdu ekki eftir þeim ábendingum sem fram komu í skýrslu um aðbúnað barna og fullorðinna á Kópavogshæli. Þetta segir Árni Múli Jónasson framkvæmdastjóri Þroskahjálpar. Í kjölfar umfjöllunar um slæman aðbúnað á vistheimilinu Arnarholt hafa samtökin krafið stjórnvöld um að grípa til ráðstafana nú þegar til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig.

Árni var gestur Morgunútvarps Rásar tvö í morgun.

Hann sagði að í skýrslu um aðbúnað fólks á Kópavogshæli, sem kom út fyrir um fjórum árum, hafi verið lagt til að aðbúnaður á öðrum stöðum þar sem fólk var vistað yrði skoðaður, en það hafi ekki gengið eftir.

„Það hefur  verið gert það sem ekki hefur verið undan komist, sanngirnisbætur greiddar til barna. En í þessari skýrslu er meðal annars bent á að það sé full ástæða til að skoða vistun fullorðinna einstaklinga og það er öllum sem um hugsa augljóst að einstaklingar með fötlun, sérstaklega þroskahömlun, voru ekkert betur settir en börn þó þeir hafi verið fullorðnir í skilningi laganna. Því þeir höfðu engin önnur úrræði og gátu ekki neins staðar annars staðar verið. Mér finnst stjórnvöld því miður ekki hafa fylgt þessu eftir eins og fullt tilefni var til,“ sagði Árni.

Hann sagðist ekki vita til þess að sambærileg mál hafi komið fram á síðari árum. „Sem betur fer hefur margt í þessum málaflokki skánað mjög mikið. Fatlað fólk er mjög berskjaldað, það er jaðarsett og það þarf að vera gott, öflugt og trúverðugt eftirlit með því að þetta fólk njóti mannréttinda.“

Árni segir að stjórnvöld hafi undirgengist ýmsar skyldur varðandi réttindi fatlaðs fólks. „En þau hafa ekki framkvæmt það, það er auðvitað mikið áhyggjuefni og veldur því að maður hefur tilhneigingu til að draga þá ályktun að það fylgi ekki nægilega hugur máli þegar þau segjast ætla að gera þetta.“

Árni sagði að Þroskahjálp hygðust knýja á við stjórnvöld að stjórnvöld  verðu fatlað fólk fyrir allskyns órétti. „Eins og sagan sýnir og full ástæða er til að óttast,“ sagði hann.

„Mannréttindi eru ekki eins og tæknileg framþróun þar sem verður betri útgáfa af iphone á morgun en í gær. Þau snúast um að við tökum þau alvarlega,“ sagði Árni í Morgunútvarpinu.