Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Leituðu að manni sem var ekki týndur

17.11.2020 - 23:01
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Um það bil fimmtíu björgunarsveitarmenn voru kallaðir til á níunda tímanum í kvöld til að leita að manni á Breiðdalsvík sem reyndist svo ekki týndur. Þetta staðfestir varðstjóri hjá Lögreglunni á Austurlandi í samtali við fréttastofu. Hann segir að leitin hafi byggst á misskilningi. „Í nútímasamfélagi eru gerðar kröfur um að fólk sé alltaf með símann á sér og þá kvikna áhyggjur ef fólk er sambandslaust,“ segir hann. 

Um það bil klukkustund hafi liðið frá því að björgunarsveitarmenn voru kallaðir út og þar til í ljós kom að ekki var ástæða til að leita mannsins. Ekki hafi verið vitað um manninn í um það bil eina og hálfa klukkustund. Aðspurður hvers vegna björgunarsveitir hafi verið kallaðar út svo fljótt segir hann að ekki hafi verið vitað um allar staðreyndir málsins á þeim tíma sem sú ákvörðun var tekin. 

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir í samtali við fréttastofu að um fimmtíu björgunarsveitarmenn hafi lagt af stað og að rúmlega helmingur þeirra hafi verið kominn á staðinn þegar hætt var við leitina. Vísbendingar hafi komið upp í miðri leit sem hafi orðið til þess að leitin var afturkölluð.

Spurður hvort það komi oft fyrir að svo margir séu kallaðir út til leitar sem svo sé afturkölluð segir Davíð það koma fyrir stöku sinnum. „Björgunarsveitir er oft kallaðar til um leið og eitthvað gerist. Svo á fyrsta stigi aðgerða er staðan metin og þá geta komið fram upplýsingar sem draga úr aðgerðunum. Þetta var engin fölsk viðvörun,“ segir hann. 

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV