Langþráður draumur landvarðar rætist með nýju salerni

17.11.2020 - 09:21
Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Úrgangur úr nýjum salernum sem nú eru við Dettifoss verður nýttur til landgræðslu. Langþráður draumur að rætast, segir þjóðgarðsvörður. Þar hefur rólegur tími verið nýttur til að setja upp fjórtán salerni auk aðstöðu fyrir landverði.

Rólegur tími vel nýttur

Nýju, umhverfisvænu salernin taka við af skúrum sem áður stóðu við bílaplanið. Skúrarnir gátu ekki annað þeim fjölda sem kom að Dettifossi áður en faraldurinn skall á. Þá voru gestir allt að 2000 á degi hverjum. Þeir voru þó öllu færri þegar fréttastofu bar að garði. Guðmundur Ögmundsson, þjóðgarðsvörður í Vatnajökulsþjóðgarði fagnar uppbyggingunni.

„Við erum búin að vera að vandræðast með eiginlega óboðlega aðstöðu í allt of langan tíma en þetta er svona afurð úr landáætlun um uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum og þetta er byggt fyrir fjárveitingu úr því verkefni,“ segir Guðmundur.

Þurrefnið fer í moltugerð

„Hérna eru bara sem sagt tunnur sem er rennt undir og tengjast með barka og það fer bara allt gumsið niður í þetta og þvagið kemur svo út í slöngu og er leitt hérna niður og fer í tank sem er hérna fyrir utan. Þannig að það er aðskilið, þurrefnið frá þvaginu. Þá verður svona minni lyktamengun og svo þetta fer svo bara í moltugerð.“

„Langþráður draumur að rætast hjá okkur“

Í nýja húsinu verður, auk salernanna, aðstaða fyrir landverðina sem hafa fram að þessu þurft að hafast við í bílum. 

„Þetta er langþráður draumur sem er að rætast hjá okkur núna að fá þessi nýju salernishús hingað uppeftir. Við erum náttúrlega búnir að vera með lítið þurrsalerni hérna í fleiri fleiri ár og verið að bæta það upp með einhverjum plastkömurum á sumrin en nú erum við komnir með þetta fína hús hérna,“ segir Guðmundur.

„Við höfum fyrirmynd af þessu í Vikraborgum við Öskju og þar gengur þetta það vel að fólk hefur meira að segja verið að elda sér inni á klósettunum þannig að það er svona ákveðin gæðavottun.“