Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Ísland er enn með flest klamydíusmit þrátt fyrir fækkun

Mynd með færslu
 Mynd:
Fleiri greindust með lekanda og sárasótt hér á landi í fyrra en árið áður. Klamydíutilfellum fækkaði, en Ísland er þó enn það land í Evrópu þar sem fjöldi tilkynntra klamydíusýkinga er hlutfallslega mestur. Þrettán tilfelli af berklum greindust hér á landi í fyrra og fjögur af malaríu.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í farsóttaskýrslu Embættis landlæknis.

Í skýrslunni er greint frá fjölda þeirra sem greinast með tilkynningaskylda sjúkdóma. Tæplega 1.800 greindust með klamydíu hér á landi í fyrra, sem er nokkru minna en árið áður og voru konur í meirihluta.  

Fjöldi tilkynntra klamydíusýkinga á hverja 100.000 íbúa er mestur á Íslandi miðað við önnur Evrópulönd og tiðnin er einnigu há á hinum Norðurlöndunum. Í skýrslunni segir að þetta skýrist hugsanlega af meiri sýnatöku, ekki sé víst að nýgengið sé hærra hér en annars staðar. 

Lekandatilfellum fjölgaði og greindist 121 tilfelli, um 90% þeirra voru karlar. Í skýrslunni segir að lekandabakteríur, sem eru fjölónæmar fyrir sýklalyfjum séu vaxandi vandamál víða erlendis og það sé tímaspursmál hvenær svo verði einnig hér. 38 greindust með sárasótt, nánast eingöngu karlar og það var líka fjölgun frá árinu á undan.

Þá greindist 31 með HIV-sýkingu, sem er minna en árið á undan.  Í einu tilfelli var um að ræða smit frá móður til barns. Fjórir greindust með alnæmi, þar af kona sem hafði greinst með HIV-sýkingu árið 2007.

Af öðrum smitsjúkdómum má nefna að í fyrra greindust 136 með kampýlóbaktersýkingu og um 50 greindust með salmonellu. 

Sex greindust með kikhósta, þar af voru tveir fullorðnir sem ekki höfðu verið bólusettir. Níu greindust með mislinga og voru öll smitin rakin til óbólusetts einstaklings sem hafði ferðast þangað sem mislingafaraldur gekk.

 

 

 

 

 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir