Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Höfum það í hendi okkar að íslenskan haldi velli

Mynd: RÚV / RÚV

Höfum það í hendi okkar að íslenskan haldi velli

17.11.2020 - 11:00

Höfundar

Eiríkur Rögnvaldsson prófessor emeritus í íslenskri málfræði fékk Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar fyrir tveimur árum. Hann skrifar mikið um tungumálið og birti pistil á Degi íslenskrar tungu á netinu í tilefni dagsins um lífvænleika íslenskunnar.

Spegillinn ræddi við Eirík um framtíð íslenskunnar. Hann segir að íslenskan standi á margan hátt vel þrátt fyri að ýmsar ytri aðstæður séu henni óhagstæðar um þessar mundir.

Stendur vel en megum ekki slaka á

„Það skiptir máli að íslenskan er notuð á öllum sviðum og það er nánast einstætt að tungumál, sem svona fáir tala gegni burðarhlutverki í nútíma-, tæknivæddu þjóðfélagi" segir Eiríkur. „Það er til fjöldinn allur af tungumálum sem miklu færri tala, en það eru þá annað hvort aukamál, minnihlutamál eða mál þjóða og þjóðflokka sem eru ekki á sama tæknistigi og við þannig að tungumálin þurfa ekki að glíma við öll þessi svið.

Það þýðir ekki, þó að íslenskan standi nokkuð vel núna, að við getum bara slappað af og þurfum ekki að hugsa neitt um velferð hennar.  Það er margt núna, alls konar tækni- og þjóðfélagsbreytingar sem hafa verið í gangi undanfarinn áratug, sem gætu alveg haft veruleg áhrif á íslenskuna. En við höfum það í okkar hendi að koma í veg fyrir það".

Enskunotkun aukist mikið

Hvað er það sem helst ber að varast? 

„Það er ansi margt. Við vitum að enskunotkun hefur aukist mikið í þjóðfélaginu á undanförnum árum, annars vegar vegna ferðamannastraumsins og svo vegna fjölda útlendinga sem eru hér að vinna í þjónustustörfum sérstaklega. Svo er það hugarfarið, alþjóðavæðingin. Ungt fólk hugsar allt öðruvísi en við gerðum fyrir nokkrum áratugum.  Ungt fólk hugsar sér ekkert endilega að vera á Íslandi alla sína tíð. Það vill búa og starfa í útlöndum og veit að íslenskan gagnast því ekki mikið þar.  Það getur haft áhrif á viðhorf til tungumálsins". 

Stór hluti dagins í enskum málheimi

„En svo eru það fyrst og fremst allar þessar tæknilegu breytingar.  Snjallsímabyltingin, netið, streymisveitur og annað slíkt, sem valda því að fólk, sérstaklega ungt fólk, er verulegan hluta dagsins í enskum málheimi.  Það er út af fyrir sig ágætt að vera góður í ensku. Það er mikilvægt í nútíma þjóðfélagi, en það má ekki verða til þess að taka of mikið frá íslenskunni. Ef börn á máltökuskeiði eru of mikið í enskum málheimi þá er hætta á því að þau hafi ekki nógu mikinn tíma fyrir íslenskuna, að tileinka sér íslenskuna nógu vel þannig að þau verði eins fær í henni og við viljum að þau verði".  

Meiri hætta nú en áður

Er meiri hætta núna á þessum tímum heldur en áður? Það hefur oft verið talað um það að íslenskan hafi verið í hættu. Það voru dönsk áhrif og kanaútvarpið og fleira. Er hættan meiri núna? 

„Já hættan er miklu meiri. Það er alveg rétt. Það hefur oft verið talað um þetta. Í það minnsta síðan á 19. öld hefur verið talað um að íslenskan væri að fara í hundana og yfirleitt unga fólkið sem ætti þar sök á.  En það sem er gjörólíkt núna er að ensku áhrifin eru miklu víðtækari. Þau ná til miklu fleiri. Og ekki síst að þau ná til barna á máltökuskeiði, sem dönsk áhrif á 19. öld gerðu ekki.

Ég held að hafi verið gert of mikið úr þessum dönsku áhrifum. Þau náðu ekki nema til lítils hluta þjóðarinnar og alls ekki til barna á máltökuskeiði. Vissulega horfðu börn á kanasjónvarpið, en það var ekki stór hluti barna. Þar við bætist að það var ekki gagnvirkt. Það var einhliða miðlun. Allar rannsóknir sýna að gagnvirkni hefur miklu meiri áhrif.   Fólk er í gagnvirkum tölvuleikjum þar sem það er í samskiptum við spilara út um allan heim, samskiptum á ensku o.sv.frv. Það er svo margt sem er ólíkt". 

Mikill áhugi á íslensku og líflegar umræður

En þú segir jafnframt í pistli þínum að áhugi á íslenskri tungu sé talsverður?

„Það held ég að sé alveg ljóst. Eitt af því sem hefur breyst á undanförnum árum er samfélagsmiðlarnir, sem valda því að nú í fyrsta skipti hefur venjulegt fólk, almenningur í landinu, tækifæri til þess að koma sínum skoðunum og sjónarmiðum á framfæri. Áður voru þetta nánast forréttindi fárra útvalinna, að skrifa í blöð eða tala í útvarp. Núna getur hver sem er skrifað texta sem kemur fyrir sjónir alls heimsins. Það er auðvitað stórkostlegt og gífurlegt lýðræðismál í raun og veru. En þarna hefur fólk fundið sér vettvang til þess m.a. að fjalla um íslensku.  Það eru ýmsir hópar á Facebook sem fjalla um íslensku. Þar eru líflegar umræður af ýmsu tagi og það er mjög gott".

Íslenskan dauðadæmd ef ungt fólk sýnir henni ekki áhuga 

Hvert er hlutverk heimils og skóla við að viðhalda tungumálinu? 

„Heimilið er gjörsamlega í aðalhlutverki og skólinn líka. Það skiptir öllu máli að það sé talað við börnin. Það eru sífellt að koma nýjar rannsóknir sem sýna það betur og betur að samtalið er forsendan fyrir því að byggja upp málþroska hjá börnum. Jafnframt hefur komið í ljós að málþroskinn er forsenda alls konar annars þroska.

Svo þarf skólinn að fylgja þessu eftir með því að gera íslenskuna skemmtilega, jákvæða og áhugaverða. Gæta þarf þess að falla ekki niður í eitthvert málfræðistagl vegna þess að það er svo margt sem hægt er að gera til þess að gera íslenskuna spennandi. Þannig verður það að vera. Því að ef að unga fólkið fær ekki áhuga á íslenskunni, áhuga á að nota hana á öllum sviðum, að þá er hún dauðadæmd" segir Eiríkur Rögnvaldsson.  

Hlusta má á viðtali við Eirík Rögnvaldsson hér

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Gerður Kristný fær verðlaun Jónasar Hallgrímssonar