Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Heimsending frá Sinfóníuhljómsveit Íslands: Dúó Edda

Mynd: SÍ / SÍ

Heimsending frá Sinfóníuhljómsveit Íslands: Dúó Edda

17.11.2020 - 17:00

Höfundar

Sinfóníuhljómsveit Íslands býður upp á heimsendingar í streymi frá Hörpu á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 17 næstu vikur á meðan samkomutakmarkanir útiloka hefðbundið tónleikahald.

Heimsending Sinfóníuhljómsveitar Íslands kemur í þetta sinn frá einum af hinum fjölmörgu kammerhópum sem starfræktir eru innan hljómsveitarinnar, en þessi heitir Dúó Edda og er skipað þeim Veru Panitch fiðluleikara og Steineyju Sigurðardóttur sellóleikara. Þær eru nýlega sloppnar úr sóttkví eftir að hafa brugðið sér til Kaupmannahafnar til að taka þátt í hinni virtu P2-kammertónlistarkeppni sem Danska ríkisútvarpið, DR, stendur fyrir og hreppt þar þriðju verðlaun. Í þessari heimsendingu bjóða þær upp sýnishorn af efnisskránni sem þær léku í keppninni.

Tékknesk sveifla

Verkin sem Dúó Edda leikur eru eftir tvö tékknesk tónskáld, sem bæði voru samin á millistríðsárunum. Fyrst hljómar Zincaresca úr Dúói fyrir fiðlu og selló eftir Erwin Schulhoff, tónskáld sem lét mjög til sín taka á árunum eftir fyrra stríð og fléttaði saman þjóðlega tónlist við áhrif frá framúrstefnutónlist, jazzi og suður-amerískum dönsum. Schulhoff, sem var af gyðingaættum, lést úr berklum í fangabúðum nasista 1942 og féll tónlist hans að mestu í gleymsku, en hefur á síðustu áratugum notið vaxandi vinsælda á ný. Hitt verkið á efnisskrá Dúó Eddu er svo Dúó fyrir fiðlu og selló eftir Bohuslav Martinú, tónskáld sem varði æskunni í kirkjuturni í litlu þorpi í Bæheimi þar sem faðir hans var hringjari, en samdi þetta verk í heimsborginni París þar sem hann naut mikillar velgengni sem tónskáld. Síðar flúði Martinú undan nasistum til Bandaríkjanna og hélt þar áfram tónsmíðaferli sínum, meðal annars með sex sinfóníum sem allar voru frumfluttar af bandarískum hljómsveitum.

Heimsendingar í kófinu

Sinfóníuhljómsveit Íslands stendur fyrir svokölluðum Heimsendingum á þriðjudögum og fimmtudögum næstu vikur á meðan samkomutakmarkanir útiloka hefðbundið tónleikahald, og eru þær birtar kl. 17 á menningarvef RÚV, sem og á vef- og facebooksíðu hljómsveitarinnar.