Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Heilsugæslan tilbúin um leið og kallið kemur

Mynd: RÚV / RÚV
Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að heilsugæslan verði tilbúin til að bólusetja um leið og efnið kemur til landsins. Nú þegar sé hafinn undirbúningur á tæknilegri útfærslu á bólusetningu. Óskar var gestur í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.

Getur gengið mjög hratt

„Við erum að undirbúa okkur undir það að framkvæma verkið. Fara út að sprauta og fá fólkið til okkar. Og við bíðum spennt eftir þessu, því bólusetningar eru okkar ær og kýr,“ segir Óskar. 

„Við getum gert þetta mjög hratt því við erum með marga vinnustaði. Ef við lítum á heilsugæsluna á landinu þá eru þær margir tugir. Við erum ekki nema eina mínútu með hvern svo það er hægt að gera þetta ansi hratt. Ef ég tek bara heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu, við erum með sjö til átta hundruð starfsmenn og ef ég tek einkareknu stöðvarnar með eru þetta um þúsund starfsmenn sem eru að vinna. Þannig að við erum ekki lengi að þessu,“ segir hann. 

„Hins vegar það að fá bóluefni kemur ekki allt í einu, ef ég nota kristalskúluna til að spá í framtíðina,“ bætir hann við. 

Tæknileg útfærsla svipuð og við skimun

Óskar segir að sóttvarnalæknir taki ákvörðun um forgangsröðun í bólusetningu og sé vel á veg kominn með undirbúninginn. Einnig sé farinn af stað undirbúningur á tæknilegri útfærslu. „Svo er það tæknilegur undirbúningur svo þetta verði þannig að fólk fái bréf frá okkur um það hvert það á að mæta og hvenær. Við notum forritarana í að undirbúa það svo þetta verði eins og þessar skimanir sem við erum búin að vera með, mjög sjálfvirkt en samt sem áður mjög vandað og öruggt,“ segir hann.

Kerfin sem hafa verið þróuð í kringum skimun, bæði landamæraskimun og einkennasýnatöku, geta nýst vel og sennilega verður hægt að styðjast við svipað fyrirkomulag við bólusetningu. „Nema það að við þurfum auðvitað að velja hverjir eiga að fá bólusetningu. Og það er það sem þeir sem eru að undirbúa þetta eru að vinna með,“ segir Óskar. Hægt væri að senda fólki strikamerki í símann, eins og gert hefur verið í skimuninni. 

Sumar tegundir bóluefnis þarf að geyma í miklu frosti. Óskar segist ekki óttast að það verði vandamál á höfuðborgarsvæðinu. „Sjálfsagt getur það verið kúnst fyrir lengri ferðir. En þeir kunna það nú alveg, innflytjendurnir á bóluefninu,“ segir hann.