Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Hafa uppgötvað fjöll og dali á hafsbotni við Ísland

Mynd: Sjávarútvegsdagurinn / Sjávarútvegsdagurinn
Neðansjávarfjöll og dalir hafa komið í ljós í rannsókn Hafrannsóknarstofnunar, sem miðar að því að kortleggja hafsbotninn innan efnahagslögsögu Íslands. Búið er að kortleggja um þriðjung hafsbotnsins og er búist við því að verkefnið taki níu ár til viðbótar.

Efnahagslögsaga Íslands er ansi stórt svæði, nánar tiltekið 754 þúsund ferkílómetrar. Árið 2017 réðst Hafrannsóknastofnun í það mikla átaksverkefni, að kortleggja svæðið, og hefur notað til þess hafrannsóknaskipið Árna Friðriksson. Kortlagningin fer þannig fram að sigldar eru samfelldar línur um allt svæðið og fjölgeisladýptarmælir notaður til þess að skjóta mæligeislum niður á botn.

„Mælingarnar nýtast í mjög margþættum tilgangi, einna helst sem forsenda fyrir vísindalega nálgun á sjálfbæra nýtingu auðlinda og verndun,“ segir Davíð Þór Óðinsson, jarðfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun.

2.500 metra dýpi

Hingað til hefur þekkingin nýst við rannsóknir á lífríki hafsins, eðliseiginleikum sjávar og jarðfræði hafsbotns. Davíð segist stundum upplifa sig eins og landkönnuð 21. aldarinnar.

„Landslagið á hafsbotninum er mjög fjölbreytilegt. Í mælingunum í sumar sáum við áður ókannað landslag í Vesturdjúpi. Þar má sjá mjög stóra hryggi og farvegi,“ segir Davíð.

Þá hafa einnig fundist fyrirbæri sem kalla mættti neðansjávarfjöll eða -keilur.

„Og þetta teygir sig allt inn í Vesturdjúpið. Þetta er hafsvæði sem er á allt að 2.500 metra dýpi þegar við fórum hvað dýpst. Þar er líka mjög tignarlegt fjall sem er talað um sem Herðubreið Vesturdjúpsins.“

Níu ár

Þá segir Davíð að heildarmynd sé komin á mjög stórfenglegt gljúfrakerfi í landgrunnshlíðinni suður af landinu þar sem hinir ýmsu farvegir liggi um og sameinist í meginfarveg, Maury-kanalinn, sem liggur frá Færeyjum til suðvesturs. Þá hefur einnig verið staðfest uppstreymi á jarðhitasvæði við Eldey, og annað á Steinahól á Reykjaneshrygg. Samhliða fjölgeislamælingum eru gerðar jarðlagamælingar sem sýna afstöðu setlaga nokkra tugi metra niður fyrir hafsbotninn.

Hafrannsóknastofnun er búin að kortleggja rúmlega þriðjung lögsögunnar, eða allt litaða svæðið á þessari mynd. Áætlað er að verkinu verði lokið eftir níu ár, árið 2029.