Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Hætta að rukka fyrir skimun á landamærunum

17.11.2020 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Til stendur að afnema gjaldtöku vegna sýnatöku á landamærunum frá og með 1. desember. Málið var rætt á ríkisstjórnarfundi í morgun. Forsætisráðherra telur að áfram verði sóttvarnarráðstafanir en aðventan geti vonandi orðið góð þó hún verði ekki með hefðbundnu sniði að þessu sinni.

Fjárlög og fjáraukalög voru meðal þeirra mála sem voru rædd á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun en þeim þarf að ljúka fyrir jólafrí. Þessir þættir eru með óvenjulegu sniði í ár vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru í samfélaginu vegna kórónuveirufaraldursins.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra sagði að nú væri verið að taka fyrir fimmtu fjáraukalögin á þessu ári og sömuleiðis sé verið að ljúka við fjárlagagerðina.

„Þetta eru þau mál sem taka mestan tíma ásamt sóttvarnarráðstöfunum. Ég mun koma með tillögu hér inn á föstudaginn og það hangir saman við margt annað. Eitt af því sem við höfum þegar tekið ákvörðun um er að við munum fella niður gjaldtöku fyrir skimarnir á landamærunum og það er til að tryggja að það sé engin fjárhagsleg fyrirstaða fyrir því að fólk fari í skimun sem við höfum fundið fyrir. Það eru tæp 3% sem hafa valið 14 daga sóttkví umfram skimun en með þessu munum við tryggja að það sé að minnsta kosti ekki af fjárhagslegum kvötum. Síðan eigum við von á gagnkvæmri viðrukenningu vottorða. Fyrstu tíðindi af því eiga að berast í vikunni þannig að ég vænti þess að á föstudaginn muni liggja fyrir hvert framhaldið verður og hver verða næstu skref.“

Ísland er nú ekki lengur á svokölluðum rauðum lista. Það auðveldar ferðalög þeirra sem héðan fara til annarra landa en flestar þjóðir í Evrópu eru enn merktar rauðar á evrópska litakóðunarkortinu.

„Sem þýðir það að það eru hertar sóttvarnarráðstafanir í gangi en við erum í raun  og veru ekkert að  miða við þetta litakóðunarkerfi við erum bara með okkar kerfi sem er val um tvöfalda skimum eða 14 daga sóttkví.“

Katrín bindur vonir við að smitum innanlands fækki hratt á næstu dögum.

„Þannig að við erum á réttri leið en ég held hins vegar ekki að hér verði búið að aflétta öllum sóttvarnarráðstöfunum. Það er ekki svoleiðis og við megum eiga von á að þær verði áfram. Ég er að vonast til að við fáum að sjáum ákveðið hlé í faraldrinum og að við getum átt góða aðventu en hún verður ekki eins og hefðbundin aðventa.