Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Góðar niðurstöður og við vitum hvað þarf til

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Þetta er góðar niðurstöður, segir sóttvarnalæknir um fá innanlandssmit í gær. Hann segir almenning vita hvað þurfi til svo árangurinn verði áfram góður. Innanlandssmit hafa nú verið færri en 30 á dag í sautján daga og undir tíu síðustu þrjá daga. 

Bara einn utan sóttkvíar

Af sjö greindum smitum var eitt utan sóttkvíar. Síðast greindist einn utan sóttkvíar 12. september en þann dag greindust aðeins tvö smit. Fimm smitanna í gær voru á höfuðborgarsvæðinu og tvö á Norðurlandi eystra. 1287 sýni voru tekin að frátöldum landamærasýnum. 57 liggja á sjúkrahúsi, þar af fjórir á gjörgæslu. 
 
„Þetta eru vissulega góðar niðurstöður sérstaklega í ljósi þess að það voru tekin mörg sýni í gær og það er bara ánægjulegt að sjá að þetta eru ekki það margir. Og það er einn þarna utan sóttkvíar þ.a. þetta er bara mjög fínt,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. 

Þetta er áframhaldandi gott gengi?

„Já, ég mundi bara segja það og ég held við getum bara þakkað það samtakamætti og aðgerðum einstaklinga og allra sem tekið hafa þátt í þessu. Þetta hefur bara skilað þessum árangri og við höfum séð það áður þ.a. að við vitum hvað þarf til.“

Nýgengi hríðlækkar

Nýgengi smita hér fer hríðlækkandi. Síðustu fjórtán daga er nýgengi nú tæp 84 smit á hverja hundrað þúsund íbúa samkvæmt Sóttvarnastofnun Evrópu. Á föstudaginn hins vegar var nýgengið tæp 132 smit. Nýgengi í Evrópu er næstlægst á Íslandi en lægst í Finnlandi, þar sem það er 55 smit. Tékkland, Austurríki og Liechtenstein eru með mest nýgengi, meira en eitt þúsund. Litakóði Íslands er nú appelsínugulur. Komist nýgengið niður í 25 á hverja 100 þúsund íbúa verður litakóðinn grænn. Það þýðir að fólk getur ferðast héðan óhindrað á meðan faraldurinn geisar samkvæmt regluverki Schengen. 

Vonar að samstaðan haldi áfram

Tilslakanir sem taka gildi á morgun eru meðal annars þær að íþrótta, æskulýðs og tómstundastarf barna í leik- og grunnskólum verður heimilað á ný. Börn í 5. til 7. bekk þurfa ekki að vera með grímur og fjöldatakmörk í framhaldsskólum verða 25. Leyfilegt verður að fara á klippingu og aðra þess háttar þjónustu sem krefst snertingar eða nándar. 
  
„Og ég vona bara að það gangi allt saman vel. Það eru náttúrulega margar spurningar sem hafa vaknað og gagnrýni á ýmislegt sem að hefur verið gert og ég vona bara að menn sko haldi þessari samstöðu áfram þannig að við höldum áfram að sjá þennan góða árangur sem okkur hefur tekist að ná með samtakamættinum.“