Frost og vetrarfærð nyrðra

17.11.2020 - 08:36
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands
Spáð er frosti víðast hvar á landinu í dag, á bilinu 0 til 8 stig. Veðurstofa Íslands spáir norðlægri átt, víða stinningsgola eða kaldi, 5-10 m/s, en 8-13 m/s norðvestantil og með austurströndinni.

Það verða dálítil él um norðaustanvert landið en skýjað með köflum annarsstaðar. Í hugleiðingum veðurfræðings á vakt á Veðurstofunni segir að víða muni sjást til sólar sunnan- og vestanlands.

Á morgun herðir svo frostið og verður á bilinu 2 til 12 stig. Enn verður kaldast inn til landsins. Þá verður fremur breytileg átt og léttskýjað, norðan strekkingur með austurströndinni.

Það er vetrarfærð um nær allt norðan- og austanvert landið. Það eru hálkublettir á þjóðvegum norðvestanlands, hálka í Skagafirði, á Tröllaskaga og á Öxnadalsheiði ofan í Eyjafjörð.

Hálka og snjóþekja er á þjóðvegum norðaustanlands og snjókoma og éljagangur. Víða er unnið að mokstri.

Á Austurlandi og Austfjörðum er hálka eða hálkublettir á nær öllum leiðum, nema helst í sunnanverðum fjörðunum.

Það eru hálkublettir á Djúpvegi á Vesfjörðum og hálka á Steingrímsfjarðarheiði.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV