Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fimmta stigs fellibylurinn Iota er skollinn á Níkaragva

Fellibylurinn Eta kostaði minnst 200 mannslíf og olli feikilegu tjóni á mannvirkjum í mörgum löndum Mið-Ameríku í byrjun nóvember 2020. Hvassviðrið olli mikilli eyðileggingu, en flóðin og skriðurnar sem fylgdu gerðu jafnvel enn meiri usla og kostuðu enn fleiri mannslíf.
Aðeins eru tvær vikur síðan fellibylurinn Eta kostaði minnst 200 mannslíf og olli gríðarmiklu tjóni í Níkaragva og víðar í Mið-Ameríku. Flóðin og skriðurnar sem fylgdu fellibylnum voru jafnvel enn mannskæðari en bylurinn sjálfur og óttast er að það verði einnig raunin nú. Mynd: AP
Fellibylurinn Iota tók land á norðanverðri Atlantshafsströnd Níkaragva laust fyrir klukkan eitt að íslenskum tíma. Iota er fimmta stigs fellibylur, þar sem meðalvindhraðinn nær allt að 72 metrum á sekúndu og hviður eru enn hvassari, skýfall eltir skýfall og sjávarflóð ógna strandbyggðum hvar sem hann fer, segir í viðvörun Bandarísku fellibyljastofnunarinnar. Tugir þúsunda hafa neyðst til að yfirgefa heimili sín í strandhéruðum Níkaragva og Hondúras, þar sem fellibylurinn mun hamast hvað harðast.

Eyðileggingarmáttur fellibylja á borð við Iota er óskaplegur og enginn óhultur þar sem þeir fara um. Hús sundrast, tré rifna upp með rótum, rafmagnsmöstur falla og línur slitna, vegir rofna og brýr hrynja í flóðum og hamfarasvæðið er að mestu „óbyggilegt í margar vikur eða mánuði á eftir," eins og segir í viðvörun Bandarísku fellibyljamiðstöðvarinnar.

Tvær vikur frá síðasta fellibyl

Aðeins eru tvær vikur síðan fellibylurinn Eta gerði mikinn usla á þessum sömu slóðum. Eta var fjórða stigs fellibylur þegar hann gekk á land en hjaðnaði niður í rosafenginn hitabeltisstorm litlu síðar, sem olli feikimiklum flóðum og skriðum sem kostuðu yfir 200 mannsíf. Fleiri fellibyljir og hitabeltisstormar hafa myndast yfir Atlantshafi á þessu fellibyljatímabili en nokkru sinni síðan farið var að halda utan um slíkar upplýsingar. Fellibyljirnir eru orðnir 13 og hitabeltisstormar sem eru nógu öflugir til að fá sérstakt heiti eru 30 talsins.