Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Engir fundir í flugvirkjadeilunni síðan verkfall hófst

Mynd með færslu
 Mynd: Landhelgisgæslan
Engir fundir hafa verið hjá samninganefndum Flugvirkjafélags Íslands og ríkisins eftir að verkfall flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni hófst fyrir 11 dögum. Guðmundur Úlfar Jónsson, formaður Flugvirkjafélagsins, segir að ríkið vilji gera nýjan samning frá grunni og þannig yrðu kjör flugvirkja Gæslunnar önnur en annarra flugvirkja sem vinna sambærileg störf. Það komi ekki til greina.

Verkfallið hófst á miðnætti 6. nóvember og nær til allra verka sem flugvirkjar Gæslunnar sinna að undanskildum, lögboðnum verkefnum. 

„Við höfum ekki fundað frá því fimmtudaginn 5. nóvember og eigum að funda á 14 daga fresti samkvæmt reglugerð ríkissáttasemjara. Þannig að sá tími er nú ekki alveg liðinn,“ segir Guðmundur.

Hann segir að í gildi sé einn aðalkjarasamningar flugvirkja sem innihaldi allar helstu greinar sem snúi að kjörum stéttarinnar. Því til viðbótar eru viðaukar einstakra flugrekenda og það á líka við um samning flugvirkja Gæslunnar.

„Ríkið hefur ekki viljað endurnýja samning flugvirkja Gæslunnar sem þeir hafa haft frá árinu 1983, heldur vill ríkið gera alveg nýjan samning um þeirra kjör og starfsumhverfi. Kjarasamningurinn sem flugvirkjar Gæslunnar fylgja hefur þróast með flugvirkjum á Íslandi í yfir 50 ár og er sniðinn að þeirra starfsumhverfi,“ segir Guðmundur.

Han segir að ekki sé sérstakur ágreiningur um launaliðinn í þessum samningsviðræðum. „Það staðlaða samningsform, sem ríkið hefur í huga, gagnast okkur ekki. Við erum tilbúnir til að ræða allar hugsanlegar útfærslur í okkar samningsumhverfi, en við ætlum að vera inni í því umhverfi samt sem áður,“ segir Guðmundur.