Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Enginn ábyrgur fyrir því að líkhús séu til staðar

17.11.2020 - 15:18
Mynd með færslu
 Mynd:
Sveitarstjóri Langanesbyggðar hvetur ríkisvaldið til að ákveða hver ber ábyrgð á að líkhús séu til staðar. Ekki sé forsenda fyrir fyrirtækjarekstri í fámennari sveitarfélögum, þar séu málin því ekki í föstum skorðum.

Langanesbyggð og Svalbarðshreppur hafa gert samning við sóknarnefnd Þórshafnarkirkju um rekstur líkhúss í kirkjunni. Jónas Egilsson, sveitarstjóri Langanesbyggðar, segir sóknarnefndina hafa haft umsjón með lítilli aðstöðu í Þórshafnarkirkju. Það hafi verið kostnaðarsamt fyrir kirkjuna og ekki skilgreint verkefni hennar, hún hafi því sagt sig frá verkefninu á árinu. 

Ekki forsendur fyrir rekstri

Þar sem hvergi sé skilgreint í lögum hverjir eigi að sinna þessum málaflokki hafi sveitarfélagið gengist í ábyrgð þar til önnur lausn finnist. Jónas segir vandamálið ekki nýtt af nálinni. Ráðherrum og þingmönnum hafi verið bent á að málaflokkurinn sé í ólestri en ekkert sé gert. Í fjölmennum sveitarfélögum sinni einkaaðilar málaflokknum og stundum sjúkrastofnanir eða heilsugæslur. Ábyrgðin liggi hins vegar hvergi því sé engin lausn fyrir fámennari byggðarlög þar sem ekki séu forsendur fyrir fyrirtækjarekstri á þessu sviði.

„Raunverulega þyrfti ríkisvaldið að ákveða, með lögum helst, hver ber ábyrgð á þessum málaflokki,“ segir Jónas. Eigi sveitarfélögin að taka þetta yfir þurfi þau að hafa tekjustofna til þess. Eðlilegast þætti honum að málaflokkurinn væri á vegum sjúkrahúsa og heilsugæslu.

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV