Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Eldri sjúklingar hornreka í kerfinu

17.11.2020 - 20:51
Ólafur Samúelsson, formaður félags íslenskra öldrunarlækna, segir hópsmitið á Landakoti sýna að eldri sjúklingar hafi orðið hornreka í heilbrigðiskerfinu. „Aðstaðan sem boðið er upp á þjónar ekki þeim þörfum sem þessi hópur hefur,“ segir hann. Ólafur var gestur Einars Þorsteinssonar í Kastljósi kvöldsins.

Hann segir húsnæðið og aðbúnaðinn á Landakoti ekki styðja vel við þjónustu við sjúklingana.

„Nýi spítalinn leysir ekki þessi vandamál“

Ólafur segist ekki sjá að nýr spítali leysi þessi vandamál. „Nýr spítali er algjörlega nauðsynlegur en hann er fyrst og fremst miðaður við bráðaþjónustuna,“ segir hann. Öldrunarlæknar hafi ítrekað bent á mikilvægi þess að gera ráð fyrir öldrunarlæknastarfseminni í tengslum við nýja spítalann. „En við höfum því miður talað fyrir daufum eyrum því í uppbyggingu spítalans og lóðarinnar er ekki gert ráð fyrir þessari starfsemi,“ segir hann. „Nýi spítalinn mun ekki leysa þessi vandamál sem eru tengd húsnæði til dæmis.“

Hvaða svör hafið þið fengið? Á að færa starfsemina í Fossvog, eða hvað stendur til?

„Við höfum fengið svolítið óljós svör og félagið er með í undirbúningi ályktun um að kalla kannski eftir því að við höfum einhverja framtíðarsýn um öldrunarlækningar á nýjum Landspítala. Og kannski ekki síður þjónustu spítalans við mjög vaxandi hóp fjölveikra aldraðra og hvernig henni verður háttað, hvort hún verði gerð á nútímalegan hátt eða með gömlu fyrirkomulagi,“ segir hann. 

„Við þurfum að bjóða upp á spítalaþjónustu sem skilur þarfir þessa hóps,“ bætir hann við og segir eldra fólk stundum ekki virðast passa inn í þau form sem spítalinn setur.

Heimsóknatakmarkanir alvarlegustu áhrif faraldursins

„Það sem ég held að hafi langmest og kannski alvarlegustu áhrifin í þessum faraldri, það eru heimsóknatakmarkanir. Þetta hefur svo mikil áhrif á félagsleg tengsl. Ástvinir sem ekki komast nema takmarkað í heimsókn og gamla fólkið sem saknar sinna nánustu og stundum er að glíma við minnistap og samskipti eru það sem gefur lífinu áfram gildi. Ég held að þetta sé það alvarlegasta við þetta,“ segir hann. 

Hafa hjúkrunarheimili haft burði til að nýta tæknina í meira mæli til að efla samskipti við ástvini?

„Ég held að það hafi ekki verið þannig að hjúkrunarheimili ráði almennt við að tækjavæða, til dæmis talandi um smitvarnir er ekki gott að tækin gangi manna á milli,“ segir Ólafur. Yfirleitt sé það fólkið sjálft og aðstandendur sem verði sér úti um slíka tækni, enda þurfi margir mikla hjálp við að nýta tæknina. „En þetta hefur svo sannarlega verið reynt,“ segir hann.