Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Bein afleiðing af hlýnun loftslags

17.11.2020 - 19:56
Mikil úrkoma fylgdi Iota í Cartagena í Kólumbíu. - Mynd: EPA-EFE / EFE
Fellibylurinn Iota kom á land í Nígaragua í morgun. Hann er fimmta stigs fellibylur og sá öflugasti á árinu. Óttast er að eyðileggingin verði mjög mikil. Þúsundir hafa neyðst til að flýja heimili sín í Nígaragua og Hondúras. Tveir, hið minnsta, hafa farist í hamförunum.

Fellibyljatímabilinu ætti að vera lokið og segir Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, að það sé mjög óvenjulegt að það komi fimmta stigs fellibylur eftir að tímabilinu sé lokið. 

Hverjar eru ástæður þess að það koma fellibylir svo seint á árinu? „Það eru mjög hagstæð skilyrði fyrir fellibyljamyndun og eitt og annað sem að leggst saman í þeim efnum en sérstaklega er sjávarhiti á Mexíkóflóa mjög hár og er hreinlega bara ekki fallinn niður fyrir þetta gildi sem þarf til þess að fellibylirnir hætti að myndast og þetta er í raun og veru bein afleiðing af hlýnun loftslags,“ segir Elín Björk.  

Fyrir aðeins fjórtán dögum fór fellibylurinn Eta um sama svæði. Þá fórust 178 manns. „Það geta alveg komið fellibylir hvað eftir annað og hver ofan í annan nánast, eins og við sáum fyrr á tímabilinu. Á tímabili voru þrír fellibylir á sveimi á sömu slóðum en að þeir komi svona ört þetta langt gengið á tímabilið og í raun og veru í lok tímabilsins, það er mjög óvenjulegt,“ sagði Elín Björk í viðtali í beinni útsendingu í sjónvarpsfréttum.