Algjört kjaftæði að tíminn lækni öll sár

Mynd: RÚV / RÚV

Algjört kjaftæði að tíminn lækni öll sár

17.11.2020 - 11:45

Höfundar

Þorsteinn J. Vilhjálmsson segir frá atburði sem hafði mikil áhrif á fjölskyldu hans í bókinni Ég skal vera ljósið. „Ég held að tíminn geti gert manni mjög erfitt fyrir ef maður ætlar að vera staddur í þessari sorg og áfallinu um aldur og ævi.“

Ég skal vera ljósið er skáldverk soðið saman úr raunverulegum atburðum og skáldskap. Sögusviðið er Slippurinn í Reykjavík og aðalpersónan, slippstjórinn, rifjar upp atburði úr eigin lífi. Í upphafi virðist þetta vera hans saga en svo kemur í ljós að hann er líka að endursegja, fara yfir og leiðrétta, frásögn konu af hörmulegi slysi sem gerðist vestur á Kaplaskjólsvegi árið 1943. 

„Þetta er auðvitað verk sem er byggt á sönnum atburðum, eins og allur skáldskapur, held ég," segir Þorsteinn. „Hér og hvar eru einhverjar vísbendingar um að þetta hafi raunverulega gerst. Smám saman fór að kvikna hjá mér hugmynd að því að geta dregið saman nokkrar ólíkar sögur og búið til þessa sögu eða þessa bók úr því, með Slippinn þá sem sögusvið.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Bókin er að stórum hluta saga móður Þorsteins, en einnig afa hans og ömmu „Hugmyndin var að taka atburð sem gerðist í fjölskyldunni fyrir mörgum árum, í desember og skoða hann í nýju ljósi.“

Atburðurinn er bílslys þar sem frændi hans dó, Jens Þorsteinsson, eftir að herbíll ók hann barnungan niður. „Mér var hugleikið að sjá og athuga hvernig einn atburður í fjölskyldu getur valdið öllum þessum álögum og þessari endalausu sorg. Þar sem í staðinn fyrir að við upplifum sorg, það er eitthvað sem gerist og við förum í gegnum það, að þá er atburðurinn alltaf til staðar og litar allt líf fjölskyldunnar bara þar eftir eiginlega.“

Móðir Þorsteins tókst aldrei almennilega á við banaslysið, segir Þorsteinn. „Ef maður setur sig í spor þessarar kynslóðar, hennar og svo afa míns og ömmu, að það er oft sagt að í þá daga var ekki talað um neitt. Ég held að það hafi ekkert breyst. Þetta er ennþá svona. Ef það er eitthvað sem gerðist í fjölskyldu, einhver sem dó eða drakk eða var geðveikur eða drap sig, þá bara einhvern veginn má ekki tala um það. Ég held að sorgin sé þess eðlis að við verðum að fara í gegnum hana. Það er sagt að tíminn lækni öll sár. Ég held að það sé algjört kjaftæði. Ég held að tíminn geti gert manni mjög erfitt fyrir ef maður ætlar að vera staddur í þessari sorg og áfallinu um aldur og ævi og það skilar sér áfram til kynslóðanna hvort sem maður vill það eða ekki.“