Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Akureyrarkirkja fagnar 80 ára afmæli í dag

17.11.2020 - 13:09
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Akureyrarkirkja fagnar 80 ára afmæli í dag 17. nóvember en kirkjan var reist árið 1940. Það var Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, sem teiknaði kirkjuna. Öllum hátíðarhöldum hefur verið frestað vegna faraldursins. Prestur í Akureyrarkirkju segir kirkjuna hluti af ímynd Akureyrar.

Afmælinu fagnað síðar

Séra Svavar Alfreð Jónsson, prestur í Akureyrarkirkju segir að afmælinu verði fagnað þegar tækifæri gefst. „Við ætluðum að vera með hátíðarmessu en urðum að fresta henni vegna Covid. Þá ætluðum við að taka upp hátíðarhelgistund og sýna á netinu en gátum ekki tekið upp kórsöng vegna Covid. Við frestum því bæði messunni og upptökunni en fögnum þegar leyfi fást,“ segir Svavar.

Sagði kirkjustæðið það fegursta í heimi

Svavar Alfreð rifjar upp sögu kirkjunnar en deilur urðu í bænum um staðsetningu hennar. „Sóknarnefndin þurftu að sannfæra bæjarstjórnina um ágæti þess að reisa nýja Akureyrarkirkju þar sem hún nú stendur. Bæjarstjórninni fannst kirkjan trufla samgöngur til og frá athafnasvæðinu í miðbænum. En þegar hún lét loksins til leiðast sagði Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins og arkitekt Akureyrarkirkju, að kirkjustæðið væri það fegursta sem hann hefði séð „hérlendis og erlendis" eins og hann orðaði það.“

„Fólki þykir vænt um húsið“

Svavar segir kirkjuna eiga stóran sess í hjörtum Akureyringa. „Hún er hluti af ímynd bæjarins og sjálfsmynd Akureyringa, hvaða skoðun sem þeir hafa á trúmálum. Fólki þykir vænt um húsið. Klukkurnar sem hringja á korters fresti eru hluti af hljóðmenningu bæjarins. Guðjón Samúelsson átti líka hugmyndina að kirkjutröppunum. Mér finnst kirkjan og tröppurnar dæmi um samspil manns og náttúru. Þessi mannvirki fegra og auðga brekkuna en án hennar væru þau heldur ekki neitt.“

Mynd með færslu
 Mynd: akureyrarkirkja.is - RÚV
Svavar Alfreð Jónsson