„Æskilegast að hér færi fram opinber rannsókn“

Borgarfulltrúar fengu aðgang að vitnaleiðslum yfir starfsfólki í Arnarholti árið 1971
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Einhverjir borgarfulltrúar í borgarstjórn Reykjavíkur voru á þeirri skoðun að skipa ætti opinbera rannsóknarnefnd til þess að kanna aðbúnað á vistheimilinu Arnarholti árið 1971. Þetta kom fram í umræðum í borgarstjórn sem fóru fram á lokuðum fundum í júlí sama ár. Borgarfulltrúarnir fengu aðgang að vitnaleiðslum yfir starfsmönnum heimilisins. Mikil samstaða var um það innan borgarstjórnar, að fela Borgarspítalanum rekstur heimilsins.

Starfsfólk á vistheimilinu Arnarholti lýsti ómannúðlegri meðferð á heimilisfólki í ítarlegum vitnaleiðslum fyrir tæpri hálfri öld. Nefnd þriggja lækna, sem skipuð var til að rannsaka málið, komst að þeirri niðurstöðu að engra aðgerða væri þörf, en borgarstjórn ákvað samt á lokuðum fundum að geðdeild Borgarspítalans skyldi taka heimilið yfir.

Umræðurnar á fundum borgarstjórnar voru lokaðar með fyrirvara um að þær yrðu fjölritaðar sem trúnaðarmál og ekki birtar nema borgarstjórn gerði um það sérstaka samþykkt. Borgarskjalasafn ákvað, í samráði við borgarlögmann í síðustu viku, að aflétta trúnaði af þessum gögnum, tæplega hálfri öld eftir að þau voru skrásett. Sú ákvörðun var tekin í kjölfar fréttaflutnings af málefnum Arnarholts.

Málið var rætt á tveimur fundum borgarstjórnar, 1. og 15. júlí 1971.

Fundurinn 1. júlí hófst á því að Steinunn Finnbogadóttir, borgarfulltrúi Sam­taka frjáls­lyndra og vinstri manna, kvaddi sér hljóðs og sagði meðal annars um álit nefndar læknanna þriggja, sem lá þá fyrir:

„Ég tel niðurstöðuna furðulega og á þann veg, að ekki verði lengur stiklað í kringum þetta mál. Og þar sem ég tel óumflýjanlegt að fara ofan í málið hér á þessum fundi, með því að vitna í og lesa upp framburði fólks, sem eru efnislega mjög alvarlegir og einnig persónulegir, þá legg ég fram tillögu um, að fundurinn verði lokaður á meðan að þetta mál verður rætt.“

Þessi tillaga Steinunnar var samþykkt samhljóða, og var ákveðið að ræða málið undir lok fundarins.

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV

Af þeim gögnum sem fréttastofa hefur undir höndum er ekki ljóst hvort Steinunn las upp úr vitnaleiðslunum undir lok fundarins. Hins vegar kemur fram að Steinunn hafi ásamt Öddu Báru Sigfúsdóttur, borgarfulltrúa Alþýðubandalagsins, lagt fram eftirfarandi tillögu:

„Með hliðsjón af vitnisburðum allmargra starfsmanna, m.a. fostöðumanns og hjúkrunarkonu, getur borgarstjórn ekki fallizt á niðurstöður nefndar þeirrar, sem kannaði hagi Vistheimilisins að Arnarholti. Borgarstjórn telur, að það, sem fram hefur komið við yfirheyrslur nefndarinnar, bendi eindregið til þess að heimilisbragur í Arnarholti sé óviðunandi, framkoma við sjúklinga stundum óverjandi og læknisþjónusta gersamlega ófullnægjandi. Borgarstjórn leggur því fyrir heilbrigðismálaráð og borgarlækni, að því verði hraðað, að geðdeild Borgarspítalans taki við allri stjórn hælisins og jafnframt þegar í stað gerðar ráðstafanir til úrbóta á heimilisháttum og læknisþjónustu.“

Eftir að tillagan hafði verið borin fram var samþykkt að fresta frekari umræðum um málið til næsta fundar borgarstjórnar.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Steinunn Finnbogadóttir.

Málið var tekið upp að nýju á fundi borgarstjórnar tveimur vikum síðar, 15. júlí 1971. Áður en umræður um málið hófust á þeim fundi minnti Gísli Halldórsson, forseti borgarstjórnar, á að samþykkt hefði verið að umræðurnar færu fram fyrir luktum dyrum.

„Vildi ég því biðja blaðamenn og áheyrendur að ganga af fundi, áður en umræður hefjast. Umræðurnar verða fjölritaðar, sem trúnaðarmál og eigi birtar, nema borgarstjórn geri um það sérstaka samþykkt,“

sagði Gísli.

Næstur tók til máls Birgir Ísleifur Gunnarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem hélt langa ræðu um málið. Hann sagði meðal annars að læknarnir þrír, sem skipaðir voru til að skoða málið, hefðu fyrst og fremst litið þannig á verkefnið, að þeir ættu að kanna réttmæti þeirra einstöku ásakana sem fram hefðu verið bornar í einu dagblaðanna, og á borgarstjórnarfundum.

„En ekki að kanna rekstur heimilisins almennt eða gera tillögur þar um úrbætur.“

Birgir Ísleifur sagði að skoða yrði niðurstöðu þeirra, í því ljósi að þeir teldu sannanir ekki hafa fengist fyrir þeim ásökunum sem fram hefðu verið bornar á opinberum vettvangi.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Birgir Ísleifur Gunnarsson.

Þá nefndi Birgir Ísleifur að það hefði verið gagnrýnt, að heilbrigðismálaráð hefði skipað þrjá menn úr sínum hópi og að þeir hafi allir verið læknar. Gefið hafi verið í skyn að sú skipan mála hefði að einhverju leyti ráðið niðurstöðu nefndarinnar. Heilbrigðismálaráð hafi hins vegar aðeins haft um tvennt að velja; að biðja strax um opinbera rannsókn í málinu eða fá sérstaka trúnaðarmenn sína til að rannsaka málið. Síðari kosturinn hafi verið valinn og sagði Birgir Ísleifur ekki óeðlilegt að velja lækna til þess starfs.

„En ég vil ítreka þá skoðun mína, að ég tel það ekki réttmætt, að varpa nokkurri tortryggni á störf þessara manna, sem til nefndarstarfanna völdust, enda þótt menn kunni að deila um þá niðurstöðu, sem að þeir komust að,“

sagði Birgir Ísleifur. Hins vegar talaði hann um að þeirri gagnrýni hefði verið beint að nefndinni

„að hún hafi ekki gengið nægilega rösklega til verks í því að reyna að komast að hinu sanna, þegar framburðir stönguðust á, eins og mjög var algengt í þessu máli.“

Þá sagði Birgir Ísleifur enn fremur:

„Hitt er svo annað mál, að eftir fund borgarstjórnar fyrir hálfum mánuði, var ég þeirrar skoðunar að nauðsynlegt væri, að rita saksóknara ríkisins bréf með beiðni um opinbera rannsókn á þessu máli, svo unnt væri að beita tækjum rannsóknardómara, til að fá hið sanna fram í þeim alvarlegu ásökunum, sem fram hafa verið bornar.“

Hins vegar sagði Birgir Ísleifur að víðtæk samstaða hefði náðst um það í borgarstjórn, að fela geðdeild Borgarspítalans að taka við rekstri Arnarholts. Hann hafi því ekki viljað halda þeirri skoðun til streitu, að ráðast ætti í opinbera rannsókn. Þá sagðist hann ekki telja ástæðu til þess að leyna nokkru um málið.

„En hins vegar finnst mér þetta mál vera þess eðlis, að það sé ekki til þess að birta mikið um.“

Að lokum kynnti Birgir Ísleifur tillögu sem hann sagðist vilja leggja fram ásamt fjórum öðrum borgarfulltrúum, þeim Alfreð Þorsteinssyni, Öddu Báru Sigfúsdóttur, Halldóri Steinsen og Steinunni Finnbogadóttur, þar sem meðal annars kom fram að Arnarholt ætti að verða hluti af geðdeild Borgarspítalans, og jafnframt að ráðist yrði í margvíslegar úrbætur í Arnarholti, meðal annars að leitað yrði viðurkenningar ráðherra á heimilinu.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigurlaug Bjarnadóttir.

Næst tók til máls í umræðunum Steinunn Finnbogadóttir, borgarfulltrúi Sam­taka frjáls­lyndra og vinstri manna. Steinunn talaði stutt, sagði að fyrir lægi samkomulag um þessa niðurstöðu, sem hún sagðist ánægð með.

„En aðalmálið hjá mér í upphafi, umbætur á staðnum og það var aðalmálið allan tímann og það er aðalmálið enn, og mér sýnist að þarna sé kominn grundvöllur fyrir því, að mjög veigamikil atriði í skipulagi séu upp tekin, eins og það að tímasetja hvenær hælið falli undir stjórn geðdeildarinnar, tel ég mjög mikilvægt og þetta að falla undir sjúkrahúslögin, það er náttúrulega annar mikilvægur þáttur,“ 

sagði Steinunn.

Úlfar Þórðarson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði að taka yrði málið alvarlega. Hann vildi hins vegar ekki gera neina tilraun til þess að trufla það samkomulag sem náðst hefði.

„Ég var sama sinnis og formaður heilbrigðismálaráðs um það, að hér fyrir nokkru, að það væri lang æskilegast að hér færi fram opinber rannsókn. Nú, en úr því að samstaða hefur verið fengin innan borgarstjórnar, þá er það það þýðingarmikið atriði að ég vil ekki gera neinn ágreining út af því,“

sagði Úlfar.

Næst tók til máls Sigurlaug Bjarnadóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

„Ég verð að segja, að frá síðasta borgarstjórnarfundi fór ég með töluvert hrelldum huga og ég settist að lestri þessara skjala, sem að voru merkt trúnaðarmál, með opnum hug og ásetningi um að reyna að sjá hlutina í réttu ljósi og meta eftir því sem mér var unnt eftir þeim vitnisburði, sem ég átti eftir að sjá á þessum töluvert mörgu síðum,“

sagði Sigurlaug meðal annars.

Þá sagðist hún styðja þá tillögu sem fram hefði verið borin um að færa heimilið undir geðdeild Borgarspítalans.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Adda Bára Sigfúsdóttir.

Að lokum tók til máls Adda Bára Sigfúsdóttir, borgarfulltrúi Alþýðubandalagsins.

„Ég vil aðeins með örfáum orðum lýsa því, að ég fagna því að við höfum öll orðið sammála um að taka á þessu máli með mjög mikilli gát, þær umbætur, sem nauðsynlegar eru, þær verða framkvæmdar og það er enginn bættari að fara að níða mannorð um of af fólki,“

sagði Adda Bára meðal annars.

Loks sagði forseti borgarstjórnar:

„Kemur þá til atkvæðagreiðslu tillaga sú, er Birgir Ísleifur Gunnarsson lagði fram ásamt fjórum öðrum borgarfulltrúum, sem eru: Alfreð Þorsteinsson, Adda Bára Sigfúsdóttir, Halldór Steinsen og Steinunn Finnbogadóttir. Þeir, sem samþykkja þessa tillögu, geri svo vel að greiða atkvæði. Takk fyrir. Tillagan er samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum. Í fundargerð heilbrigðismálaráðs frá 30. apríl er ekkert, sem kemur til atkvæðagreiðslu borgarstjórnar. Dagskráin er þá tæmd og fundargerð lesin,“

sagði Gísli áður en fundi var slitið.

Arnarholt var fært undir geðdeild Borgarspítalans einum og hálfum mánuði síðar, frá og með 1. september 1971. 

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
17.11.2020 - 12:25