Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Sundlaugarvörður sinnir heimilislausum í faraldrinum

16.11.2020 - 18:47
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Forstöðumaður gistiskýlis fyrir heimilislausa segir skipta öllu máli að geta haft opið allan sólarhringinn eftir að óvæntur liðsstyrkur barst frá sundlaugarvörðum og fleirum sem hafa lítið að gera þessa dagana. Þetta er erfiðara en mitt venjulega starf, segir einn þeirra. 

„Ég er vanalega laugarvörður í Sundhöllinni. Og ég bauðst til að koma hingað til að hjálpa í neyðarskýlinu,“ segir Ronald Kopka, sundlaugarvörður.

Enda hefur Sundhöllin verið lokuð í rúman mánuð í þriðju bylgju faraldursins.

Hvað varstu að gera í Sundhöllinni á meðan hún var lokuð? „Þrífa, mála og púsla,“ svarar hann.

Var það orðið leiðinlegt? „Nei nei, en það er gott að fá rútínu og vakna og fara til vinnu og ekki vera heima allan daginn.“

Þjónusta við heimilislausa hefur verið aukin í faraldrinum. Nú er opið allan sólarhringinn, áður voru neyðarskýlin lokuð á milli 10 og 5 á daginn.  „Í þessu ástandi þar sem allt er lokað þar sem þeir hafa getað sótt sér skjól eða einhverja næringu, það er ekki til staðar í samfélaginu núna,“ segir Þór Gíslason, forstöðumaður í Gistiskýlinu á Lindargötu.

Til þess að manna vaktirnar hefur starfsfólk, eins og Ronald, af öðrum sviðum Reykjavíkurborgar, staðið vaktina. „Þetta er allt annað en ég geri á hverjum degi. Þetta er miklu erfiðara, þú sérð aðra hluti hér en í lauginni,“ segir Ronald.

Lengdur opnunartími gistiskýlanna helst í hendur við samkomubannið. Ekki er búið að taka ákvörðun um framhaldið.  „Það skiptir öllu máli fyrir þá,“ segir Þór. „Ég tel að það sé alltaf æskilegt að við höfum sem mest aðgengi fyrir þennan hóp að skjóli, hvenær sem er ekkert bara í COVID.“