Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Síaukin umræða um Soprano-fjölskylduna

Mynd: HBO / The Sopranos

Síaukin umræða um Soprano-fjölskylduna

16.11.2020 - 11:24

Höfundar

Undanfarna mánuði hafa sjónvarpsþættirnir um Soprano-glæpafjölskylduna notið aukinna vinsælda, þrátt fyrir að 13 ár séu frá því að síðasti þátturinn var sýndur. Í Bandaríkjunum margfaldaðist áhorf á þættina á streymisveitu HBO eftir að heimsfaraldurinn neyddi fólk þar í landi til að halda sig heima, 179% prósent aukning varð á áhorfinu í vor. 

Nýir hlaðvarpsþættir með tveimur leikurum þáttanna og væntanleg kvikmynd um forsögu Tonys Soprano eru einnig meðal þess sem kveikir áhuga fólks á þáttunum. The Sopranos voru hugarfóstur sjónvarpsþáttaframleiðandans David Chase og hófu göngu sína á sjónvarpsstöðinni HBO árið 1999 (stöð sem var þá varla búin stimpla sig inn nema sem framleiðandi Sex and the City). Þættirnir segja frá mafíuforingja í New Jersey, Tony Soprano og fjölskyldu hans, eiginkonunni Carmelu og börnunum þeirra tveimur. Í upphafi þáttanna er Tony að taka við æðstu stöðunni í glæpagenginu en þarf þá um leið að takast á við andlega kvilla sína, en hann glímir við þunglyndi og fær regluleg kvíðaköst. Eins mikið og hann er nú á móti því - og meðvitaður um hættuna sem felst í því, að fara að væla leyndarmálum sínum í einhvern sálfræðing - sér hann ekkert annað í stöðunni en að byrja að mæta. Í sex seríum fylgjumst við með Tony í leik og starfi, átökum innan mafíunnar, innra stríði og erfiðleikum á heimilinu. Að mörgu leyti er Tony Soprano hinn erkitýpíski ameríski fjölskyldufaðir, en um leið kaldrifjaður glæpamaður og morðingi með brenglaða siðferðiskennd.

Breyttu sjónvarpsþáttagerð til frambúðar

Það er stundum talað um að The Sopranos hafi breytt listformi sjónvarpsþáttanna. Fram að því hafði verið lögð áhersla á að segja minni, einfaldari og formúlukenndari sögur en í bíómyndum, oft á tíðum þar sem hver þáttur var sjálfstæð eining, sem endaði ýmist með úrlausn eða á bjargbrún - cliffhanger - til að sjá til þess að áhorfendur settust fyrir framan skjáinn viku síðar. Yfirleitt hafði verið lagt minna upp úr útliti og umgjörð sjónvarpsþátta en kvikmynda, þetta var ekki hvíta tjaldið heldur litli skjárinn.

The Sopranos braut þessa múra, leikarar og kvikmyndatökumenn sem höfðu sérhæft sig í kvikmyndum voru fengnir í stór hlutverk, þættirnir sögðu langa og flókna sögu,  komu á óvart með súrum draumasenum og ofskynjunaratriðum, útskýrðu ekki of mikið og sneru stöðugt upp á formúlu mafíusögunnar - allt fram á síðasta þátt. Þeir sögðu líka skilið við svarthvítt siðferði hefðbundinna sjónvarpsþátta. Áhorfendur elskuðu og samsömuðu sig með því andstyggilega illmenni sem Tony Soprano var í raun. Þættirnir eru þannig sagðir hafa opnað á þær andhetjur sem áttu eftir að einkenna stóra dramatíska sjónvarpsþætti næstu árin, í Breaking Bad, The Wire, Dexter og svo framvegis.

Sígildir og nútímalegir

Þættirnir virðast eldast eins og gott ítalskt vín. Uppleggið er auðvitað skemmtilegt. Leikurinn er oft á tíðum frábær - ekki síst hjá James Gandolfini sem leikur Tony. Umfjöllunarefnin og sagnamennskan er sígild, kinkar kolli til grískra harmleikja, Shakespeare, Godfather-þríleiksins, og spurningarnar djúpstæðar og heimspekilegar en um leið nútímalegar. Þá er persónusköpunin algjörlega stórkostleg, nánast hver einasta persóna teiknuð upp skýrum og afgerandi dráttum, nánast aldrei fyrirsjáanlegar erkitýpur, heldur djúpar og marglaga persónur sem þroskast og þróast í gegnum seríurnar, þær eru breyskar og eins og allar raunverulegar manneskjur, kómískar í breyskleikum sínum. Maður byrjar að elska þær, hatar að elska þær eða elskar að hata þær. 

Um leið virðast þættirnir tala á einhvern hátt inn í samtímann - eins og allt sígilt efni. Þetta eru þættir um Ameríku, um drauminn, hugmyndina, órana sem nafnið stendur fyrir. Land innflytjenda þar sem dugnaðurinn er sagður nóg til að vinna sig upp á toppinn. Um mafíuna sem amerískasta rekstrarformið. Þó það sé stríðið gegn hryðjuverkum, Írak og Afganistan, sem við sjáum í sjónvarpsfréttunum á heimili Soprano-fjölskyldunnar, þá er Donald Trump þarna í felum á bak við sófann. Þarna eru stöðug átök frjálslyndis og íhalds, kynþáttafordómar og hvíta verkamannastéttin. Hann er svo auðvitað nefndur nokkrum sinnum á nafn í þáttunum, yfirleitt sem tákn eða fantasía um ameríska drauminn.

Forsagan væntanleg á kvikmynd

Það virðast vera margar ástæður til að horfa á The Sopranos nákvæmlega núna. Það styttist til að mynda í kvikmynd sem tengist sagnaheimi þáttanna og er skrifuð af skapara þeirra, David Chase. Myndin sem nefnist The Many Saints of Newark á að vera frumsýnd næsta vor, en í henni verður fylgst með uppvexti Tonys Soprano í New Jersey á sjötta og áttunda áratugnum. Margar af aðalpersónum þáttanna koma fyrir, en eðli málsins samkvæmt verða hlutverkin í höndum mun yngri leikara. Hinn ungi Tony verður til að mynda leikinn af Michael Gandolfini, syni James Gandolfini heitins sem lést árið 2013.

Hlaðvarpsþættir með hámhorfinu

Þá er auðvelt að finna sér samferðarfólk í áhorfinu. Það gætu til dæmis verið hlaðvarpsþættirnir Talking Sopranos. Þar horfa tveir af aðalleikurum þáttanna, Michael Imperioli sem leikur frændann og erfðaprins Sópranó-gengisins, Christopher, og Steve Schirippa sem leikur hinn seinheppna mág Tonys, Bobby Baccalieri, á hvern einasta þátt af Sopranos og spjalla um hann. Þá fá þeir til sín nokkra af mikilvægustu aðilunum við gerð þáttanna í viðtöl. 

Það er reyndar athyglisvert að þetta eru langt því frá einu hlaðvarpsþættirnir sem gera nákvæmlega þetta. Poda Bing, Pod yourself a Gun, In at the end, The Sopranos Show, The Sopranos Podcast, Josh hasn’t seen The Sopranos, Cut to black, Oh!! A Sopranos podcast, Verdens Beste TV Serie, eru bara nokkur dæmi um hlaðvarpsþætti sem rekja sig í gegnum seríurnar, eina af annarri, þátt fyrir þátt. Stundum einn þáttarstjórnandi, stundum tveir eða þrír, stundum grínistar, stundum bókmenntafræðingar, stundum venjulegt fólk, sumir hafa komist í gegnum alla 86 þættina, sumir hafa gefist upp. 

Formið er yfirleitt svipað en Talking Sopranos hafa augljóslega vakið mesta athygli, enda hafa þeir mesta innsýn í gerð þáttanna og aðgang að nánast öllum þeim sem komu að gerð þeirra. Viðtölin eru skemmtileg þó að þau séu yfirleitt á persónulegum nótum frekar en að þau snúist um innihald þáttanna. Fyrir þá sem hafa áhuga á því hver sótti um hvaða hlutverk, hver hafði leikið í hvaða bíómynd með hverjum áður og svo framvegis þá er þetta eflaust góð skemmtun. Spjallandi sópranóarnir Michael og Steve eru kannski full uppteknir af því að „neimdroppa“, telja upp nöfn á bransafólki í kvikmyndum og sjónvarpi og hvernig ráðningaferli leikara hefur breyst í gegnum tíðina, frekar en að rýna í innihald þáttanna. Því enn þá í dag, 13 árum eftir að lokaþátturinn var sýndur, á þeim tíma umtalaðasti og umdeildasti lokaþáttur sjónvarpssögunnar, er nóg hægt að tala um The Sopranos.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Fjórar stórgóðar fordæmalausar seríur í sóttkvína

Erlent

James Gandolfini er látinn