Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Safn án veggja   

Mynd: Ólöf Gerður Sigfúsdóttir / RÚV

Safn án veggja   

16.11.2020 - 12:34

Höfundar

„Það verður að hrósa [Listasafni Reykjavíkur] fyrir að ráðast í það stóra verkefni að beina sjónum borgarbúa og annarra landsmanna að list í almannarýminu,“ segir Ólöf Gerður Sigfúsdóttir.

Ólöf Gerður Sigfúsdóttir skrifar:

Þegar ég var að brjóta heilann um hvað ég ætti að fjalla í þessum pistli, nú þegar söfn og gallerí eru lokuð, mundi ég allt í einu eftir smáforriti um útilistaverk sem ég hafði sótt í símann minn fyrir löngu síðan en aldrei notað. Það lá þess vegna beint við að grafa það upp og taka góðan göngutúr um list í almannarými á fallegum og björtum nóvemberdegi um nýliðna helgi.

Smáforritið, sem var gefið út af Listasafni Reykjavíkur í júní í fyrra, veitir upplýsingar um öll útilistaverk sem safnið hefur umsjón með í borgarlandinu, sem eru um tvöhundruð talsins. Þar að auki heldur það utan um verk utan safneignarinnar með því að ná til verka í eigu ríkis, stofnana eða einkaaðila víðs vegar um borgina. Hér er því um að ræða gífurlegt magn upplýsinga um list í almannarými, sem sett er fram á afar aðgengilegan og notendavænan hátt. Vel hannað viðmótið gerir notkunina einfalda þannig að allir geta prufað sig áfram, og svo er útlitið í anda ásýndar Listasafns Reykjavíkur, þannig að maður finnur vel fyrir tengingu við safnið þótt maður sé staddur úti á túni.

Í appinu er hægt að sjá myndir og lesa stutta texta um hvert og eitt þessara verka, hlusta á hljóðleiðsagnir um valin verk og spreyta sig á leikjum sem reyna á myndlæsið. Forritið styðst við GPS staðsetningarbúnað og er tengt við Google Maps, þannig að auðvelt er að átta sig á hvar verkin eru staðsett í samhengi við manns eigin staðsetningu, en einnig hægt er að fletta upp verkum eftir stafrófsröð heima í stofu. Þegar þysjað er inn á kortið koma í ljós tákn fyrir staðsetningu hvers verks, sem svo er hægt að kalla fram upplýsingar um í formi texta eða hljóðs, auk ljósmyndar. Þá eru sérstök tákn fyrir hljóðleiðsagnir sem settar hafa verið saman um valdar leiðir í ólíkum hverfum borgarinnar, eða alls 9 talsins.

Samstilling augna og eyrna

Þennan dag valdi ég að fylgja hljóðleiðsögn um einn af mínum uppáhalds almenningsgörðum borgarinnar, Klambratún. Garðurinn var mótaður sem lystigarður árið 1964 þar sem áður voru tún í landi bæjarins Klambra. Garðurinn var hannaður af Reyni Vilhjálmssyni, landslagsarkitekt, að norrænni fyrirmynd. Það var áhugavert að standa þarna á túninu og ímynda sér kýr á beit og bændur í kálgörðum, eða sjá fyrir sér sláturhús, reykhús og kjötverslun sem eitt sinn stóðu á svæðinu - svæði sem í dag er nýtt fyrir útivist, afþreyingu og samveru. Og nú, fimmtíu og fimm árum eftir að bæjarhús Klambra voru rifin, stendur eitt fallegasta sýningarhús borgarinnar, Kjarvalsstaðir.

Ég byrjaði göngutúrinn í austurenda garðsins þar sem undirgöngin undir Miklubraut liggja, en hægt er að velja hvaða inngönguleið inn í garðinn sem er og láta leiðsögnina byrja þar sem hverjum og einum hentar. Þennan dag iðaði garðurinn af lífi: krakkar að ærslast á leikvellinum, nýbakaðar mæður með barnavagnana sína, fjölskyldur í hjólatúr, pör í heilsubótargöngu, ungir menn að taka æfingu á líkamsræktarsvæðinu, unglingar að hanga og gamlir menn á bekk. Í garðinum eru útilistaverk sem ég hef margsinnis gengið fram hjá í reglulegum göngutúrum mínum um hverfið, en sum þeirra var ég að uppgötva í fyrsta sinn í þessari leiðsögn. Túrinn hófst á því að heyra stutt brot um sögu Klambratúns og Kjarvalsstaða, og svo gekk ég hringinn að hverju verkinu á fætur öðru. Alls voru þetta sex verk sem appið leiddi mig að: brjóstmynd af Þorsteini Erlingssyni eftir Ríkarð Jónsson, Reykjavíkurvörðu Jóhanns Eyfells, Viðsnúningi Guðjóns Ketilssonar, Minnismerki um Nínu eftir Sigurjón Ólafsson, Reki Kristins E. Hrafnssonar, og að lokum endaði ég á Hrauni, tveggjametra háum steinskúlptúr eftir pólsk-franska listamanninn Lipsi. Það tók mig tæpan hálftíma að ganga leiðina, staldra við verkin og hlusta.

Þessi aðferð við að skoða list, að ganga um með heyrnartól í eyrunum og símann í vasanum, gerir manni kleift að nota skynfærin á svo dásamlegan hátt: sjónin og heyrnin stillast saman meðan maður gengur um og tekur inn það sem verður á vegi manns. Eitt það besta við appið er að þegar maður nálgast verkin byrja upplýsingarnar að hljóma í eyrunum án þess að maður þurfi að taka upp símann eða gefa skipanir á snertiskjá. Rödd upplesarans var skýr og hraðinn þægilegur. Þetta er í fyrsta sinn sem ég skoða list í almenningsrými með þessari aðferð, og ég verð að segja þetta var mjög ánægjuleg og upplýsandi reynsla. Ég upplifði göngutúr um garðinn á alveg nýjan hátt, og mun örugglega veita þessum verkum, sem og öðrum í borgarlandslaginu, verðskuldaðri athygli héðan í frá. Ef það er eitthvað sem ég hefði viljað öðruvísi, þá væri það ef til vill bara meira af upplýsingum um hvert verk, lengri innslög eða kannski bara að geta valið að fá nánari upplýsingar. Ég komst í svo mikið listasögustuð að mig langaði að læra meira, vera úti, taka inn súrefni og láta mata mig af fróðleik. Hinsvegar get ég vel skilið að safnið kjósi að hafa textana stutta og hnitmiðaða þar sem markhópurinn er bæði fullorðnir og börn, og sennilega er appinu ætlað að vekja forvitni og kveikjur fyrst og fremst. Svo geta þeir sem ekki tala íslensku valið ensku, hvort sem þeir eru túristar eða innflytjendur.

Safneign undir berum himni

Listasafn Reykjavíkur hefur á undanförnum árum lagt aukna áherslu á list í almannrými, en merkja má greinilega stefnubreytingu í að lyfta þessum hluta safneignarinnar. Fjármagn hefur verið sett í að sinna viðgerðum og forvörslu, fyrir utan átak í fræðslu og miðlun sem ætlað er að ná til fleiri en bara hins týpíska safngests. Þannig var árið 2019 ár listar í almannarými hjá safninu, og það ár var aukið rými gefið í umræður um gildi listar í almannarýminu með ýmisskonar málþingum og viðburðum á vegum safnsins. Þá hefur safnið hefur í tvígang staðið fyrir samkeppnum um gerð útilistaverka í tilteknum hverfum borgarinnar, sem vakið hafa upp áhugaverðar og gagnrýnar umræður um gildir listar í almannarými.

Það verður að hrósa safninu fyrir að ráðast í það stóra verkefni að beina sjónum borgarbúa og annarra landsmanna að list í almannarýminu. Smáforritið er augljóslega liður í því og hlýtur að teljast góð leið til að opna safnið fyrir nýjum notendum, og um leið vekja athygli á því að safn er ekki bara bygging með veggjum og þaki.

 

Tengdar fréttir

Myndlist

Þriðji póllinn, Kópavogskróníka og Haustlaukar

Myndlist

Tollhúsið talar

Reykjavíkurborg

„Við megum ekki gleyma listinni“