Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Orðabókin er birtingarmynd íslenskra ritreglna

Mynd: - / RÚV/Árnastofnun

Orðabókin er birtingarmynd íslenskra ritreglna

16.11.2020 - 10:40

Höfundar

Hlutverk Íslenskrar stafsetningarorðabókar er að vera birtingarmynd eða nánari útfærsla á opinberum ritreglum. Þess vegna er hún kölluð opinber réttritunarorðabók fyrir íslensku. 

Íslensk stafsetningarorðabók er opinber réttritunarorðabók um íslensku. Hún byggist á ritreglum Íslenskrar málnefndar og hefur það hlutverk að leiðbeina um rithátt og beygingar í samræmi við hefðbundin viðhorf um vandað ritmál. 

Ýmsar stafsetningarorðabækur hafa verið gefnar út fyrir íslensku í áranna rás. Má þar nefna Stafsetningarorðabók Halldórs Halldórssonar sem kom fyrst út 1947 en var endurskoðuð og gefin út á ný nokkrum sinnum í samræmi við stjórnskipaða stafsetningu; Stafsetningarorðabók með beygingardæmum, eftir Árna Þórðarson og Gunnar Guðmundsson, kom fyrst út árið 1957; og Réttritunarorðabók handa grunnskólum í ritstjórn Baldurs Jónssonar, árið 1989, á vegum Íslenskrar málnefndar.

Íslensk stafsetningarorðabók með eigin vefsíðu

Fyrsta útgáfa Íslensku stafsetningarorðabókarinnar hét Stafsetningarorðabókin og kom út á prenti árið 2006 í ritstjórn Dóru Hafsteinsdóttur. Hún er langstærst þeirra stafsetningarorðabóka sem prentaðar hafa verið. Nýverið var opnuð vefsíða annarrar útgáfu orðabókarinnar, Íslenskrar stafsetningarorðabókar. Jóhannes B. Sigtryggsson, rannsóknarlektor á málræktarsviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, er ritstjóri hennar. Bjarni Benedikt Björnsson og Guðrún Línberg Guðjónsdóttir ræddu við hann í Orði af orði á Rás 1.

„Þessi orðabók á sér frekar langa sögu. Fyrsta útgáfa hennar kom út árið 2006 og var þá unnin á vegum Íslenskrar málnefndar af starfsfólki Íslenskrar málstöðvar. Þetta byggðist meðal annars á því sem sagt var um málnefndina í lögum um hana frá 1990 þar sem var sagt að málnefndin ætti að gefa út rit til fræðslu og leiðbeiningar um íslenskt mál, þar á meðal stafsetningarorðabók og önnur hagnýt orðasöfn. Svo að málnefndin leit á þetta sem sitt hlutverk. Fyrst voru samdar ritreglur og síðan var samin orðabók sem byggðist á þeim. Hún kom út 2006. Þetta var nokkurra ára verk en 2006, á sama tíma og hún kom út breyttist landslagið á sviði íslenskra fræða. Þá sameinuðust nokkrar stofnanir á því sviði og meðal annars Íslensk málstöð sem hafði verið skrifstofa Íslenskrar málnefndar varð hluti af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Við þetta tók Árnastofnun eiginlega við orðabókinni,“ segir Jóhannes. Stafsetningarorðabókin hefur síðan þá verið hjá Árnastofnun.

Orðabókin er eins konar birtingarmynd íslenskra ritreglna

Hlutverk Íslenskrar stafsetningarorðabókar er að vera birtingarmynd eða nánari útfærsla á opinberum ritreglum, að sögn Jóhannesar. Þess vegna sé hún kölluð opinber réttritunarorðabók fyrir íslensku. 

Menntamálaráðuneytið samþykkti og auglýsti nýjar reglur, um stafsetningu, með ýmsum breytingum árið 2016 og um greinarmerkjasetningu árið 2018. Tekið er fram að þær gildi um stafsetningarkennslu í skólum og útgefið efni á vegum hins opinbera. Svo getur auðvitað hver sá eða sú sem hefur áhuga á því að vanda ritmál sitt gengið þar að samræmdum reglum.

Alaskabjörn, jakobsfífill og parmaskinka með litlum staf

Meðal nýjunga í Íslenskri stafsetningarorðabók eru upplýsingar um efnissvið. Efnisflokkun orða var hvorki í fyrstu útgáfu Stafsetningarorðabókarinnar, sem kom út árið 2006, né í annarri útgáfu sem var áður aðgengileg á Málið.is og Snara.is. Yfirferð og samræming upplýsinga um efnissvið er þó ekki lokið og á vefsíðu ÍS er tekið fram að það beri að líta á upplýsingarnar með þeim fyrirvara.

Önnur nýjung í Íslenskri stafsetningarorðabók eru áðurnefnd náin tengsl við opinberar ritreglur. Jóhannes nefnir sem dæmi orðið alaskabjörn. Á vef ÍS undir orðinu alaskabjörn er vísað í viðeigandi grein í ritreglum Íslenskrar málnefndar. Þar stendur að sum samnöfn séu rituð með litlum staf þótt þau séu dregin af sérnafni. Tegundarheiti dýra og jurta, matvælaheiti og læknisfræðiheiti séu rituð með litlum upphafsstaf þótt þau séu upprunalega dregin af sérnöfnum. Sama gildi um heiti trúarbragða, viðhorfa, strauma og stefna og heiti fylgismanna þeirra. Auk alaskabjarnar, parmaskinku og jakobsfífils eru tekin dæmi eins og þórshani, maríustakkur, waldorf-salat, alzheimer-sjúkdómur, kristni, marxismi og evuklæði. Allt eru þetta orð sem skrifuð eru með litlum upphafsstaf, þrátt fyrir að fyrri hluti þeirra sé leiddur af sérnafni. 

Fjallað var um Íslenska stafsetningarorðabók og nýja vefsíðu hennar og rætt við Jóhannes B. Sigtryggsson, ritstjóra orðabókarinnar, í Orði af orði sunnudaginn 15. nóvember.

Tengdar fréttir

Íslenskt mál

Ertu til í að skrúfa upp í fónógrafinum?

Íslenskt mál

„Við erum Gísli Marteinn barnanna“

Íslenskt mál

Handritin til barnanna og börnin til handritanna