Nýtt bóluefni við COVID-19, frá bandaríska fyrirtækinu Moderna, veitir vörn gegn kórónuveirunni í nærri 95 prósentum tilfella. Forsvarsmenn fyrirtækisins greindu frá niðurstöðum rannsókna og prófana í dag.
Þetta er annað bóluefnið sem prófað hefur verið og virðist veita góða vörn gegn veirunni. Nýverið var greint frá því að bóluefni bandarísku fyrirtækjanna Pfizer og BioNTech veiti vörn í 90 prósentum tilfella. Það bóluefni þarf að geyma við -70 til -80 gráður. Bóluefni Moderna má hins vegar geyma við 2 til 8 gráður í allt að 30 daga. Hægt er að geyma bóluefnið við -20 gráður í hálft ár. Það er því öllu minna umstang sem fylgir bóluefni Moderna en hinu sem þarf að halda í kulda.
Moderna sækir um leyfi til að byrja að nota bóluefnið á næstu vikum, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Guardian hefur eftir Peter Openshaw, prófessor í lyfjatilraunum við Imperial háskóla í London, að niðurstöður rannsókna Moderna væru ákaflega spennandi og að þær ykju bjartsýni á að á næstu mánuðum yrði gott úrval af bóluefni gegn veirunni skæðu.