Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

„Mjög óvenjulegt verkefni og algjörlega einsdæmi“

Örn Almarsson
 Mynd: Aðsend - Ljósmynd
Það eru forréttindi að hafa fengið að vinna að þessu verkefni. Þetta segir Örn Almarsson efnafræðingur sem vann hjá bandaríska lyfjafyrirtækinu Moderna að þróun COVID-19 bóluefnisins sem fyrirtækið kynnti í morgun. Hann segir að þetta eigi eftir að hafa áhrif í framtíðinni á þróun bóluefna gegn öðrum smitsjúkdómum.

Bóluefni Moderna veitir vörn gegn kórónuveirunni í nærri 95 prósentum tilfella og er annað bóluefnið sem virðist gefa góða raun. Hitt er bóluefni lyfjafyrirtækjanna Pfizer og BioNTech. Bóluefni Moderna geymist við hærri hita og í lengri tíma.

Örn hefur starfað við lyfjaþróun í Bandaríkjunum í um 25 ár, þar af starfaði hann hjá Moderna í sjö ár, þangað til fyrr á þessu ári. Hann segir þessa hröðu þróun bóluefnisins vera einstaka í sögunni.

Sjá einnig: Nýtt bóluefni veitir 94,5% vörn gegn COVID-19

„Þetta er mjög óvenjulegt verkefni og algjörlega einsdæmi að það sé hægt að framkvæma svona stóra stúdíu á innan við einu ári frá því að genasamsetningin á vírusnum er þekkt. Þetta sýnir hvað þessi tækni sem Pfizer, BioNTech og Moderna eru búin að vera að vinna með, sem er mjög ný af nálinni, er að gera í raun og veru. Þetta hefur vonandi áhrif í framtíðinni fyrir aðra smitsjúkdóma,“ segir Örn.

Mörgum vísindalegum spurningum ósvarað

Hann segir að gangi áætlanir eftir sé bóluefnisins að vænta fyrir almenning innan örfárra mánuða. Að öllum líkindum séu lyfjafyrirtækin sem um ræðir þegar búin að safna birgðum og séu tilbúin til að flytja efnið hvert sem er. „Ég held að það sé verið að tala um upp úr áramótum fram á vorið; að þá sé hægt að fá bólusetningu fyrir hvern sem er,“ segir Örn.

Hann segir að það hafi verið forréttindi að vinna að verkefni sem þessu. „Þetta var mjög spennandi og það er einsdæmi að svona skuli vera hægt að gera,“ segir Örn sem segir daginn í dag vera mikinn ánægjudag.  „Að fá að heyra af þessu og vera í sambandi við fólkið sem hefur unnið svona ötult að þessu. Nú er bara spurningin; hversu fljótt við getum fengið þetta út í samfélagið og svo hversu lengi virkar þetta. Það eru margar vísindalegar spurningar sem á eftir að svara En ég er vongóður.“