Mikil úrkoma af völdum fellibylsins Iota hefur valdið flóðum og aurskriðum í Kólumbíu. Mynd: EPA-EFE - Government of Antioquia
Mikill viðbúnaður er í Níkaragva og Hondúras vegna fellibylsins Iota sem stefnir þangað en búist er við að hann komi þar upp að ströndum í kvöld.
Íbúar landanna tveggja eru ekki búnir að ná sér eftir fellibylinn Eta sem fór þar yfir á dögunum og olli miklu tjóni og mannskaða. Fellibylurinn Iota hefur valdið talsverðu tjóni í Kólumbíu, flóðum og aurskriðum. Að minnsta kosti þrír hafa farist, en tólf er saknað.
Fleiri fellibyljir hafa myndast á Atlantshafi á þessu ári en undanfarin ár og telja margir vísindamenn það stafa af loftslagsbreytingum. Sérfræðingar í málefnum Mið-Ameríku segja segja það bitna á efnahag ríkja á þessu svæði og hættu á auknum fólksflótta þaðan.