Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ísland klárað fjórar af átján tillögum vegna spillingar

16.11.2020 - 00:05
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Íslensk stjórnvöld fá átján mánaða frest til að gera frekari úrbætur vegna þeirra tillagna sem GRECO, samtök ríkja gegn spillingu, lögðu til vorið 2018. Af þeim átján tillögum sem samtökin lögðu til um aðgerðir til að sporna gegn spillingu hafa íslensk stjórnvöld orðið við fjórum.

Höfundar skýrslunnar sem kom út vorið 2018 bentu á að það væri sláandi hversu lítið hafi verið gert til að sporna gegn spillingu hér á landi. GRECO birti í dag nýja skýrslu þar sem farið er yfir viðbrögð stjórnvalda við þessum tillögum. Niðurstaðan er að stjórnvöld hafi orðið að fullu við fjórum af þeim tillögum sem GRECO lagði til. Við sjö þeirra hefur verið orðið að hluta en sjö standa enn út af. 

Eftir að GRECO lagði fram tillögur sínar vorið 2018 var nýstofnaður starfshópur um eflingu trausts á stjórnmálum til ráðleggingar. Þá voru sett lög um varnir gegn hagsmunaárekstrum sem ná til ráðherra, ráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra og sendiherra, auk aðstoðarmanna ráðherra að hluta.  

GRECO fagnar þessum viðbrögðum, en telur þó að ekki hafi verið gengið nógu langt. Í lögunum er til dæmis kveðið á um að embættismenn megi ekki fara til starfa hjá hagsmunasamtökum fyrr en sex mánuðum eftir að þeir hætta störfum í stjórnsýslunni. Aðstoðarmenn ráðherra eru undanskildir því. GRECO telur að þetta sé of skammur tími og að jafnframt gæti ósamræmis í siðareglum æðstu embættismanna.

Litlar breytingar í stjórnsýslu lögreglu

Þegar kemur að úrbótum í stjórnsýslu lögreglunnar telur GRECO að litlu hafi verið áorkað. Í fyrri skýrslu var bent á að völd dómsmálaráðherra væru mikil í ljósi þess að hann skipar, endurræður og getur ákveðið að endurráða ekki lögreglustjóra landsins og ríkislögreglustjóra. Þeir eru ráðnir til fimm ára í senn og almennir lögreglumenn líka en þá er það viðkomandi lögreglustjóri sem ræður þá. Samtökin töldu að pólitísk tenging við ráðningu lögreglustjóra gæti haft truflandi áhrif störf þeirra.

GRECO metur það sem svo að litlar breytingar hafi átt sér stað hvað þetta varðar og harmar að siðareglur lögreglu hafi ekki verið yfirfarnar. Þá sé ekki búið að setja lögreglumönnum skýrari reglur hvað varðar gafir og önnur fríðindi.

Hins vegar telja samtökin að sú vinna sem stjórnvöld hafi boðað í þessum efnum lofi góði. Lögum um vernd uppljóstrara sem samþykkt voru í vor er fagnað, en þó talið að þau mættu vera markvissari.

Ráðlagt að kynna niðurstöðurnar fyrir almenningi

Niðurstaða GRECO er því sú að íslensk stjórnvöld þurfi að gera meira til þess að verða við þeim tillögum sem samtökin lögðu til. Stjórnvöldum er gefinn 18 mánaða frestur til frekari úrbóta, til loka apríl 2022, og munu samtökin þá yfirfara viðbrögð stjórnvalda á ný. 

Að lokum er stjórnvöldum ráðlagt að kynna niðurstöður þessarar skýrslu eins fljótt og auðið er og gera hana aðgengilega á íslensku. Það er í takti við hvað Lögreglustjórafélag Íslands gagnrýndi við fyrri úttekt, að hún hefði aldrei verið þýdd á íslensku eða kynnt almenningi.