Hvert komumst við og hvað gerum við svo?

Lög og reglur vinsælla áfangastaða í breyttum heimi
Mynd með færslu
 Mynd:
Þau sem ráða hér lögum og reglum hvetja okkur Íslendinga að ferðast ekki til áhættusvæða að óþörfu. Skilgreind áhættusvæði: Heimurinn allur. Handan við hornið er jólahátíðin 2020, sem verður sennilega lengi höfð í minnum okkar flestra. En samkomutakmarkanir, grímuskylda, boð og bönn eru ekki bundin við Ísland, heldur gilda sóttvarnarreglur í öllum þeim löndum sem Íslendingar hafa sótt heim yfir hátíðarnar. Þeim skal fylgja, ef maður á annað borð kemst inn í landið.

Margir nýttu „ferðajólin” 2019

Vinsældir utanlandsferða í kring um hátíðirnar hafa aukist töluvert meðal Íslendinga undanfarin ár. Sumir hafa kosið að verja sjálfum jólunum í útlöndum, aðrir að nýta tímann í nóvember eða byrjun desember til að versla gjafir undir jólatrén, sem er í sumum tilvikum ódýrara á erlendri grund, og skemmtilegra.

Ótrúlegt en satt þá voru síðustu jól, 2019, fyrir einungis tæpu ári síðan. Þau voru skilgreind sem „óvenju ferðavæn”, þar sem rauðu dagana bar upp á virkum dögum og því var einboðið að skella sér til útlanda án þess að þurfa að taka marga launalausa frídaga.

Spánn var vinsæll áfangastaður Íslendinga síðustu jól, sem og Kaupmannahöfn, London og París. Berlín, Boston og Stokkhólmur komust líka á kortið. Af augljósum ástæðum verða ferðavenjur Íslendinga með breyttu sniði þetta árið, nú þegar rúmur mánuður er til jóla.

Fréttastofa gerði lauslega úttekt á nokkrum af vinsælustu áfangastöðum Íslendinga í útlöndum. Listinn er ekki tæmandi, en hægt er að glöggva sig á heildarmyndinni af stöðu smita, ferðatakmarkana, boða og banna.

BandaríkinSóttkví

Erfið innkoma og mismunandi reglur

Ferðabann er í gildi á landamærum Bandaríkjanna gagnvart öllum ríkisborgurum Schengen-ríkjanna, Íslendingar eru þar með taldir. Allir sem koma til Bandaríkjanna þurfa að fara í tveggja vikna sóttkví alla jafna, þó gilda mismunandi reglur eftir ríkjum. Hins vegar undanskilur tilskipun forsetans þau sem ferðast vegna mikilvægra erinda tengdum viðskiptum, námi og rekstri bandarískra fyrirtækja. Innanlandsflug er í gangi, en framboð er takmarkað.

Sé litið til tveggja af stærstu borgum austurstrandarinnar, New York og Boston, sem hafa verið vinsælir áfangastaðir Íslendinga, gilda nokkuð strangar sóttvarnarreglur.

Í Boston loka veitingastaðir klukkan 21.30 og útgöngubann er í gildi frá klukkan 22. Leikhús, spilavíti, og það sem er orðað „fullorðinsíþróttir” og „fullorðins sala á marijuana” loka klukkan 21.30. Grímuskylda er utandyra. Frá og með deginum í dag tekur 10 manna samkomubann gildi innandyra og 25 manna samkomubann utandyra.

Helstu COVID-tölur

 • 11.400.000 smit
 • 250.000 dauðsföll
 • Um 150.000 ný smit á dag

Í New York gilda sömuleiðis strangar reglur og síðan á föstudag þurfa eigendur, bara, veitingastaða og líkamsræktarstöðva að skella í lás klukkan 22 á kvöldin. Nú bjóða yfirvöld þar upp á ókeypis aðstöðu í sóttkví á hótelum ef íbúar hafa ekki stað til þess heima fyrir.

 
BretlandEkki sóttkví

Opin landamæri en lítið hægt að gera

Frá og með 14. nóvember þurfa Íslendingar ekki að fara í sóttkví við komuna til Bretlands. Fyrir þann tíma þurftu allir að fara tveggja vikna sóttkví. Þetta gildir um England, Wales, Skotland og Norður-Írland. Allir þurfa að fylla út eyðublað á vef breska innanríkisráðuneytisins 48 tímum fyrir brottför.

Sóttvarnaraðgerðir voru nýverið hertar til muna í Englandi á ný. Nú eru öll ferðalög bönnuð, innanlands sem utan, en þó verður áfram heimilt að ferðast erlendis vegna vinnu eða vegna annarra nauðsynlegra ferða. Flugvellir eru opnir og hægt að millilenda. Allar verslanir, fyrir utan matvöruverslanir og apótek, eru lokaðar sem og veitingastaðir og bari, nema þá sem bjóða upp á mat til að taka með. Þessar reglur gilda til 2. desember. Grímuskylda er á flugvöllum, í almenningssamgöngum og verslunum.

Helstu COVID-tölur

 • 1.400.000 smit
 • 52.000 dauðsföll
 • Um 25.000 ný smit á dag

Reglurnar eru mjög mismunandi eftir svæðum í Skotlandi. Almennt gildir þó sex manna samkomubann og grímuskylda. Veitingastaðir og barir eru opnir, en loka ýmist klukkan 18, 20 eða 22:30. Öllum viðskiptavinum ber að afhenda upplýsingar um sig til að hægt verði að hafa samband við þá ef smit greinist á stöðunum.

 
DanmörkVottorð

Danir vilja vottorð frá Íslendingum

Kaupmannahöfn er einn örfárra áfangastaða Icelandair sem enn er flogið til. En þar með er ekki öll sagan sögð. Ísland er skilgreint sem hááhættusvæði og því þurfa allir sem þaðan koma að framvísa vottorði um neikvætt Covid-19 próf, ekki eldra en 72 tíma.

Þau sem eiga heima í Danmörku, danskir ríkisborgarar og einstaklingar í millilendingu eru þó undanskildir þessari kröfu. Boðið er upp á skimun á Kastrup-flugvelli. Farþegar sem að koma frá Íslandi til Danmerkur fá ekki landgöngu nema að eiga lögmætt erindi til landsins.

Helstu COVID-tölur

 • 62.000 smit
 • 760 dauðsföll
 • Um 1.000 ný smit á dag

Sóttvarnarreglurnar í Danmörku eru að mörgu leiti svipaðar og á Íslandi. Strangari reglur, til dæmis ferðabann, eru í gildi á sumum svæðum. Það er grímuskylda í landinu öllu, tíu manna samkomubann og allir barir og veitingastaðir mega ekki selja áfengi eftir klukkan 22 á kvöldin. Skemmtistaðir, klúbbar og diskótek eru lokuð.

 
FrakklandEkki sóttkví

Landið opið en París sefur

Landamæri Frakklands eru nokkuð opin fyrir Íslendingum. Engar sérstakar takmarkanir eru við komuna til landsins, fólk þarf hvorki að framvísa vottorði né fara í sóttkví.

Hins vegar eru nokkuð strangar sóttvarnaraðgerðir í gangi í flestum borgum Frakklands. Í París er útgöngubann í gildi á milli klukkan 21 og 6, grímuskylda er utandyra. Þau sem fara út fyrir hússins dyr án grímu gætu þurft að borga hátt í 30.000 krónur í sekt. Söfn og stórir ferðamannastaðir eru lokaðir, leikhús, barir og veitingastaðir sömuleiðis. Kvikmyndahúsin eru lokuð, sem og verslunarmiðstöðvar, líkamsræktarstöðvar og sundlaugar.

Helstu COVID-tölur

 • 2.000.000 smit
 • 45.000 dauðsföll
 • 30.000 ný smit á dag
 
ÍrlandSóttkví

Landið opið en París sefur

Allir farþegar frá Íslandi þurfa að fara í tveggja vikna sóttkví við komuna til Írlands. Þá þarf að fylla út sérstakt skráningarform áður en lagt er af stað til landsins.

Helstu COVID-tölur

 • 68.000 smit
 • 2.000 dauðsföll
 • Um 400 ný smit á dag

Mjög strangar sóttvarnaraðgerðir eru í gildi á Írlandi, en Írum hefur tekist vel til að ná þessari bylgju faraldursins niður. Nær algjört útgöngubann er í gildi og er fólki einungis heimilt að fara út til að sinna nauðsynlegustu erindagjörðum. Þau sem eiga ekki fjölskyldu eða búa ein eiga að skilgreina eina manneskju sem sína „stuðningsbúbblu” (e. support bubble) og aldrei hitta neinn utan hennar, hvorki innan né utan heimilis.

Í stuttu máli er allt lokað á Írlandi. Veitingastaðir og barir veita einungis þjónustu fyrir fólk til að taka með heim og hótel mega einungis taka á móti gestum undir ströngum takmörkunum. Þá ber varla að taka fram að það er grímuskylda og nálægðarregla í gildi á landinu öllu.

 
SpánnEkki sóttkví

QR-kóða vottorð og ferðabann milli héraða

Ástandið á Spáni hefur verið með því versta í Evrópu. Þegar smitum tók að fækka á Ítalíu í fyrstu bylgju faraldursins jukust þau jafnt og þétt á Spáni og hafa yfirvöld þar gripið til mjög harðra aðgerða með útgöngubönnum, ferðatakmarkana og lokana. Fyrir skemmstu var sett á algjört útgöngubann í Madrid, höfuðborg Spánar, en því hefur nú verið aflétt.

Öllum sem ferðast til Spánar ber að framvísa heilsufarsvottorði í formi QR-kóða sem þarf að fylla út fyrir brottför á https://www.spth.gob.es/. Á sumum flugvöllum og við landamæri mæla heilbrigðisstarfsmenn líkamshita ferðamanna. Strangari reglur eru í gildi á Kanaríeyjum, en þar þarf að framvísa vottorði um neikvæða Covid-19 mælingu eða mótefni.

Helstu COVID-tölur

 • 1.500.000 smit
 • 41.000 dauðsföll
 • Um 21.000 ný smit á dag

Ferðabann er í gildi innan Spánar og er óheimilt að ferðast milli héraða að óþörfu og í sumum tilvikum innan sama héraðs. Grímuskylda er utandyra og útgöngubann í gildi ýmist frá klukkan 23 eða miðnætti til klukkan 6 næsta dag. Strandir eru undanþegnar grímuskyldu og ekki þarf að bera grímu við íþróttaiðkun, eins og útihlaup eða hjólreiðar. Almennt mega ekki fleiri en sex manns vera saman, hvorki á almannafæri né í einkarými. Eins og hálfs meters nálægðarreglan er í gildi um landið allt og fjöldatakmarkanir í verslunum. Veitingastaðir og kaffihús eru opin, með fjöldatakmörkunum.

 
SvíþjóðEkki sóttkví

Reglur brátt hertar til muna en samt er allt opið

Landamæri Svíþjóðar eru opin fyrir Íslendingum. Engin krafa er um sóttkví eða vottorð um neikvætt Covid-19 próf.

Eins og fram hefur komið hafa Svíar verið gagnrýndir fyrir ákvarðanir sínar í baráttunni við faraldurinn, en nokkuð léttvægari takmarkanir hafa alla jafna verið í gildi þar í landi heldur en á hinum Norðurlöndunum. Í Stokkhólmi, höfuðborg Svíþjóðar, eru nú í gildi tilmæli frá yfirvöldum þar sem fólk er hvatt til þess að fara ekki að óþörfi í verslanir, verslunarmiðstöðvar, söfn, sundlaugar eða líkamsræktarstöðvar. Leyfilegt er að fara í matvöruverslanir og apótek. Fólk er sömuleiðis hvatt til þess að forðast hópamyndanir, fara ekki á tónleika eða viðburði, eða taka þátt í íþróttaviðburðum. Ekkert af þessu er þó bannað.

Helstu COVID-tölur

 • 177.000 smit
 • 6.200 dauðsföll
 • Um 5.000 ný smit á dag

Nú síðdegis voru þó kynntar mun hertari takmarkanir í Svíþjóð en hafa verið í gildi þar hingað til. Frá og með 24. nóvember verður átta manna samkomubann í gildi á skipulögðum viðburðum, en ekki á vinnustöðum, í verslunum, söfnum og skólum.

Það er ekki grímuskylda í Svíþjóð. Fólk er almennt hvatt til þess að vera heima ef það er lasið, fara ekki mjög nálægt öðrum og þvo sér reglulega um hendur. Það er þó 50 manna samkomubann í gildi, en veitingastaðir, kaffihús og barir eru opin og mega selja mat og drykk til þeirra sem sitja við borð, sem og til þeirra sem vilja taka með sér heim. Þar gildir eins meters regla. Til skoðunar er að banna sölu áfengis eftir klukkan 22 á kvöldin, en það mundi þá taka gildi 20. nóvember og gilda til 28. febrúar 2021.

 
ÞýskalandSóttkví

Allir í sóttkví og bannað að gista á hótelum

Allir sem koma til Þýskalands frá áhættusvæðum (Ísland er þar á meðal) þurfa að fara í tíu daga sóttkví við komuna til landsins. Hægt er að stytta sóttkví með vottorði um neikvæða niðurstöðu úr skimum í fyrsta lagi eftir fimm daga í sóttkví. Allir þurfa að skrá sig rafrænt á www.einreiseanmeldung.de áður en komið er til Þýskalands. Hægt er að láta skima fyrir Covid-19 gegn greiðslu á stærri flugvöllum.

Helstu COVID-tölur

 • 805.000 smit
 • 12.700 dauðsföll
 • Um 20.000 ný smit á dag

Strangar sóttvarnarreglur eru í gildi í landinu öllu; grímuskylda, eins og hálfs metra regla og samkomutakmarkanir. Í höfuðborginni Berlín mega einungis þeir sem deila heimili koma saman, auk tveggja frá öðru heimili, eða allt að tíu manns frá tveimur heimilum. Menningarviðburðir eru bannaðir, veitingastaðir og barir eru lokaðir, nema til að taka með heim. Sala áfengis er bönnuð eftir klukkan 23 á kvöldin. Þá mega hótel og gististaðir ekki taka á móti ferðamönnum.

 

 

Íslendingar ættu helst ekki að ferðast

Íslensk stjórnvöld beina því til Íslendinga að ferðast ekki til áhættusvæða í útlöndum að óþörfu. Og skilgreining sóttvarnarlæknis á áhættusvæðum vegna smithættu er einföld: Öll lönd í heiminum eru skilgreind sem áhættusvæði. Í dag hafa um 55 milljónir jarðarbúa greinst með Covid-19, þar af hafa 1,3 látið lífið af völdum sjúkdómsins.

Ráðleggingar stjórnvalda vegna ferðalaga til útlanda voru uppfærðar 14. ágúst 2020. Skilgreining sóttvarnarlæknis á áhættusvæðum vegna smithættu er í fullu gildi en frá 19. ágúst 2020 eru öll lönd og svæði heims skilgreind sem áhættusvæði. Íbúum Íslands er ráðið frá ferðalögum á áhættusvæði. Enn fremur þurfa allir sem koma til Íslands frá útlöndum að fara í tvöfalda skimun með sóttkví á milli, eða tveggja vikna sóttkví. Endurskoðun á þessum reglum stendur yfir.

16.11.2020 - 17:53