Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

GRECO, tvö ráðuneyti, tvær sögur

16.11.2020 - 18:52
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist/RÚV
GRECO er skammstöfun fyrir samtök ríkja innan Evrópuráðsins sem berjast gegn spillingu. Fimmta úttekt samtakanna um aðgerðir á Íslandi gegn spillingu er yfirstandandi og eftirfylgniskýrsla hefur nú verið birt. Það er enn nokkuð verk að vinna, einkum í málefnum á könnu dómsmálaráðuneytisins. Íslensk yfirvöld hafa nú 18 mánuði til að uppfylla GRECO-tilmælin.

GRECO, samtök gegn spillingu

Í GRECO-samtökunum eru ríki í Evrópuráðinu, sem berjast gegn spillingu. Liður í því starfi er úttekt á aðstæðum í einstökum aðildarlöndum. Þessi árin er þar í gangi fimmta úttektin á hvernig íslenskum yfirvöldum gangi að berjast gegn spillingu og styrkja heilindi á hástigum framkvæmdavaldsins og innan löggæslunnar.

Hver úttekt tekur nokkur ár, stundum sagt að hjólin snúist hægt í alþjóðlegu samstarfi. En kemst þótt hægt fari. Lagabreytingar taka til dæmis sinn tíma.

Áfangi í úttekt GRECO

GRECO hafði áður birt átján tilmæli til íslenskra yfirvalda, níu sem falla undir verksvið forsætisráðuneytisins, níu í verkahring dómsmálaráðuneytis. Í eftirfylgniskýrslunni nú er kannað hvernig íslenskum yfirvöldum hafi gengið að uppfylla tilmælin. Frá og með birtingu hafa yfirvöld svo átján mánuði til að uppfylla þau.

Tilmæli sem falla undir tvö ráðuneyti

Forsætisráðuneytið hefur á sinni könnu mál sem snerta æðstu handhafa framkvæmdavaldsins. Efst á blaði eru tilmæli GRECO um heildarstefnu til að bæta heilindi og hafa eftirlit með hagsmunaárekstrum. Starfshópur um traust á stjórnmálum og stjórnsýslu, sem forsætisráðherra skipaði 2018 er talinn uppfylla þau tilmæli.

Forsætisráðuneytið: fern tilmæli uppfyllt, fjögur að hluta, ein óuppfyllt

Í viðbót er forsætisráðuneytið talið hafa uppfyllt þrjú önnur tilmæli, önnur fjögur tilmæli uppfyllt að hluta, ein tilmælin alls ekki.

Reyndar má segja að ein tilmæli í viðbót falli frekar undir forsætisráðuneytið, varða vernd uppljóstrara þar sem lög um það efni falla undir ráðuneytið. Ný lög um uppljóstrara taka gildi 1. janúar næstkomandi. GRECO telur þau lög þó aðeins uppfylla að hluta tilmæli um vernd uppljóstrara því framkvæmdin sé enn óljós.

Dómsmálaráðuneytið: sex óuppfyllt, tvö að hluta, engin uppfyllt

Þá eru eftir átta tilmæli varðandi löggæslu sem falla undir dómsmálaráðuneytið. Sex af þeim hafa ekki verið uppfyllt. Þau tilmæli varða til dæmis  hagsmunaárekstra og pólitísk afskipti af lögreglunni og Landhelgisgæslunni, ráðningar og svo innra eftirlit í löggæslunni. Í viðbót hafa tvenn tilmæli aðeins verið uppfyllt að hluta. GRECO telur því að dómsmálaráðuneytið hafi enn ekki uppfyllt nein tilmælanna að öllu leyti.

Mögulegar skýringar á frammistöðumun ráðuneytanna

GRECO reikningsdæmið sýnir að það er töluverður munur á frammistöðunni í ráðuneytunum tveimur. Hvort það sýnir meiri áhuga og einbeitni á aðgerðum gegn spillingu innan forsætisráðuneytisins er spurning. Það má hugsanlega líta svo á að það taki í einhverjum tilfellum lengri tíma að koma til móts við GRECO-tilmælin varðandi löggæsluna. Þar þurfi lagabreytingar eða ný lög. Einhver tilmælanna gætu líka verið efni, sem er ekki samstaða um.

En eins og áður sagði: ferlið er ekki búið. Íslensk yfirvöld hafa nú átján mánuði til að láta verkin tala.

Spilling og reiði

Störf GRECO tengjast umræðu víða um lönd um reiði. Mikið rætt um reiði og ráðvillu eftir íslenska bankahrunið 2008, rétt eins og heyrðist í Áramótaskaupi í lok hrunársins, þegar mótmælandi hrópaði ,,helvítis fokking fokk!“

Hagfræði reiðinnar

Angrynomics, sambland ensku orðanna ,,anger,“ ,,reiði“ og ,,economics,“ ,,hagfræði,“ er nafn nýrrar bókar eftir Mark Blyth og Eric Lonergan. Höfundarnir benda meðal annars á muninn á réttlátri og uppbyggilegri reiði, sem stjórnmálamenn ættu að hlusta á og svo eyðileggjandi reiði, sem nær væri að sefa en æsa upp.

Gagnsæi, eitt ráðið gegn spillingu

Liður í reiðinni er tilfinningin af spillingu, sem gagnist valdhöfum en vinni gegn almannahagsmunum. Þar af viðleitni GRECO, hindra feluleik og pukur, auka gagnsæi.

Gagnsæi í ýmsum myndum

En það er hægt að iðka gagnsæi með ýmsum hætti. Bæði forsætisráðuneytið og dómsmálaráðuneytið birtu í dag fréttatilkynningar um GRECO tilmælin. Í tilkynningu forsætisráðuneytisins segir að ráðuneytið annist samskiptin vegna fyrri hluta úttektarinnar, dómsmálaráðuneytið málin í síðari hlutanum.

Tvö ráðuneyti, tvær sögur í fréttatilkynningum

Síðan segir: ,,Samkvæmt eftirfylgniskýrslu GRECO hefur Ísland nú innleitt fjórar tillögur sem varða æðstu handhafa framkvæmdarvalds. Fjórar til viðbótar eru innleiddar að hluta að mati samtakanna en ein tillaga telst ekki innleidd,“ segir í tilkynningunni. – Já, einmitt, þetta eru tilmælin sem varða forsætisráðuneytið, nokkuð góð frammistaða.

Dómsmálaráðuneytið tekur öðruvísi á málinu: ,, Af 18 tilmælum GRECO hafa níu verið uppfyllt, þrjú að hluta og sex á eftir að uppfylla,“ segir í tilkynningu þess ráðuneytis. – Já einmitt, þetta er heildarfjöldinn, alveg sleppt að nefna að dómsmálaráðuneytið hefur ekki uppfyllt ein einustu tilmæli.

Báðar tilkynningarnar eru kórréttar. Gagnsæi getur sannarlega tekið á sig margar myndir.