Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

„Getur alveg eins lagst á borðið og gert armbeygjur“

16.11.2020 - 09:29
Mynd með færslu
 Mynd: Jesper Aggergaard - Unsplash
Mikilvægt er að fólk hætti ekki að hreyfa sig þó það vinni heima og líkamsræktarstöðvar séu lokaðar. Gunnar Svanbergsson sjúkraþjálfari var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun. Hann sagði að margt væri hægt að gera heima við og hvetur fólk til að fara nýjar leiðir í þessum efnum. Hann heyri frá skjólstæðingum sínum að heimavinna fari illa í þá.

Gunnar segir að mörgum þyki erfitt að halda rútínu hvað varðar hreyfingu þar sem sundlaugar og líkamsræktarstöðvar séu lokaðar. Hann sagði erfitt að segja til um hvort einhver langtímaáhrif verði af heimavinnu á heilsu fólks.

„Hafa gulan miða fyrir framan sig, klukkuna eða símann og setja sér það á hverjum einasta klukkutíma eða hálftíma geri menn eitthvað smá. Ef þið standið upp frá tölvunni og gerið fimm hnébeygjur á klukkutíma, þið sitjið við í sex tíma á dag, á föstudegi eruð þið komin með 150 hnébeygjur,“ segir Gunnar.

„Þetta tekur lítinn tíma og hugsaðu þér allan tímann sem þú ert að nýta þér. Þú ferð inn í eldhús og ýtir á takkann fyrir kaffi. Þú getur alveg eins lagst á borðplötuna og gert fimm hægar armbeygjur á meðan þú ert að bíða eins og að gera ekki neitt.“

Gunnar segir ekki hægt að fullyrða um hvort þetta eigi eftir að hafa langtímaáhrif. Hann heyri frá skjólstæðingum sínum að heimavinna hafi slæm áhrif á líkamlega og andlega heilsu. „Fólk er þyngra, það er kominn kvíði í fólk og við erum að minna það á að standa reglulega upp. Gera einhverjar svona smá æfingar. Það er helmingi meiri þrýstingur í gegnum hryggsúluna sitjandi en standandi, sitjandi er svo mikill óvinur.“