Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Geimskot Resilience-flaugar SpaceX gekk að óskum

Resilience-flaug SpaceX var skotið upp frá Canaveralhöfða á Flórída að kvöldi 15. nóvember (aðfaranótt 16. nóvember að íslenskum tíma) með fjóra geimfara innanborðs; þrjá Bandaríkjamenn og einn Japana. Ferðinni er heitið til alþjóðlegu geimstöðvarinnar, ISS.
 Mynd: AP
SpaceX geimflauginni Dragon Resilience var skotið á loft frá Canaveralhöfða á Flórídaskaga skömmu fyrir klukkan hálf eitt í nótt að íslenskum tíma. Gekk geimskotið að óskum. Fjórir geimfarar eru um borð, þrír Bandaríkjamenn á vegum bandarísku geimferðastofnunarinnar, NASA, og einn Japani, og er ferð þeirra heitið til alþjóðlegu geimstöðvarinnar, ISS.

Er þetta í fyrsta skipti sem NASA sendir heila áhöfn út í geim með geimflaug á vegum einkafyrirtækis, en SpaceX er í meirihlutaeigu stofnandans Elons Musks, sem einnig er stofnandi og aðaleigandi rafbílaframleiðandans Tesla.

Vonast er til að þetta verði sú fyrsta af mörgum reglulegum ferðum SpaceX og Dragon Resilience til stöðvarinnar. SpaceX tókst í maí að sýna fram á að þau gætu flutt geimfara til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar og að NASA þyrfti því ekki lengur að fá far þangað fyrir sína menn með rússneskum Soyuz-geimflaugum eins og undanfarinn áratug. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV