Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Feitur, feiminn og ófleygur páfagaukur er fugl ársins

16.11.2020 - 04:06
Mynd með færslu
 Mynd: K. Collins - Wikipedia
Kjörstöðum hefur verið lokað, atkvæði hafa verið talin og sigurvegarinn krýndur: kākāpō, feitasti og feimnasti páfagaukur í heimi, er fugl ársins á Nýja Sjálandi.

Kākāpō, líka þekktur sem hin mikla mosahæna, er fyrsti fuglinn til að vinna þennan eftirsótta titil í tvígang. Mikla mosahænan er grænn og gulbrúnn páfagaukur, stórvaxinn og afskaplega bústinn og einstakur í sinni röð. Hann er ófleygur, felur sig á daginn en fer á kreik um nætur, er með langlífustu páfagaukum og sá þyngsti sem sögur fara af. Fullorðnir fuglar verða allt a ð65 sentimetra langir og fjögur kílógrömm að þyngd.

Á barmi glötunar

Kākāpō var á barmi útrýmingar fyrir nokkrum árum og er það enn. Á tíunda áratug síðustu aldar var aðeins vitað um 50 miklar mosahænur, en eftir mikið átak náttúrufræðinga og fleiri fuglavina eru þeir orðnir ríflega 200.

Þessi gerðarlegi gaukur var algengur um gjörvallt Nýja Sjáland þegar maðurinn steig þar fyrst fæti, en nú lifir hann eingöngu á eyjum sem lausar eru við hvort tveggja menn og önnur rándýr. „Það sem gerir kākāpóinn einstakan gerir hann líka berskjaldaðan fyrir hvers kyns ógn,“ segir Laura Keown, skipuleggjandi hinna árlegu kosninga um fugl ársins á Nýja Sjálandi.

„Þeir fjölga sér hægt, þeir gera sér hreiður á jörðinni og þeirra helsta vörn er að herma eftir runna. Þetta virkaði ljómandi vel á þeim miklu fuglaeyjum sem kākāpóinn þróaðist á, en þeir plata ekki aðflutt rándýr á borð við hreysiketti, rottur og ketti,“ segir Keown.

Stal sigrinum af suðurhvels-albatrosanum

Fugl ársins er kosinn með afbrigði af svokallaðri forgangsröðunaraðferð og getur hver kjósandi valið fimm fugla, sem þeir setja í 1. til 5. sæti. Suðurhvels-albatrosinn, annar fugl í bráðri útrýmingarhættu, fékk flest atkvæði í fyrsta sæti en það dugði honum ekki til sigurs. Hin mikla mosahæna, sem fékk næstflest atkvæði í fyrsta sæti, fékk nefnilega nógu miklu fleiri atkvæði en hann í hin sætin til að landa titlinum öðru sinni, fyrstur fugla, en hann sigraði líka 2008.

Kosningin á fugli ársins er liður í því að vekja athygli og áhuga Nýsjálendinga á þeim fjölmörgu og fjölbreytilegu fuglum landsins sem eru í útrýmingarhættu því verndar þurfi.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV