Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Enginn vill dýrgripina sem fólk safnar og deyr frá

Mynd: RÚV / RÚV

Enginn vill dýrgripina sem fólk safnar og deyr frá

16.11.2020 - 11:58

Höfundar

Þegar fólk fellur frá er nokkuð algengt hús þess og íbúðir séu seldar með öllu dánarbúinu. Þessu tók Auður Ava Ólafsdóttir eftir þegar hún var að skoða fasteignaauglýsingar og varð það henni innblástur að nýjustu bók sinni Dýralíf sem kom út á dögunum.

Auður Ava Ólafsdóttir rithöfundur er ekki byrjuð að skreyta heimilið fyrir jólin. Hún á enda bara eina jólaseríu sem hún hengir í gluggann á hverju ári og ætlar að bíða aðeins með það þar til líður að aðventu. En jólavertíðin er þó hafin hjá Auði því hún var að gefa út skáldsögu sem er í jólabókaflóði ársins. Skáldsagan kom út sama dag og Auður eignaðist barnabarn. Bókin nefnist Dýralíf og er sú áttunda eftir Auði, sjöunda skáldsagan. Morgunkaffið á Rás 2 sló á þráðinn til Auðar og spurði út í dýralífið.

Maðurinn er brothættasta dýrið

Hún fjallar samkvæmt skáldinu um brothættasta og berskjaldaðasta dýrið, dýrið sem fæðist án fiðurs og fjaðra, felds og hreisturs, nefnilega manninn. „Við erum það dýr sem erum lengst allra ósjálfbjarga og upp á aðra komin en getum líka verið það grimmasta,“ segir Auður. „Ég er að reyna að átta mig á því hvað gerist svo, eftir að við hættum að vera sirka 50 sentimetrar á lengd. Í hverju við erum góð en líka hvað fer úrskeiðis.“

Hvalir og ljósmæður

Og í bókinni lendir mannskepnan í nokkuð erfiðum samanburði við önnur spendýr, meðal annars við hvalinn sem er uppáhaldsdýr Auðar. „Hann kemur svolítið fyrir í bókinni og hann notast við ljósmóður eins og maðurinn,“ segir Auður.

Ljósmæður fara með stórt hlutverk í bókinni og aðalsöguhetjan er einmitt ljósmóðir. En allar söguhetjurnar tengjast ljósinu á einhvern hátt. „Þarna eru nokkrar ljósmæður en rafvirki líka, björgunarsveit sem er skipuð konum og vinnur aðallega við að bjarga strönduðum hvölum. Svo er leiðsögumaður í norðurljósaferð sem er ljósmóðir að drýgja tekjurnar.“

Fólk botnar ekkert í veðurkortunum

Sögusvið gefur lesanda hvíld frá COVID-ástandinu því í þessum heimi hefur orðið enga merkingu, að minnsta kosti ekki enn. Það ríkir þó ekki fullkomið áhyggjuleysi. „Það er einhver umhverfisvá undirliggjandi og menn botna ekkert í veðurkortunum. Þetta er svona eins og ljósmóðir að reyna að skilja ljósið.“

Finnur handrit í dánarbúi ömmusystur sinnar

Söguhetja bókarinnar hefur erft íbúð eftir frænku sína og býr í dánarbúi á Ljósvallagötu innan um ýmsa forvitnilega muni sem frænkan skildi eftir sig. „Hugmyndin kviknaði þegar ég komst að því að það er talsvert um að íbúðir séu seldar með dánarbúi. Það kennir okkur að enginn vill dýrgripina sem við söfnum að okkur.“

Hún finnur nokkur handrit eftir ömmusystur sína í íbúðinni og titillinn að einu handritinu er einmitt Dýralíf. Hún fer að spá í handritin og hugmyndir ömmusystur sinnar um lífið og mannskepnuna. „Handritin eru öll ókláruð, eins og lífið og við,“ segir Auður að lokum.

Rætt var við Auði Övu Ólafsdóttur í Morgunkaffinu á Rás 2.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Þetta gæti þess vegna verið réttarmorð“

Bókmenntir

„Erfitt að halda sönsum en maður gerir sitt besta“

Bókmenntir

Kostulegar kynlífslýsingar í Vesturbænum