Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Ég veit ekki í hverju mistökin ættu að vera fólgin“

16.11.2020 - 20:59
Már Kristjánsson, formaður farsóttanefndar Landspítalans, segist ekki sjá í hverju mistök stjórnenda spítalans ættu að vera fólgin í tengslum við hópsýkinguna á Landakoti. Már var gestur Einars Þorsteinssonar í Kastljósi kvöldsins. 

Landspítalinn kynnti á föstudag bráðabirgðaskýrslu um hópsmitið á Landakoti sem er eitt allra alvarlegasta atvik sem komið hefur upp í sögu spítalans. Tólf hafa látið lífið vegna hópsýkingarinnar og um 200 hafa sýkst. Á tveimur deildum smituðust nær allir sjúklingarnir og um helmingur starfsmanna.

Í skýrslunni eru dregnar fram ýmsar ástæður þess að smit barst um Landakot. Þar kemur fram að mönnun og aðbúnaður hafi verið ófullnægjandi, loftræstingin léleg, húsnæðið of þröngt og að starfsmenn og tæki hafi gengið milli deilda. 

Segir tal um lögreglurannsókn ekki til bóta

Eftir að fregnir bárust af hópsmitinu á Landakoti heyrðist frá embætti landlæknis að atvikið kynni að verða skoðað sem alvarlegt, tilkynningarskylt atvik. Már sagðist í viðtali á mbl.is vera ósáttur við þessi viðbrögð landlæknisembættisins og sagði ekki útlit fyrir að nokkur misbrestur hefði orðið í starfsemi Landakotsspítala. Páll Matthíasson, forstjóri spítalans, tók í sama streng í Kastljósviðtali í lok október og sagði alls ekki ljóst að hópsýkingin væri tilkynningarskylt atvik, enda væri engin vísbending um að nokkuð misferli hefði átt sér stað. 

Spurður hvort hann telji engan misbrest hafa orðið í starfseminni og hvort hann standi við orð sín um að atvikið sé ekki tilkynningarskylt segir Már að þegar einhver greinist með tilkynningarskyldan sjúkdóm fái landlæknisembættið og Almannavarnir upplýsingar um það, „jafnvel áður en það kemur til kasta okkar á sjúkrahúsinu“. 

„Þegar þessi atburður á sér stað, þegar hópsmit er að koma upp á Landakoti, þá er strax nokkuð ljóst í okkar huga sem stöndum að skipulagningunni, að þetta er heilmikill atburður. En á þeim tímapunkti þá áttum við okkur ekki á því hversu umfangsmikill hann er. Hins vegar er það þannig að starfsfólkinu er mjög brugðið og starfsfólkið er auðvitað hornsteinn að öllu viðbragði hjá okkur. Þegar er svo farið að ræða um það að það þurfi kannski lögreglurannsókn og eitthvað þess háttar þá er það ekki til þess að hjálpa okkur í viðbragðinu að standa vörð um öryggi sjúklinganna, umfram þann öryggisbrest sem hafði þá þegar orðið,“ segir hann og bætir við að honum hafi verið ljóst að sóttvarnalækni og Almannavörnum væri kunnugt um málið. Ekkert hafi bent til þess að ásetningur, vanræksla eða glæpsamlegt athæfi hafi átt sér stað. 

Hólfaskipt í fyrstu bylgju en ekki þriðju

Í fyrstu bylgju faraldursins var viðhöfð hólfaskipting á Landakoti. Þá greindust sýkingar þar en smitin bárust ekki um allan spítalann. Í kjölfarið var gerð úttekt á smithættu á Landakoti og veikleikar og styrkleikar greindir. Í þriðju bylgju var ekki komið á hólfaskiptingu á Landakoti, þrátt fyrir útbreitt samfélagssmit.

Aðspurður hvort stjórnendur hafi ekki haft áhyggjur af því að stórslys gæti orðið á spítalanum ef honum væri ekki skipt í hólf segir Már að stjórnendur hafi alltaf áhyggjur af starfseminni: „Því það hefur legið fyrir að húsnæði spítalans og okkar aðstaða er ekki upp á það besta. Og það er bara þannig að spítalinn er ekki svona stofnun eins og RÚV sem getur hólfaskipt sér. Sjúkrahús, og sérstaklega staður eins og Landakot, er dýnamískur staður, endurhæfing fyrir fullorðið fólk sem þarfnast mikillar nándar,“ segir hann. 

Spurður hvers vegna hafi þá verið hægt að hólfaskipta í vor segir Már að frekar hafi verið aukið við sóttvarnir eftir uppákomuna í vor en hitt. Til dæmis hafi verið opnuð níu rúma deild og fjölbýlum fækkað.

Ráðstafanir voru ekki fullnægjandi

En ástæðan fyrir því að þetta nær að breiðast svona út og komast milli deilda er sú að tæki og starfsmenn fara milli hæða og deilda og breiða út smitið. Þið náðuð ekki að halda því á einum stað. Voru það ekki mistök?

„Ég get nú ekki fallist á það að okkur hafi ekki tekist að halda því á einum stað, því það felur það í sér að það hafi bara komið inn á einum stað og síðan breiðst út. En það liggur fyrir þegar þú skoðar erfðafræði veirunnar að það eru margir íkomustaðir veirunnar á faraldurstímanum, að minnsta kosti þrír, og sennilega fjórir eða fimm atburðir sem hafa átt sér stað. Þannig að þetta eru margir atburðir sem eiga sér stað, bæði starfsmenn og sjúklingar. Við tvo þessara atburða varð engin útbreiðsla en við aðra verður útbreiðsla,“ útskýrir Már og segir þær sýkingar sem ekki breiddust um spítalann bera merki þess að sýkingarvarnir hafi verið í lagi. 

Aðspurður hvers vegna ekki hafi verið gripið til harðari sóttvarnaráðstafana þegar faraldurinn var á hraðri uppleið í upphafi þriðju bylgjunnar segir hann að þótt þær ráðstafanir sem stjórn spítalans greip til hafi ekki verið fullnægjandi hafi verið gripið til ráðstafana eftir að hópsýkingin kom upp. „Og þá náum við að snúa þetta niður á vikutíma.“

Enginn viðurkennt mistök

Af skýrslunni að dæma er ekki að sjá að stjórnendur spítalans telji sig hafa gert nein mistök þrátt fyrir að heill öldrunarspítali hafi verið undirlagður af COVID-19. Aðspurður um þetta segir Már mikilvægt að horfa á atvikið í víðara samhengi og bendir á lága dánartíðni COVID-19 hér á landi. Hann segir að stjórnendur hafi gefið út sérstakar leiðbeiningar til starfsfólks og að starfsfólk, sjúklingar og aðstandendur þurfi að umgangast hvert annað með smitgát í huga. 

Aðspurður hvort hann telji engin mistök hafa átt sér stað af hálfu stjórnenda segist Már ekki sjá í hverju þau ættu að vera fólgin. „Það eru viðbragðsáætlanir, kennsla starfsfólks og stöðug áminning um persónulegt hreinlæti, grímuskyldu og heimsóknabönn. Starfsfólkið hefur það að lífsviðurværi að sinna öldruðu fólki og við erum í þessum bransa að reyna að hefta útbreiðslu veirunnar. Það er ekki raunhæft að lenda ekki í þessu. Við höfum lent í fimm faröldrum inni á spítalanum í þriðju bylgjunni. Við erum alltaf að lenda í þessu en höfum aldrei lent í viðlíka útbreiðslu og þessu á Landakoti. Enda er það húsnæði langsíst til þess fallið að halda utan um svona faraldur,“ segir hann. 

„Umræður í fjölmiðlum og þær fyrirspurnir sem við fáum eru hvort við séum ekki leið yfir því að þetta hafi gerst, hvort hafi orðið mistök. Við göngum ekki til vinnunnar með þann ásetning að gera mistök. Það ganga allir til vinnunnar inn í það umhverfi sem vinnustaðurinn skapar þér til þess að gera eins vel og þú getur,“ segir Már að lokum.