Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Aflétta trúnaði af gögnum um Arnarholt

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Borgarskjalavörður hefur í samráði við borgarlögmann aflétt trúnaði af umræðum um vistheimilið Arnarholt í borgarstjórn árið 1971. Borgarlögmaður telur að lagaskylda um aðgengi almennings að gögnunum vegi þyngra en fyrirvari um trúnað. Fólk sem átti ættingja í Arnarholti hefur leitað til borgarskjalasafns, í þeirri von að eitthvað sé til í fórum safnsins um mál ættingjanna.

Starfsfólk á vistheimilinu Arnarholti lýsti ómannúðlegri meðferð á heimilisfólki í ítarlegum vitnaleiðslum fyrir tæpri hálfri öld. Greint var frá því sem fram kom í vitnaleiðslunum í fréttum í síðustu viku.

Málið var rætt á tveimur lokuðum fundum í borgarstjórn árið 1971, en þar voru vitnaleiðslurnar til umræðu. Eftir þær umræður ákvað borgarstjórn að grípa til aðgerða sem lauk með því að Arnarholt varð hluti af geðdeild Borgarspítalans.

„Það hefur aldrei verið beðið um þessi gögn“

Hingað til hefur trúnaður ríkt um þessar umræður í borgarstjórn, sem og fundargerðir sem voru skrifaðar, en breyting varð á því fyrir helgi. Svanhildur Bogadóttir borgarskjalavörður segir að ekki hafi verið talin ástæða til annars en að aflétta þessum trúnaði.

„Hluti af þessum fundi 15. júlí 1971 var lokaður fundur þannig að almenningur og blaðamenn voru beðnir um að fara út úr salnum. Og það hafði aldrei mér vitanlega verið beðið um þessar umræður borgarstjórnar, sem voru vélritaðar upp. En þegar beðið var um aðgang að þeim ætluðum við bara að veita aðgang að þeim eins og við gerum venjulega með þessar umræður, það er bara opinn aðgangur að þeim. En þá kom í ljós þessi samþykkt í upphafi fundarins, þegar verið er að fjalla um þetta, að umræðurnar á fundinum yrðu lokaðar þangað til borgarstjórn hefði gert ályktun um annað.“

Og það hefur borgarstjórn aldrei gert?

„Nei. Og ég reikna bara með því að eftir á hafi enginn gert sér grein fyrir að þetta væri þarna inni, og það hefur aldrei verið beðið um þessi gögn.“

Er það algengt, að trúnaður ríki um svona umræður í borgarstjórn?

„Ég held að það sé sjaldgæft. Ég þori ekki að fullyrða að það sé aldrei, en það er sjaldgæft.“

Hvers vegna var þessi ákvörðun tekin í síðustu viku, að aflétta þessum trúnaði?

„Þegar við fórum að skoða þetta sáum við enga ástæðu til þess að hafa þetta lokað, frekar en aðrar umræður. Þetta var viðkvæmt mál á þessum tíma en það voru engar viðkvæmar upplýsingar um einkamálefni í umræðunum. Þá leituðum við til borgarlögmanns í sambandi við það hvort það þyrfti að fá borgarstjórn til þess að gera ályktun um þetta mál. Borgarlögmaður taldi að lagaskyldan um aðgengi almennings að opinberum skjölum viki til hliðar þessum sérstaka fyrirvara og því væri ekki þörf á að leggja þetta fyrir borgarstjórn,“ segir Svanhildur.  „Ég ákvað því að létta trúnaði af skjölunum.“

Mismunandi trúnaður

Svanhildur segir að í fórum borgarskjalasafns sé mikið af gögnum um Arnarholt. Fjölmiðlar hafi sýnt þeim gögnum nokkurn áhuga síðustu daga.

„Og sömuleiðis hafa leitað til okkar einstaklingar sem áttu ættingja sem voru þarna, hvort við hefðum eitthvað um mál þeirra,“ segir Svanhildur og bætir því við að fólk geti vissulega leitað til safnsins ef það telur slíkar upplýsingar vera í fórum safnsins. „En hins vegar er alveg spurning hvað við getum gefið miklar upplýsingar. Við þurfum bara að skoða hvert tilfelli fyrir sig. En við gætum til dæmis staðfest vistartíma og slíkt.“

Hvers konar trúnaður ríkir um önnur gögn þessa máls? Getur hver sem er fengið þessi gögn, ef búið er að afmá persónugreinanlegar upplýsingar fyrst?

„Það kom upp einhver misskilningur í síðustu viku um að við værum að loka öllu í 100 ár. Það er alls ekki svo. Þetta eru mjög viðamikil gögn frá ýmsum embættum, þar sem við höfum upplýsingar um Arnarholt, eins og í málasafni borgarstjóra, í málasafni Borgarspítala, borgarlæknis, félagsmálastofnunar, barnaverndarnefndar og svo framvegis. Sumt af þessu er alveg opið, þar sem er verið að fjalla almennt um heimilið, framkvæmdir, fjármál og þess háttar. Og síðan eru heimildir þar sem hægt er að veita aðgang með því að strika yfir nöfn og auðkenni. Það gerðum við til dæmis með vitnaleiðslurnar sem við vorum að láta fjölmiðla fá á föstudaginn. Þar voru strikuð út öll auðkenni, bæði starfsmenn og vistmenn. En síðan eru náttúrulega læknaskýrslur þarna, sem eru lokaðar í 100 ár.“

En er ekki hægt að fá aðgang að þeim ef persónugreinanlegar upplýsingar eru afmáðar fyrst?

„Við þyrftum bara að skoða hverja beiðni fyrir sig um slíkt. En síðan þegar það hafa verið rannsóknir, eins og í tengslum við Breiðuvík, þá var skipuð sérstök nefnd til þess að rannsaka málið, og hún hafði aðgang að öllum skjölum hjá okkur með sérstakri lagaheimild,“ segir Svanhildur.