Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

18 farþegar fá rúma milljón endurgreidda frá Icelandair

16.11.2020 - 07:31
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Samgöngustofa hefur komist að þeirri niðurstöðu að Icelandair beri að endurgreiða að fullu gjafabréf sem farþegar kaupa hjá stéttarfélögum sínum. Niðurstaðan hefur verið kærð til samgönguráðuneytisins.

Þetta kemur fram í fjórum úrskurðum Samgöngustofu.

Fyrsti úrskurðurinn féll í sumar. Þar áttu fimm farþegar bókað far með Icelandair til og frá San Fransiskó síðasta sumar. Fara átti í ferðirnar síðasta sumar en þeim aflýst vegna breytinga á flugáætlun Icelandair sem að hluta til mátti rekja til viðbragða flugfélagsins vegna kyrrsetningar Max 737 vélanna.

Í þremur úrskurðum sem féllu fyrir helgi voru þetta í fyrsta lagi tveir farþegar sem áttu bókað flug til Orlando í mars. Í öðru lagi voru þetta fimm farþegar sem áttu bókaðar nokkrar ferðir með í maí, júní og júlí og í þriðja lagi sex farþegar sem ætluðu að fljúga til München í apríl. Til stóð að fara í þessar ferðir á þessu ári en þeim aflýst enda hefur millilandaflug nánast legið niðri síðan í mars vegna kórónuveirufaraldursins.

Í ákvörðun Samgöngustofu kemur fram að Icelandair selji gjafabréf til stéttarfélags sem auglýsi þau á sérkjörum til sinna félagsmanna. Þeir kaupi gjafabréfin síðan af stéttarfélaginu á áðurnefndum kjörum.  Í svari Icelandair til Samgöngustofu kemur fram að gjafabréfin séu ávallt gefin út fyrir tilteknu andvirði sem mælt er í krónum en ekki svokölluðum ferðapunktum. 

Samgöngustofa telur að þar sem gjafabréfin hafi verið gefin út í fjárhæð af Icelandair og flugfélagið hafi ekki selt umræddum farþegum gjafabréfin eigi farþegarnir rétt á fullri endurgreiðslu.  Í einu málinu hljóðar upphæðin upp á 495 þúsund, í öðru 240 þúsund krónur, í því þriðja 178 þúsund og í því fjórða 265 þúsund eða nærri 1,2 milljónir króna. 

Í yngsta málinu segir að engin svör hafi borist frá Icelandair þar sem ákvörðun Samgöngustofu frá því í sumar séu nú í kærumeðferð hjá samgönguráðuneytinu.

Fréttin hefur verið uppfærð eftir að ábending barst um málið frá München. Fyrirsögn og efni hefur verið breytt í samræmi við það.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV