Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Stærsti fríverslunarsamningur heims undirritaður

15.11.2020 - 08:08
epa08821142 Vietnam's Prime Minister Nguyen Xuan Phuc (L) and Minister of Industry and Trade Tran Tuan Anh (R) cheer during the virtual signing ceremony for the Regional Comprehensive Economic Partnership (RCEP) in Hanoi, Vietnam, 15 November 2020. The virtual 37th ASEAN Summit and related summits take place from 12 to 15 November 2020 at the International Convention Center (ICC) in Hanoi.  EPA-EFE/LUONG THAI LINH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fulltrúar Kína, Japans, Ástralíu og tólf annarra þjóða í Asíu og Eyjaálfu undirrituðu í morgun fríverslunarsamning sem að líkindum er sá stærsti sem gerður hefur verið, þegar horft er til landsframleiðslu ríkjanna sem eiga aðild að honum.

Samningurinn, sem á ensku kallast Regional Comprehensive Economic Partnership, var undirritaður í gegnum fjarfundarbúnað leiðtoganna, sem stýrt var frá Hanoi í Víetnam.

AFP segir samninginn mikinn diplómatískan sigur fyrir Kína, sem hefur átt í hörðum viðskiptadeilum við Bandaríkin síðustu misseri. Um 30 prósent af heimsframleiðslunni fer fram í hinum fimmtán aðildarríkjum samningsins.

Þau eru, í stafrófsröð: Ástralía, Brúnei, Filippseyjar, Indónesía, Japan, Kambódía, Kína, Laos, Malasía, Mjanmar, Nýja Sjáland, Singapúr, Suður Kórea, Taíland, og Víetnam.

Indland ekki með

Indland, fimmta stærsta hagkerfi heims og fer hratt vaxandi, dró sig út úr viðræðum um samninginn í fyrra. Samkvæmt AFP-fréttastofunni var það einkum vegna áhyggna Indlandsstjórnar af því, að ódýr, kínverskur varningur myndi flæða inn í landið og skaða indverska framleiðendur. Viðskilnaðurinn var hins vegar með þeim hætti að ekki er útilokað að Indverjar gangi til samstarfsins síðar.
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV