Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skjálftahrina talin tengjast niðurdælingu jarðhitavatns

Mynd með færslu
 Mynd: ThinkGeoEnergy - Wikimedia/Creative Commons
Um tíu skjálftar yfir tveir að stærð hafa mælst eftir að jarðskjálftahrina hófst við Húsmúla á Hengilssvæðinu í kvöld. Stærsti skjálftinn varð klukkan rúmlega sjö, 3,3 að stærð. Hann fannst í Hveragerði, á Eyrarbakka og víða á höfuðborgarsvæðinu. 

Í tilkynningu frá Orku náttúrunnar segir að skjálftarnir séu á því svæði þar sem jarðhitavatni sem nýtt er í Hellisheiðarvirkjun er dælt aftur niður í jörðina. Starfsfólk fylgist með þróun mála á svæðinu í kvöld og nótt í samráði við jarðvárvakt Veðurstofunnar, en skjálftahrinan hefur ekki haft áhrif á rekstur virkjunarinnar. Þar er unnið rafmagn og heitt vatn fyrir hitaveituna á höfuðborgarsvæðinu. 

Breytingar á niðurdælingu hafa valdið smáskjálftavirkni á svæðinu í gegnum tíðina. Engar breytingar voru í gangi þegar skjálftahrinan hófst í kvöld, en vísindafólk Orku náttúrunnar telja engu að síður að skjálftarnir tengist þeim spennubreytingum sem langvarandi niðurdælingu veldur.

Engar breytingar verða gerðar á niðurdælingunni vegna skjálftanna, þar sem breytingar á tilhögun hennar eru taldar auka líkur á skjálftavirkni. 

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV