
Nær hálf milljón Víetnama flýr yfirvofandi fellibyl
Meðalvindhraði gæti orðið allt að 42 metrar á sekúndu samkvæmt veðurspám, og þótt Vamco hafi ausið úr sér rigningu af feiknarkrafti á Filippseyjum er ekkert lát á úrhellinu sem fylgir honum. Það eru slæmar fréttir fyrir strandhéruð Víetnams, þar sem mestu flóð það sem af er öldinni hafa valdið bæði manntjóni og tjóni á mannvirkjum síðustu vikur.
Börn og eldra fólk flutt í skjól
Óveðrið er þegar skollið á eyjunni Ly Son, um 25 kílómetra frá landi. Brimskaflar skella þar á ströndinni af ógnarkrafti og um þúsund manns þurftu að yfirgefa heimili sín við sjávarsíðuna og forða sér upp í land. Í strandhéruðum á meginlandinu hefur verið unnið að því síðustu daga að styrkja brimvarnargarða og flytja börn og eldri borgara í öruggt skjól, samkvæmt víetnamska ríkissjónvarpinu. Einnig er búið að loka fimm flugvöllum og stöðva allar lestarsamgöngur á hamfarasvæðinu.
Mestu flóð í 30 ár
Sjö fellibyljir og hitabeltisstormar hafa dunið yfir strandhéruð Víetnams síðasta mánuðinn og valdið flóðum og aurskriðum sem kostað hafa minnst 235 mannslíf. Úrkoman sem fylgdi stormunum hefur orsakað mestu flóð sem orðið hafa á þessum slóðum um 30 ára skeið.