Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Nær hálf milljón Víetnama flýr yfirvofandi fellibyl

15.11.2020 - 04:07
Erlent · Hamfarir · Asía · fellibylur · Filippseyjar · Víetnam · Veður
epa08739573 Municipal workers evacuate local people from flood water in Hue, Vietnam, 13 October 2020. Heavy rains and floods killed at least 23 people in northern and central Vietnam during the past few days, according to media reports.  EPA-EFE/STR VIETNAM OUT
Sjö fellibyljir og hitabeltislægðir hafa dunið á Víetnam það sem af er ári og valdið mestu flóðum sem þar hafa orðið í 30 ár. Áttunda óveðrið, fellibylurinn Vamco, skellur á landinu í dag, sunnudag. Mynd: epa
Stjórnvöld í Víetnam hafa gert um 460.000 manns að yfirgefa heimili sín og koma sér í öruggt skjól vegna yfirvofandi ofsaveðurs. Fellibylurinn Vamco, sem varð minnst 42 að fjörtjóni á Filippseyjum í vikunni og eyðilagði eða stórskemmdi yfir 300.000 heimili á Luzon-eyju, er byrjaður að láta til sín taka við strönd Víetnams, þar sem hann mun ganga á land með morgninum.

Meðalvindhraði gæti orðið allt að 42 metrar á sekúndu samkvæmt veðurspám, og þótt Vamco hafi ausið úr sér rigningu af feiknarkrafti á Filippseyjum er ekkert lát á úrhellinu sem fylgir honum. Það eru slæmar fréttir fyrir strandhéruð Víetnams, þar sem mestu flóð það sem af er öldinni hafa valdið bæði manntjóni og tjóni á mannvirkjum síðustu vikur.

Börn og eldra fólk flutt í skjól

Óveðrið er þegar skollið á eyjunni Ly Son, um 25 kílómetra frá landi. Brimskaflar skella þar á ströndinni af ógnarkrafti og um þúsund manns þurftu að yfirgefa heimili sín við sjávarsíðuna og forða sér upp í land. Í strandhéruðum á meginlandinu hefur verið unnið að því síðustu daga að styrkja brimvarnargarða og flytja börn og eldri borgara í öruggt skjól, samkvæmt víetnamska ríkissjónvarpinu. Einnig er búið að loka fimm flugvöllum og stöðva allar lestarsamgöngur á hamfarasvæðinu.

Mestu flóð í 30 ár

Sjö fellibyljir og hitabeltisstormar hafa dunið yfir strandhéruð Víetnams síðasta mánuðinn og valdið flóðum og aurskriðum sem kostað hafa minnst 235 mannslíf. Úrkoman sem fylgdi stormunum hefur orsakað mestu flóð sem orðið hafa á þessum slóðum um 30 ára skeið.