Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Listrænir hrekkir og fjármálalífið

Mynd: Mom Air / Mom Air

Listrænir hrekkir og fjármálalífið

15.11.2020 - 09:37

Höfundar

Í síðustu viku opnaði heimasíða þess sem virtist vera nýtt ofur-lággjaldaflugfélag með höfuðstöðvar á Íslandi, Mom Air. Það virðist þó líklegt að um listrænan hrekk sé að ræða. Í Lestinni á Rás 1 voru rifjaðir upp nokkrir listrænir gjörningar sem hafa hrist upp í fjármálamörkuðum.

Fljótlega eftir að heimasíða mömmu-flugfélagsins Mom Air var opnuð í síðustu viku höfðu farið að renna tvær grímur á marga. Jú, þetta leit allt mjög faglega út, myndirnar, grafíkin, leiðarkerfið, bókunarvélin. En… þetta minnti meira en lítið á heimasíðu hins sáluga Wow Air. Já, eða í rauninni var þetta bara nákvæmlega eins. Merki Wow var reyndar snúið á haus og örlitlu rauðu var bætt í hinn fjólubláa einkennislit félagsins. Núverandi eigendur þess vörumerkis könnuðust hins vegar ekki við neitt.

Ekki nóg með það heldur voru tilboðin mörg hver allt of góð til að vera sönn og skilmálarnir og hugmyndafræðin oft á tíðum eilítið undarleg. Þetta lyktaði allt af einhvers konar hrekk eða svindli. Von bráðar komust fjölmiðlar á snoðir um það  að eigandi vefsvæðisins væri listamaðurinn Oddur Eysteinn Friðriksson, sem merkir listaverk sín með nafninu Odee. Hingað til hefur hann ekki verið þekktur fyrir pólitísk verk eða svona listræn inngrip. Hann gerir verk þar sem hann klippir út ýmsar fígúrur úr poppkúltúr - úr myndasögum og auglýsingum - blandar saman og endurskapar - mjög mikið í anda þess sem Erró og aðrir popp-listamenn byrjuðu að gera upp úr miðri síðustu öld.

Með örlitlum semingi viðurkenndi Odee að tengjast flugfélaginu en sagði þetta ekkert grín, sér væri fúlasta alvara en hann vildi ekki gefa upp hvort og þá hvaða fjárfestar stæðu með honum að stofnun flugfélagsins. 

Hvað liggur að baki hjá listamanninum er óljóst en honum tókst að minnsta kosti að pirra ýmsa fjárfesta og aðila í flugbransanum. Erlendir fagmiðlar hafa fjallað um hið dularfulla flugfélag og talsmaður bandaríska fjárfestisins  Michelle Ballarin sem á vörumerkið Wow Air hefur sett sig í samband við Odee og gert honum ljóst að þau telji hann misnota vörumerki og útlit í eigu þeirra: „Það má alveg hafa gaman af listrænum gjörningum en einhvers staðar þurfa mörkin að liggja. Þarna er klárlega óleyfileg notkun á höfundarréttarvörðu vörumerki,“ sagði lögmaður Ballarin í Fréttablaðinu.

En hvað liggur að baki? Er þetta bara leið fyrir Odee til að fá umfjöllun, mun hann sýna popp-listaverk sín á blaðamannafundinum, eða er þetta tilraun til einhvers konar gagnrýni á samtímann, tilraun til að draga fram hvernig fyrirtæki 21. aldarinnar eru oft lítið annað en merkið eða vefsíðan?  Ef það síðarnefnda væri raunin - sem virðist enn nokkuð óljóst - þá væri hann að vinna í hefð ýmiss konar listrænna aktívista í gegnum tíðina.

Útúrsnúningur og menningarbrenglun

Eftir að sjónrænar merkjasendingar auglýsingaiðnaðarins fóru að verða svo stór hluti af upplifun fólks á heiminum á 20. öldinni fóru listamenn að leika sér að og snúa upp á þessar táknmyndir og merkjasendingar, bregða fólki með óvæntum myndum og tengingum, reyna að láta það hrökkva upp úr gagnrýnislausu neyslumókinu og sjá hvernig merki og tákn auglýsinganna voru að móta þrár og langanir þeirra. Frönsku situation-istarnir um miðja 20. öldina kölluðu það detournement, útúrsnúning, en undir lok aldarinnar var byrjað að nota enska heitið culture jamming, menningarbrenglun.

Á 21. öldinni hefur upplýsingaflæðið svo orðið sífellt meira og stöðugra með tölvutækninni, merkjasendingar auglýsenda alltumlykjandi, fyrirækjarekstur meira fljótandi þar sem ímyndin er oft það eina sem kompaníið framleiðir. Að stofna fyrirtæki þarf ekki að felast í meiru en að hanna flotta vefsíðu. Merkjasendingar eru ekki lengur yfirbyggingin heldur einfaldlega veruleiki sem við búum í, og listræn brenglun þeirra getur því haft raunveruleg áhrif á markaðinn.

Peningum rigndi yfir Wall Street

Bandaríski aðgerðasinninn Abbie Hoffman skilgreindi sig yfirleitt ekki sem listamann en eflaust má kalla það listrænan gjörning, brenglun eða útúrsnúning, þegar hann mætti árið 1967 ásamt nokkrum hópi fólks í gestastúkuna í kauphöllinni á Wall Street í New York og fleygði ógrynni af peningaseðlum yfir gólfið þar sem verfbréfamiðlaranir athafna sig. Í skamma stund stöðvuðust viðskipti á meðan miðlararnir ýmist bölvuðu hippunum eða kepptust við að grípa seðla sem rigndi yfir þá. Hoffman, sem margir kannast nú við sem viðfang Netflix-kvikmyndar um Chicago sjömenningana svokölluðu, átti eftir að gera þetta oftar, beita húmorískum skærugjörningum til að fanga athygli fjölmiðla. Markmiðið með gjörningnum á Wall Street var að mótmæla Víetnamstríðinu og lýsa yfir andláti peningakerfisins. En þótt það hafi hægst á viðskiptunum í eitt augnablik tókst - ótrúlegt en satt - ekki að aflífa peningakerfið. Hálfri öld seinna eru þeir alveg jafn áberandi, en hins vegar hefur verið komið upp skotheldu gleri milli gestastúkunnar og gólfsins í kauphöllinni. 

Já-kallarnir tala fyrri hönd stórfyrirtækis

Annað þekkt dæmi um aktívista sem nota listræna merkjabrenglun til að rugla í markaðnum eru Já-kallarnir, Yes men, sem villa reglulega á sér heimildir og koma fram sem talsmenn fyrirtækja og markaðsafla. Árið 2004 náðu þau að smygla sér í beina útsendingu á sjónvarpsstöð BBC World sem talsmenn fjölþjóðlegu fyrirtækjasamsteypunnar Dow Chemical Company og tóku fulla ábyrgð á einu hryllilegasta mengunarslysi sögunnar þegar tugþúsundir tonna af eiturgasi láku úr skordýraeitursverksmiðju í miðju fátækrahverfi í indversku borginni Bhopal. Þúsundir létust og hundruð þúsund glíma enn við afleiðingar slyssins en fram að því höfðu engar bætur verið greiddar til fórnarlamba slyssins. Já-kallarnir hétu því að Dow myndi greiða hundruð milljón króna í skaðabætur sem myndu skiptast á milli fórnarlambanna og aðstandenda látinna. Hlutabréf í fyrirtækinu hríðféllu um stund - um hátt í 5% -  þar til ljóst varð að um blekkingu var að ræða og BBC baðst afsökunar.

Listaháskólanemar valda usla

Fleiri hafa nýtt sér þessa aðferð og sent frá sér óvæntar yfirlýsingar eða hengt merki sem virðast vera frá tilteknum fyrirtækjum. Það var kannski ekki jafn drastískt þegar nokkrir nemendur í Listaháskóla Íslands settu upp merkingar í tómu verslunarhúsnæði við laugarveg árið 2012 þar sem tilkynnt var að sænski fatarisinn H&M myndi senn opna verslun í húsinu, í fyrsta skipti á Íslandi. Íslendingar höfðu verið sólgnir í föt frá fyrirtækinu og reglulegar fréttir um mögulega opnun fyrirtækisins hér á landi vöktu yfirleitt mikla athygli. Fréttin um meinta opnun H&M á Íslandi árið 2012 var mikið lesin á fréttavef Vísis. Í kjölfarið var greint frá því að ritstjórnin hefði fengið símtal þar sem kvartað var undan birtingu fréttarinnar og sagt að hún gæti haft verðmyndandi áhrif á bréf í Högum, sem er skráð í Kauphöll Íslands. Nokkur plaköt frá listaháskólanemum voru ógn við verðbréfaverð eins stærsta fyrirtækis á landinu.

Skuldir vegna skólagjalda brenndar

Og talandi um skóla. Árið 2014 vakti það heimsathygli þegar síleskur listamaður sem kallar sig Papa Fritas kvaðst hafa brennt upplýsingar um skuldir fjölmargra háskólanema vegna lána fyrir skólagjöldum til hins einkarekna og hagnaðardrifna Universidad del Mar í Síle. Þar í landi hafði verið hávær mótmælahreyfing sem barðist gegn ofurháum skólagjöldum sem voru sögð stuðla að misskiptingu og skuldsetningu fólks til lífstíðar. Að sögn listamannsins, sem fékk fljótlega viðurnefnið hinn síleski Hrói höttur, hafði hann í heilt ár logið sig inn á skrifstofur háskólans Universidad del Mar og stolið samningum milli nemenda og skólans um lán fyrir skólagjöldunum, sem hann sagði oftast vera einu heimild skólans um upphæð skuldarinnar. Í myndbandi sem hann sendi frá sér eftir gjörninginn hélt hann því fram að skuldirnar næmu um 70 milljörðum króna, og nú væri engin leið fyrir skólann til að sækja peningana. Skuldaþrælar skólans væru frjálsir. 

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Ég upplifði mig sem einan í heiminum“

Tónlist

Aldrei rappað um að hafa þurft að selja kókaín

Tónlist

Dulúðin ekki horfin af internetinu

Bókmenntir

Bók sem afneitar helförinni kynnt í Bókatíðindum