Líftæknilyf bæta líf þúsunda á Íslandi

15.11.2020 - 09:30
Mynd: Magnús Atli Magnússon / RÚV/Landinn
Vaxandi hópur fólks fær líftæknilyf við sjálfsofnæmissjúkdómum en líftæknilyf hafa einnig verið notuð með góðum árangri við krabbameinum.

Greindist með liðagigt 27 ára

Landinn kynnir sér líftæknilyf í þætti kvöldsins og hittir Sofiu Birgittu Krantz sem er sálfræðingur og bóndi. Þegar hún var 27 ára og á öðru ári í sálfræði fór hún að finna fyrir verkjum í fótum sem ágerðust. „Ég átti erfitt með að setjast upp í rúmið einn morguninn og sat þarna á rúmstokkinum og var bara. „Hvað er þetta? - Ég er bara eins og níræð.““ Sofia var fljótlega greind með iktsýki, eða liðagigt, en fyrir tilstilli líftæknilyfja hefur tekist að halda niðri einkennunum. 

Líftæknilyf halda einkennum í skefjum

„Líftæknilyf eru lyf sem eru búin til af lífverum. Þetta eru þá oftast prótín sem eru búin til þannig að það eru gen sett inn í frumur eins og til dæmis bakteríur, sveppi eða bara frumur sem eru í rækt og þannig er þetta látið vaxa upp það er í rauninni lífveran sem býr til þetta prótín sem er notað sem lyf,“ segir Hrefna Guðmundsdóttir, læknir á Lyfjastofnun. Líftæknilyf eiga það sameiginlegt hvernig þau eru framleidd, ekki hvernig þau virka. Framleiðsla líftæknilyfja hófst í kringum 1990, fyrst voru það einfaldari lyf eins og hormón. 

Ný vopn við krabbameinum

Samkvæmt Landlæknisembættinu er stærsti hópur þeirra sem nota líftæknilyf þeir sem eru með sykursýki, eða um fimm þúsund manns, en svo er vaxandi hópur þeirra sem fá flóknari líftæknilyf við sjálfsofnæmissjúkdómum, eða 1700 manns á síðasta ári. Þá eru í auknum mæli notuð líftæknilyf fleiri sjúkdómum eins og til dæmis í krabbameinsmeðferðum. „Þetta eru í rauninni alveg ný vopn í vopnabúrið [við krabbameinum],“ segir Hrefna.  

Í Landanum í kvöld, kl. 19.50, verður nánar fjallað um líftæknilyf en einnig búið til súrkál, Landinn hittir frumkvöðul á Akranesi, fer eftir fornum ferðaleiðum í Skaftárhreppi og hittir listamann sem hefur nóg að gera þrátt fyrir samkomubann. 

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður