Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Langbrókarskvísa í Vesturbænum

Mynd: Kápa / Bjartur

Langbrókarskvísa í Vesturbænum

15.11.2020 - 13:14

Höfundar

Margir eru eflaust æstir í skemmtisögu nú í svartasta skammdeginu og lokahnykknum á leiðinlegu ári. Bókarýnir Víðsjár segir 107 Reykjavík eftir Auði Jónsdóttur og Birnu Önnu Björnsdóttur ætlað að fullnægja þessari löngun en takist því miður ekki ætlunarverk sitt.

Björn Þór Vilhjálmsson skrifar:

„Það kvað vera fallegt í Kína. / Keisarans hallir skína [...] En er nokkuð yndislegra [...] en vorkvöld í Vesturbænum?“ – er spurt í ljóðinu, og svo bætt við að jafnvel andvarinn hægi á sér á þessu dýrðlega svæði og ástfangin jörðin fari hjá sér. Líkt og segja má að titillinn beri með sér með nokkuð skýrum hætti þá er Vesturbærinn einmitt sögusvið skáldsögunnar 107 Reykjavík eftir Auði Jónsdóttur og Birnu Önnu Björnsdóttur, og undirtitillinn gefur ennfrekari vísbendingar um hvers eðlis verkið sé, „skemmtisaga fyrir lengra komna“. Nú er erfitt að ímynda sér hvernig póstnúmeraskáldsaga gæti mögulega komið í heiminn hér á landi án þess að kalla fram hugrenningatengsl við 101 Reykjavík eftir Hallgrím Helgason, í senn nútímaklassík og minnisvarða í bókmenntaformi um dýrðardagana þegar Baltasar átti Kaffibarinn, sem þá var svo agnarlítill að aðeins rúmuðust þar stórar sálir og miklir popparar, og partíið byrjaði á fimmtudagskvöldi og stendur enn. Áhrifin fundust jafnvel í raunheimum. Það var bók Hallgríms og svo kvikmynd Baltasars nokkru síðar sem sviptu feimnishjúpnum í burtu og festu þá gölnu hugmynd í sessi að djammið í Reykjavík væri svalt.

Fjórum árum eftir útkomu 101 Reykjavíkur kom önnur bók út, um sumt ekki ósvipuð, nema fyrir það að strákastemmingin í bók Hallgríms vék þarna fyrir ungum konum sem komu sér fyrir í miðju frásagnarinnar, Dís hét þetta afskaplega skemmtilega verk, en hefði þó líka getið heitið 101 Reykjavík ef það nafn hefði ekki þegar verið tekið. Höfundar hennar voru þrír, Oddný Sturludóttir, Silja Hauksdóttir og Birna Anna Björnsdóttir, annar höfunda 107 Reykjavíkur. En hvort það sé ekki einmitt skrifað í stjörnurnar að örlög Reykjavíkurhipstersins eru akkúrat þau að hefja leika og hlaupa af sér hornin í karnívalinu í 101 en flytja sig svo um set í 107 þegar alvara lífsins tekur að gera vart við sig.

Grínast með Vesturbæjarblætið

Helsta sögupersónan í 107 Reykjavík er Hallgerður, kvótaungi á fimmtugsaldri sem býr við Ægisíðuna og rekur þar enskan pöbb, sem er í senn félagslegar höfuðstöðvar Hallgerðar og rekstrar- og rýmisleg raungerving hugmynda um siðmenningarlega yfirburði Bretlands og Lundúnaborgar, sem og aðdráttarafl raunveruleikaþáttarins sem kenndur er við bresku konungsfjölskylduna. En allt eru þetta sannindi sem hafin eru yfir vafa í huga Hallgerðar og eins og til að heiðra heimsveldisfantasíur hennar dúkkar alvöru jarl upp áður en langt um líður sem mögulegt ástarviðfang, jarl segi ég og meina, enda erum við öll vaxin upp úr Damon Albarn.

Meðan Hallgerður finnur Bretlandsblæti sínu bókstaflegan farveg í enska pöbbnum gera höfundar sér leik að Vesturbæjarblætinu sem vissulega er raunverulegur hlutur og lífseigur í borgarmenningunni. Við höfum séð frægðarsól annarra borgarhverfa rísa og hníga, Laugarásinn, Arnarnesið, Þingholtin, en alltaf hefur þetta kjörlendi athafnamanna, listamanna, háskólaborgara og þeirra sem eitt sinn kölluðust embættismenn haldið taki sínu á ímyndunarafli ákveðins hluta borgarbúa, jafnvel í gegnum loðnudaun fyrri tíðar. Alveg eins og höfundar hafa komist að niðurstöðu um virkar 107 Reykjavík því prýðilega sem stökkpallur í háðsádeilu.

Það er hins vegar eins og ekki sé alveg ljóst að hverju háðsádeilan eigi að beinast. Vissulega er skondin mynd dregin upp af því hvernig sómar Íslands, sverð og skildir, safnast þarna saman, útvarpsskáld, athafnaskáld og leiðandi ljós í listaheiminum eru eins og leikmunir sem raðast niður í leikmyndina til að staðfesta Vesturbæjarleika sögusviðsins – þarna er einmitt Gísli Marteinn að labba með Tinnu, við ættum öll, hlustendur góðir, að veifa honum – en Hallgerður sjálf er aðeins of auðvelt skotmark, líkt og nafna hennar var ausin skömmum, auðvelt skotmark fyrir alþýðufræðingana hvurs dýrkun á sagnahetjunum var fölskvalaus og barnsleg. Að sumu leyti er eins og vinkvennahópurinn í kringum Hallgerði og samskiptin innan hópsins eigi miklu frekar heima í skvísubók en stéttarádeilu, þótt þessir hlutir geti auðvitað farið saman, og of snemmt sé að fullyrða nokkuð um að 107 Reykjavík sé stéttarádeila, eða hún sé ekki skvísubókmennt.

Tónninn út og suður

Raunar er 107 Reykjavík dálítið eins og afkvæmi skvísubókmennta og ærslagamanleiksins, og nú veit ég að það útaf fyrir sig hljómar býsna vel. En útkoman að þessu sinni stendur ekki alveg undir væntingum. Öðrum þræði er dregin upp mynd af lífheimi kvenna milli fertugs og fimmtugs, bæði giftra og einhleypra, sem ráða þurfa framúr hinum ýmsustu veruleikatengdu málum, og vandamálum. Fjallað er um áhugamál þeirra og í sjónmáli eru snjalltæki, tíska og föt, líkamar, kampavín og kynlíf.

Svo gerist það alltaf að Hallgerður, sem á að vera eins konar óheft frum- og framkvæmdaafl, fær hugmynd og sviptir hinum persónunum með sér og upp í sinn sporbaug, virkjar þær í sitt nýjasta uppátæki, sem leiðir jafnan til umfangsmikils leikatriðis í ærslagamanleiksstíl: tískusýning sem er sett saman á viku, óvissuferð upp á Esju eða þematískt hópeflislíkamsræktarprógram. Í þessum atriðum hverfist brandarinn jafnan um það hversu hrapallega illla fer, og blandast þar gjarnan saman hversu lítið skynbragð Hallgerður ber á menningarstrauma hins stafræna nútíma, afkáraleiki uppátækisins sjálfs og umfang hrakfaranna.

Félagslegar hamfarir

Stundum er þetta fyndið, eins og atvikið sem kemur af stað Twitter-stormi undir myllumerkinu „RacistIcelandicLadies“ en oftast er verið að reyna of mikið og frásögnin verður hálfsamhengislaus, tónninn fer út og suður. Alveg eins og persónusköpun Hallgerðar er í senn huguð og þvæld. Það er djarft að gera helstu vitundarmiðju sögunnar að kvótaerfingja og stóreiganda í Morgunblaðinu, en í aðstoðarritstjórastjólinn þar hefur hún einmitt plantað eiginmanni sínum, Jóni Sölva. Eina leiðin til að gera Hallgerði ósympatískari væri að láta hana læðast um Melana að næturlagi og drepa gæludýr, en sem burðarstólpi í háðsádeilu gæti þetta auðvitað virkað prýðisvel. En háðsádeila er ekki það sem hér er reitt fram, enda þótt eiginlega allt sem hún og maðurinn hennar koma nálægt endi í katastrófu. Kannski væri hægt að lesa bókina sem gróteska lýsingu á félagslegum hamförum í boði þeirra hjóna, eða kaldhæðnislegan útfararsálm yfir lýðveldinu, í ljósi þess að framtíðin tilheyrir kvótaveldinu, en slíkur er ekki tónninn. Húmorinn er aldrei svartur eða myrkur og textinn virðist vilja halda í hugmyndina um aðdáunarverða eiginleika Hallgerðar, þótt óljósara verði eftir því sem lengra dregur í hverju þeir felast, og ítrekar þá bæði oft og dálítið þrjóskulega, oftast með því að sýna aðra hugsa um hana eða tala á lofsamlegum nótum.

En ef ég átti í dálitlum vandræðum með að átta mig á Hallgerði þá bliknar það bókstaflega í samanburði við spurningarnar sem önnur persóna í bókinni vekur, Mína, indversk vinkona Hallgerðar sem hún greip með sér til Íslands eftir ferð til London. Á hækjum haltrar þessi innflutta aðstoðarkona, óskiljanleg með öllu, í gegnum framvinduna, allt þar til kúvending á sér stað undir lokin sem ég vil ekki spilla en kórónar einn af viðameiri bókmenntalegu dómgreindarbrestum sem ég man eftir í svipinn.

Hugmyndin um skemmtisögu hljómar afskaplega vel núna í skammdeginu þegar verið er að reka lokhnykkinn á 2020, eitt allra óskemmtilegasta árið, en við verðum að bíða aðeins lengur, 107 Reykjavík er ætlað að fullnægja akkúrat þessari löngun en gerir það því miður ekki.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Sjósundvinkonur í Vesturbæ sem eru að molna að innan

Bókmenntir

Kostulegar kynlífslýsingar í Vesturbænum

Bókmenntir

„Við slúðrum líka við frændsystkinin“

Bókmenntir

Óraunverulegt að ganga í gegnum skilnað