Kylie komin á fyrsta farrými í diskólestinni

Mynd: Magic / Myndband

Kylie komin á fyrsta farrými í diskólestinni

15.11.2020 - 14:59

Höfundar

Nýjasta breiðskífa áströlsku nágrannastelpunnar og poppgyðjunnar Kylie Minouge sem kom út í vikunni er glimmerlöðrandi diskóflikki sem heitir einfaldlega DISCO í hástöfum og ber nafn með helberri rentu.

Í síðasta pistli fjallaði ég um frábæra diskóplötu jaðardívunnar Roisin Murphy, The Roisin Machine, sem ég tel til bestu platna ársins. Og það virðist vera talsverður skriðþungi í diskóinu um þessar mundir því nýjasta skífa Kylie rær á sömu mið. Ég verð að játa að vera ekkert sérstaklega skólaður í drottningunni þó hún hafi alltaf verið þarna og maður vitað af henni. Ég er ekki alinn upp á Stöð 2-heimili og sá aldrei áströlsku sápuóperuna Nágranna sem Kylie Minouge lék í þó nærvera hennar hafi verið ægiþyrmandi og allt um kring. Ég heyrði líklega fyrst í henni syngja í gegn um vegginn innan úr herbergi bróður míns sem spilaði Where the Wild Roses Grow-dúett hennar og Nicks Cave aftur og aftur í klisjukenndri en jafnfram einlægri unglingaangist sinni.

Það var svo rétt upp úr aldamótum sem heilalímið og house-slagarinn Can‘t Get You Out Of My Head tröllreið dansgólfum og popptívíum um víða veröld. Feikilega verðskuldað og algjörlega frábæra popplagið sem það er, sjaldan hefur titill á lagi verið jafn viðeigandi, og ef þú hreyfir þig ekki þegar þú heyrir það hlýtur eiginlega að vera einhvers konar mænuskaði í spilinu. Enda toppaði það vinsældalista í meira en 40 löndum, smáskífan seldist í yfir fimm milljónum eintaka, og í seinni tíð hefur lagið skorað hátt á listum yfir bestu lög fyrsta áratugs 21. aldarinnar.

Á plötunni Body Langugue sem kom út 2003 var það engin önnur en okkar eigin Emiliana Torrini sem lagði hönd á plóg og samdi með Kylie fyrstu smáskífuna Slow, sem burtséð frá öllu þjóðarstolti er með hennar bestu og vinsælustu lögum. Kylie sagði meira að segja sjálf í viðtali árið 2012 að það væri hennar eftirlætis lag. Sjálfur naut ég þess þó oftast í partýum eða á smakkfullum skemmtistöðum í þessari frábæru endurhljóðblöndun Chemical Brothers.

Og rétt í þann mund sem Donald Trump var að tapa Bandaríkjunum læddi Kylie Minouge út fimmtándu breiðskífu sinni, sem hún kallar algjörlega skammlaust DISCO, í hástöfum hvorki meira né minna. Hún hefst á laginu Magic, þrammandi house-píanói og saurugum synþabassa í mið-tempói og níðþung bassatromman sparkar á hverju slagi. Yfir þessu flögrar loftkennd og fumlaus rödd Kylie í akkúrat hæfilegri falsettu. Keyrslan heldur svo áfram Miss a Thing og Real Groove og diskóigrúvið flæðir taumlaust yfir alla bakka.

Plata Roisin Murphy sem ég ræddi hér fyrir tveimur vikum var mikið diskó en samt með avant gard-áhrifum og vinstri snúningi, og hljómurinn eilítið meira í áttina að hús- og raftónlist. En ef Roisin Machin svipar til svals neðanjarðarhommaklúbbs í New York eða San Fransisco er DISCO með Kylie Minouge meira eins og Studio 54 á laugardagskvöldi. Þarna er allt í háskerpu og ekkert til sparað, lifandi hljóðfæraleikur frá rándýrum session-leikurum, diskókúlúr í reikistjörnustærð á sporbaug um grúvið, sprúðlandi litadýrð af ljósum í dansgólfinu og John Travolta, Grace Jones, Debby Harry og Mick Jagger í orgíu á bólivísku kókaíni í bakherberginu.

Þræðir plötunnar liggja víða, frá mínímalískum trommu og bassa-grúvum Chic í gegn um englafalsettur Gibb-bræðra og gospel-æfingar Donnu Summer, innblásin jafnt af frumraftónlist Giorgios Moroders, meginstraumsslögurum Sister Sledge og nýdiskói Daft Punk og Moloko. Hljómurinn er hnausþykkur en sindrar af smáatriðum og glansar af ofhleðslu. Leiðinlegt fólk á það til að klóra sér í hökunni og segja að minna sé meira, og fyrir utan það að vera tilgerðarlegir uppskafningar hefur það bara ó svo rangt fyrir sér, ekki síst þegar um er að ræða plötu eins og þessa. 

Meira er alltaf meira. Eða ætlar einhver að segja mér að platan væri „meiri“ án hálfu sinfóníuhljómsveitarinnar sem kemur við sögu í stórbrotinni útsetningu „I Love It“, eða að blæbrigðaríku vélmennaröddinni í upphafi Supernova sé ofaukið? Hélt ekki. En þrátt fyrir ríkulega lifandi spilamennsku er eins og á öllum sönnum diskóplötum einn óður til prímusmótors stefnunnar, plötusnúðarins, í laginu Where Does The DJ Go?, þar sem Kylie er umhugað um hvað verði um DJ-inn þegar kvöldið er búið. Svarið er einfalt, hann fer í eftirpartýið þar sem DISCO með Kylie er í græjunum og þá getur hann loksins slakað á.

Besta lag plötunnar er unaðslega smáskífan Say Something sem hljómar eins og einhver sé að troða alsælu í eyrun á þér. Það hefst á úthafi af strengjum sem fjara út á meðan klístraður synþabassi ryður sér til rúms, trommurnar valda líkamlegum viðbrögðum, og krúnudjásnið er ofureinfaldur rafmagnsgítaröngull sem er akkúrat það sem vantar. Rödd Kylie er ofan og undir og allt um kring, sömpluð og notuð sem hluti af taktinum, margfölduð og raddandi sjálfa sig í eilífðarlúppu undir lokin:

'Cause love is love, it never ends

Can we all be as one again?

'Cause love is love, it never ends

Can we all be as one again?

„You make everything feel like Saturday,“ syngur Kylie í laginu Monday Blues og fangar þar þungmiðju plötunnar. Það er alveg sama þó það sé grár og gugginn rigningarsuddaþriðjudagur í COVID, þegar þú setur DISCO með Kylie á fóninn líður þér alltaf eins og gljáfægðu laugardagskvöldi í sínu fínasta pússi.

Tengdar fréttir

Tónlist

Róisín Murphy dansar við altari diskósins

Tónlist

Upphafið að endinum og enn í ljósinu áratugum síðar

Tónlist

Stafræn afskræming á skandinavískum sársauka

Tónlist

Ólympískur sviti og erótík hjá Ultraflex