Landspítalinn kynnti á föstudag skýrslu um hópsýkinguna sem kom upp á Landakotsspítala í október. Þar kom fram að gríðarleg dreifing kórónuveirusmitsins stafaði meðal annars af ófullnægjandi húsnæði og óviðunandi aðbúnaði. Engin loftræsting er á Landakoti og það jók enn á útbreiðsluna.
Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum, sagði í Silfrinu í morgun að húsnæðismál spítalans styðji ekki við þá þróun sem er í heilbrigðismálum.
„Það er ófullnægjandi fyrir okkar veiku skjólstæðinga, og ófullnægjandi fyrir starfsfólk. Það hefur ekki verið byggð ný bygging á Landspítalanum nema Barnaspítalinn frá 1968. Við erum að reka þjónustu sem er í ofboðslega hraðri þróun og húsnæðið okkar bara styður ekki við það,“ segir Sigríður.
Tekur mikið á fólk sem manneskjur
Hún segir hópsýkinguna á Landakoti hafa tekið mikið á starfsfólkið og huga þurfi að því hvernig heilbrigðisstarfsfólk geti unnið úr því álagi sem fylgir faraldrinum.
„Það eru margir búnir að leggja mjög mikið á sig og sýna hetjudáð. Ég hef verið full aðdáunar að fylgjast með starfsfólkinu. En við þurfum að undirbúa okkur undir það að það komi enn ein bylgja. Hvernig getur fólk tekist á við það? Fólk er þreytt og þetta tekur mikið á fólk sem manneskjur,“ sagði Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar.