Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Húsnæði Landspítalans úrelt í þróuðu heilbrigðiskerfi

15.11.2020 - 12:30
Mynd: RÚV / RÚV
Aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans segir að þær aðstæður sem stuðluðu að dreifingu kórónuveirunnar á Landakoti séu svipaðar á öðrum stofnunum landsins. Húsnæði Landspítalans er úrelt miðað við þá þróun sem hefur orðið í heilbrigðismálum, að mati framkvæmdastjóra hjúkrunar.

Landspítalinn kynnti á föstudag skýrslu um hópsýkinguna sem kom upp á Landakotsspítala í október. Þar kom fram að gríðarleg dreifing kórónuveirusmitsins stafaði meðal annars af ófullnægjandi húsnæði og óviðunandi aðbúnaði. Engin loftræsting er á Landakoti og það jók enn á útbreiðsluna.

Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum, sagði í Silfrinu í morgun að húsnæðismál spítalans styðji ekki við þá þróun sem er í heilbrigðismálum.

„Það er ófullnægjandi fyrir okkar veiku skjólstæðinga, og ófullnægjandi fyrir starfsfólk. Það hefur ekki verið byggð ný bygging á Landspítalanum nema Barnaspítalinn frá 1968. Við erum að reka þjónustu sem er í ofboðslega hraðri þróun og húsnæðið okkar bara styður ekki við það,“ segir Sigríður.

Tekur mikið á fólk sem manneskjur

Hún segir hópsýkinguna á Landakoti hafa tekið mikið á starfsfólkið og huga þurfi að því hvernig heilbrigðisstarfsfólk geti unnið úr því álagi sem fylgir faraldrinum. 

„Það eru margir búnir að leggja mjög mikið á sig og sýna hetjudáð. Ég hef verið full aðdáunar að fylgjast með starfsfólkinu. En við þurfum að undirbúa okkur undir það að það komi enn ein bylgja. Hvernig getur fólk tekist á við það? Fólk er þreytt og þetta tekur mikið á fólk sem manneskjur,“ sagði Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans.

Aðstæður sambærilegar um allt land

Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans, var spurð að því í Silfrinu hvort hægt hefði verið að flytja skjólstæðinga Landakots annað til að koma í veg fyrir að þetta gerðist.

„Hvert? Það er ekki hlaupið að því að finna endurhæfingarþjónustu fyrir aldraða hvar sem er. Mér hefur tekist að heimsækja hverja einustu heilbrigðisstofnun í landinu og aðstæður eru með sambærilegum hætti allststaðar. Það má ekki gleyma því. Þess vegna er skýrslan svo mikilvæg. Þó við drögum dýrustu lærdómana þá teljum við að þar séu þættir sem aðrir geti sömuleiðis notað hjá sér,“ sagði Anna Sigrún.

Hún sagði að hópsýkingin á Landakoti hafi verið það sem stjórnendur spítalans óttuðust mest í þessum faraldri en það sé gríðarleg áskorun að halda fullkomnum sýkingavörnum á spítalanum þar sem þörf er á mjög fjölbreyttri þjónustu við sjúklinga.

Mynd: RÚV / RÚV
Silfrið í heild sinni.