Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Hátt í 50 þúsund ósóttar ferðagjafir

Mynd: RÚV / RÚV
Hátt í fimmtíu þúsund Íslendingar hafa enn ekki notað ferðagjöf stjórnvalda sem rennur út eftir einn og hálfan mánuð. Um 600 milljónir hafa þegar verið nýttar og hefur um þriðjungur runnið til fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu.

Allir sem eru með íslenska kennitölu og fæddir árið 2002 og fyrr fengu 5 þúsund króna ferðagjöf frá stjórnvöldum í sumar. Gjöfinni var ætlað hvetja fólk til ferðalaga og meðal annars styðja við bakið á íslenskri ferðaþjónustu.

Gjöfina má til dæmis nota til að greiða fyrir veitingar, gistingu, bílaleigubíla og aðgang að söfnum. Gjöfina er hægt að sækja á vefnum island.is.

Rúmlega 173 þúsund manns hafa sótt gjöfina og þegar er búið að nýta 600 milljónir af þeim rúma milljarði sem var ætlaður í átakið. Tæplega fimmtíu þúsund gjafir hafa enn ekki verið sóttar en gjöfina verður að nýta á þessu ári.

Þegar horft er til þess hvar á landinu fólk hefur verið að nota gjöfina sést að fyrirtæki sem eru eingöngu á höfuðborgarsvæðinu hafa fengið mest eða 193 milljónir. Svo koma fyrirtæki á Suðurlandi með 103 milljónir, 
Norðurlandi eystra með 72 milljónir, Vesturlandi með 44 milljónir, Suðurnesjum með 31 milljón, Austurlandi með 26 milljónir, Norðurlandi vestra 14 milljónir og loks hafa landsmenn keypt þjónustu fyrir 13 milljónir á Vestfjörðum. Fyrirtæki sem eru með starfsemi í öllum landshlutum hafa fengið 103 milljónir.

Á mælaborði ferðaþjónustunnar má einnig sjá lista yfir þau tíu fyrirtæki sem hafa fengið mest. Flyover Iceland, sem er með starfsemi í Reykjavík, er í fyrsta sæti en þar hafa landsmenn notað ferðagjöfina fyrir 29 milljónir. Íslandshótel eru í öðru sæti með 25 milljónir. Svo kemur Bláa lónið, Icelandair Hotels, Olís, Air Iceland Connect og N1. Skyndibitastaðurinn KFC er í áttunda sæti með 11 milljónir, Dominos pizza í því níunda einnig með 11 milljónir. Vök Baths á Austurlandi er í tíunda sæti.