„Framhjáhald getur verið það besta sem kemur fyrir“

Mynd: . / Facebook

„Framhjáhald getur verið það besta sem kemur fyrir“

15.11.2020 - 13:56

Höfundar

„Við eigum brúnt barn, ljóst barn, trans barn, stelpu og strák og ég vona eiginlega bara að þetta barn verði rauðhært,“ segir Kristín Tómasdóttir sambandsráðgjafi sem á von á sínu fjórða barni. Hún segir að margir haldi að hún og systur hennar séu níu en ekki þrjár, því hún, Þóra og Sóley Tómasdætur eru fyrirferðarmiklar í þjóðfélaginu og með sterkar skoðanir.

Kristín Tómasdóttir er fjölskyldumeðferðarfræðingur sem vinnur fyrst og fremst með pörum og hjónum. Hún hefur haldið ótal sjálfstyrkingarnámskeið, sent frá sér sex bækur, á von á sínu fjórða barni og er um þessar mundir að þýða bók. Hún segir að þótt margir finni fyrir aukinni þörf fyrir pararáðgjöf eftir mikla samveru og innilokun í COVID þá hafi ástandið þjappað öðrum saman. „Fólk gerir meira saman eða er meira saman. Þeir sem hafa kvartað yfir að hafa ekki tíma fyrir hvort annað, það hefur ræst meira úr þessu hjá því fólki,“ segir hún í samtali við Andra Frey Viðarsson í Sunnudagssögum á Rás 2.

Sumir halda að systurnar séu níu en ekki þrjár

Foreldrar Þóru, Tómas Jónsson og Guðrún Jónsdóttir, sem er fyrrum talsmaður Stígamóta, kynntust í Kerlingafjöllum þegar hún var sautján ára og hann nítján. Hann vann þar sem skíðakennari en móðir hennar í eldhúsinu.

Guðrún er mikil kvenréttindakona og skörungur eins og dætur hennar allar, Kristín, Sóley Tómasdóttir fyrrum forseti Borgarstjórnar og Þóra Tómasdóttir fjölmiðla- og kvikmyndagerðarkona. „Það halda sumir að við systurnar séum níu, við erum svo fyrirferðarmiklar,“ segir Kristín.

Trúði því ekki að þær gætu orðið bestu vinkonur

Systurnar hafa allar sterkan persónuleika og í gegnum tíðina hafa oft orðið árekstrar. „Einu sinni sagði mamma við mig að Þóra ætti eftir að verða besta vinkona mín þegar við yrðum stórar og ég man svo sterkt þessa tilfinningu bara: Hvernig dettur þér þetta í hug? Ég sá það alls ekki fyrir mér,“ segir Kristín. En móðir hennar hafði sannarlega rétt fyrir sér því í dag eru þær Kristín og Þóra, sem er þremur árum eldri en hún, mjög nánar. Sóley sem er átta árum eldri er líka mikil vinkona yngri systra sinna og þær eru í miklu sambandi.

Þurfti að verja sjálfa sig og systur sínar fyrir gagnrýni

Þær hafa líka verið mikið á milli tannanna á fólki, eldri systur Kristínar, og á sínum yngri árum átti hún oft mjög erfitt með að það væri talað um þær, stundum illa. „Ég tók því ekkert sérstaklega vel og ég þurfti að byggja upp skráp gagnvart því,“ segir Kristín. „En stundum fór það líka í taugarnar á mér þegar fólk var að yfirfæra það sem þær sögðu yfir á mig. Ég hef tekið tímabil þar sem ég hef verið í vörn gagnvart sjálfri mér og sagt: Hún má segja það sem henni finnst en það þýðir ekki að mér finnist það.“

En stundum fannst henni líka ómaklega að þeim vegið og þá varði hún þær. „Þá snertir það einhverja strengi. Ég hef örugglega svarað fyrir alls konar kjaftæði sem ég hef ekki haft neitt vit á,“ segir Kristín. Og þær hafa allar verið kallaðar frekjur, eins og ákveðnar konur eru oft kallaðar, fyrir að taka pláss og segja skoðanir sínar. Kristín hefur verið ósátt við þann stimpil. „Það má kannski færa einhver rök fyrir að við séum frekar en þetta snýst líka um að vera ákveðin og standa á sínu og sínum skoðunum,“ segir hún.

Margir sem þekkja Kristínu hafa reyndar haft orð á því hvað hún er diplómatísk. „Þetta hefur líka haft þau áhrif að þó svo ég hafi sterkar skoðanir þá hef ég líka umburðarlyndi gagnvart fólki sem er með sterkar skoðanir þó þær séu ólíkar mínum.“

„Vona eiginlega að þetta barn verði rauðhært“

Fimm ára dóttir Kristínar hefur erft ákveðnina frá móður sinni og mæðgurnar eru mjög líkar. Kristín segir að það sé auðvelt að líta á ákveðni hennar sem frekju en Kristín er samt ósammála þeirri skilgreiningu. „Mér finnst hún meira bara klár. Hún er fær í að tjá sig og koma sínu á framfæri og ég held það sé það sem áður fyrr var kallað frekja.“

Sem fyrr segir er fjórða barn Kristínar væntanlegt en þriðja barnið sem hún gengur með. Hún átti einn strák áður en hún kynntist manninum sínum, Guðlaugi Aðalsteinssyni. Hann átti fyrir eitt barn sem er að verða níu ára. Saman eiga þau þá sem er fimm ára.

Miðjubarnið er trans stelpa. „Við eigum alls konar. Brúnt barn, ljóst barn, trans barn, stelpu og strák og ég vona eiginlega bara að þetta barn verði rauðhært,“ segir Kristín og hlær. „En trans barnið er náttúrulega bara stelpa og ég man oft ekki að hún hafi fæðst strákur.“

Sakna stundum stráksins á myndinni

Dóttur sinni hafa þau ákveðið að halda fyrir utan fjölmiðla en þau eru mjög opin með að eiga barn sem er trans. Stundum hafa þau Gulli samt talað um það þegar þau skoða gamlar myndir af dótturinni að þau sakni stráksins á myndinni. „Þá erum við alveg bara já, alveg rétt, svona var hann,“ segir Kristín. „Við erum mjög ánægð með stelpuna í dag en þetta er öðruvísi. Maður saknar held ég oft bara litla barnsins.“

„Við erum heppin með hana“

Kristín segir samfélagið hafa breyst mikið og opnast á síðustu árum og fjölskyldan verður ekki vör við miklar fordóma. Þau heyra mun frekar sagt að þau séu að gera hlutina vel og að dóttir þeirra sé heppin með foreldra. „En við erum bara heppin með hana og hún hefur kennt okkur alls konar,“ segir Kristín. „Og af því að ég er stjúpmamma hennar hef ég gert það mitt missjon að gera þetta vel og standa vel að þessu með fræðslu. Að hún fái allt sem hún þarf.“

Hún segir þau líka vera heppin með skólann sem sú litla gengur í. „Kennarinn hennar í Hlíðaskóla er að skrifa mastersverkefni um móttöku trans barna í skólakerfinu og Hlíðaskóli hefur verið fyrirmyndarskóli í hinsegin málefnum. Hún er bara glöð og flott stelpa. Þetta er ekki eitthvað sem við glímum við dags daglega.“

Vissi ekki að sambönd gætu verið svona góð

Kristín hefur skrifað fimm sjálfsstyrkingabækur fyrir stelpur og eina fyrir stráka. Núna er hún að vinna að einni bók fyrir hjón. „Mér finnst ég oft rosalega góð í að hjálpa öðrum með það sem ég er ekki fær um að sjá um sjálf heima hjá mér en ég á alveg geggjaðan mann sem er rosalega góður í þessu,“ segir Kristín. „Ég ætla svolítið að eigna honum það sem gengur vel heima hjá okkur. Hann er rosalega þolinmóður við þau og honum finnst rosalega gaman að vera pabbi og vera heima með krakkana,“ segir hún. „Mér finnst það stundum erfitt og stundum leiðinlegt, ég viðurkenni það. Kannski er það það sem gerir mig góða í vinnunni, að ég veit hvað þetta getur verið erfitt og ég dett í sömu gryfjur og aðrir.“

Vinir hjónanna hafa haft orð á því að það hafi nánast verið mælanlegur jarðskjálfti þegar þau byrjuðu að vera saman, svo mikil var hamingjan. „Hann er jafn ánægður með mig og ég með hann, ég furða mig á því á hverjum degi,“ segir hún glettin. „Þetta er alveg ótrúlegt. Ég vissi ekki að svona gæti þetta verið.“

Hjálpar fólki að finna taktinn aftur eða skilja vel

Í starfi sínu hjálpar Kristín ólíkum pörum að glíma við ólíkan vanda í sambandi sínu. Sumir vilja gera gott betra, sumir eru óvissir með í hvorn fótinn þau eiga að stíga í sambandinu og aðrir vilja fá skilnaðarstuðning og aðstoð við að skilja vel. Hún segir að reyndar komi á óvart hve fáir vilji skilja eftir að leita til hennar. „Sambönd eru það sem fólki er mjög kært og þegar fólk kemur til mín er því mjög mikið niðri fyrir, vill virkilega laga eða breyta,“ segir Kristín. „Þetta snertir alveg viðkvæmustu tilfinningarnar í fólki og það er til í að leggja mikið á sig til að skilja ekki.“

Stundum hefur gengið á ýmsu þegar fólk er sest í sófann hjá Kristínu. „Ég hef unnið með fólki sem hefur beitt maka sinn ofbeldi og það er oft þannig að þegar pör eru í átökum eru þau í mikilli taugaspennu heima hjá sér og það á auðvelt með að framkalla þessa taugaspennu hjá hvort öðru,“ segir hún.

Þegar pörin hins vegar eru komin inn til hennar eru þau sjaldnar taugaspennt enda búin að fá tíma til að velta fyrir sér hvernig þau vilja nálgast málið. „Það er mikið hlegið og gaman í vinnunni og ég hugsa rosalega oft bara, djöfull er þetta skemmtilegt því fólk er ógeðslega skemmtilegt. Fólk gerir mikið grín að sér og margt í parasamböndum er ógeðslega fyndið.“

Framhjáhald getur verið upphafið að einhverju nýju

Í einhverjum tilfellum hefur annar makinn haldið fram hjá. Kristín segir að þótt flestir hugsi að það yrðu endalok sambandsins ef það gerðist þá reyni flestir á sambandið eftir slíkan atburð. „Ég hef séð dæmi þess að framhjáhald sé það besta sem hefur komið fyrir par því það er upphafið að einhverju nýju. Upphafið að einhverju sem kemur upp á yfirborðið og þarf að breyta,“ segir hún.

Yfirleitt er það þannig að sá sem hélt fram hjá vill gera betur og sér eftir að hafa gert það sem hann eða hún gerði. „Þá er oft hægt að laga ýmislegt og breyta,“ segir Kristín en bendir líka á að í dag séum við farin að hugsa hlutina aðeins öðruvísi en áður. „Hugmyndir okkar um parasamband er orðin miklu meira fljótandi og við mættum vera miklu opnari,“ segir hún. „Það er rosalega mismunandi hvað hentar fólki. Margir eru í fjölkærum samböndum, það eru pör sem hafa upplifað framhjáhöld og það hefur styrkt sambandið þeirra en svo er líka fólk sem fattar eftir framhjáhald að þau eiga ekki að vera saman og það er því kannski bara það besta sem hefur komið fyrir.“

Andri Freyr Viðarsson ræddi við Kristínu Tómasdóttur í Sunnudagssögum á Rás 2.