Fislétt grín um alvarleg málefni

Mynd: Glass River / Eurogarðurinn

Fislétt grín um alvarleg málefni

15.11.2020 - 17:56

Höfundar

Eurogarðurinn snýst um að kæta áhorfendur með karakterum sem bæði segja og gera hluti sem hvorki má segja né gera, að mati sjónvarpsrýnis Lestarinnar.

Katrín Guðmundsóttir skrifar:

„Hvaða fertugi karlmaður byrjar eiginlega að vinna í Húsdýragarðinum?“ Þetta er svolítið áhugaverð spurning sem handritshöfundar Eurogarðsins velta sér upp úr í nýjum íslenskum gamanþáttum, sem sýndir eru á Stöð 2 um þessar mundir. Eins og það sé bara alls ekkert eðlilegt við að fólk á fullorðinsaldri sækist eftir því að vinna í garðinum. Er það óeðlilegt? Mislukkaður starfsmannahópurinn í hinum nýeinkavædda skemmtigarði í Laugardal gefur vissulega til kynna að svo sé. Þar hefur nefnilega safnast saman lygilegt úrval furðufugla og illa leikinna manngarma sem kæta áhorfendur með sársauka sínum, dómgreindarleysi og arfaslakri félagsfærni. Hver sem er getur þó orðið fyrir þeirri ógæfu að missa vinnuna og þurfa að grípa til örþrifaráða. Það einmitt tilfellið hjá aðalpersónunni Danna (Auðunn Blöndal), venjulegasta gaur í heimi, sem hefur störf í garðinum af illri nauðsyn til að framfleyta sjálfum sér og eiginkonu sinni.

Eurogarðurinn er fislétt og eiginlega frekar yfirborðskennd þáttaröð sem gerir grín að mjög alvarlegum málefnum, sem er stranglega bannað að hlæja að. Hérna nota ég orðið „yfirborðskenndur“ ekkert endilega í neikvæðri merkingu, þar sem stílbragðið er þvert á móti nauðsynlegt ef grínið á yfir höfuð að ganga upp. Þunglyndi, fóstureyðingar, hjónaskilnaðir, trans fólk og misnotkun fólks og dýra eru nefnilega alls ekkert fyndin en ef unnið er með viðfangsefnin á nægilega grunnhygginn hátt getur oft verið óþægilega hressandi að hlæja að afurðinni. Við þekkjum það til dæmis af vinsælum erlendum þáttum á borð við It‘s Always Sunny in Philadelphia, The Office og Klovn en einnig af fjölmörgum íslenskum þáttaröðum sem gerðar hafa verið fyrir Stöð 2 í gegnum tíðina – oftar en ekki af sama fólkinu og stendur á bak við Eurogarðinn.

Raunsæisbragur

Svona sjónvarpsefni, sem á ensku kallast „sitcom“ eða situation comedy og útleggja mætti sem uppákomugrín á slæmri íslensku, snýst alfarið um góða og grípandi persónusköpun. Aðstæðurnar í þáttunum eru því alla jafna venjulegar á meðan karakterarnir eru óvenjulegir og oft á tíðum stórlega ýktir til þess að uppákomurnar sem þeir lenda í séu fyndnar. Í Eurogarðinum eru aðstæður til að mynda vel kunnugar íslenskum áhorfendum þar sem þættirnir eru teknir upp að sumarlagi í sjálfum Húsdýragarðinum, innan um óteljandi statista sem gera sig gestkomandi í honum. Að sama skapi lætur óstöðugur og sísúmmandi tökustíll manni líða eins maður sé annaðhvort að fylgjast með illa fjármagnaðri heimildarmynd eða tilviljanakenndri upptöku, sem gefur þáttunum ákveðinn raunsæisbrag og dregur um leið fram hversu afkáralegar persónurnar, starfsfólk garðsins, eru í raun og veru.

Til þess að persónusköpunin geti talist góð, eða að minnsta kosti grípandi, þurfa karakterarnir að hafa skýra og vel afmarkaða komplexa eða eins konar geðflækjur sem hægt er að hlaða á bröndurum. Það er vissulega tilfellið hjá starfsfólki Eurogarðsins og eru geðflækjurnar jafnframt kynntar glöggt og greinilega strax í upphafi þáttaraðarinnar. Fríða (Anna Svava) þráir til dæmis ekkert heitar en að eignast barn og er tilbúin að gera hvað sem er til að komast í móðurhlutverkið. Um leið hefur hún svo miklar áhyggjur af áliti annarra á henni og þeirri staðreynd að hún hafi ekki enn stofnað fjölskyldu að hún lifir í lygi um að hún sé lauslátur djammari. Þá er Ómar (Dóri DNA) svo rosalega þunglyndur að hann reynir sífellt að stytta sér aldur og Andri (Steindi Jr.) það vitlaus að hann heldur að hann sé í sambandi með meðleigjanda sínum. Ef tekið er mið af fjölda brandara og líkamlegum viðbrögðum við þeim, svo sem hlátrasköllum, klígjum og kjánahrollum, er Fríða sennilega best heppnaða persónan af þessum þremur. Ekki að þetta sé einhver keppni. Maður fær bara á tilfinninguna að það hafi verið nostrað alveg sérstaklega við hana og mögulega hafi þar legið að baki einhver dýpri skilningur eða jafnvel innsýn í manngerðina sem ekki var til staðar hjá hinum.

Jón Gnarr er alltaf Jón Gnarr

Auk leikstjórans, Arnórs Pálma, eru leikarar þeirra persóna sem hér hafa verið nefndar á nafn líka handritshöfundar Eurogarðsins. Það má því segja að Jón Gnarr í hlutverki Badda, hins nýja og framtakssama eiganda, stígi inn í þetta teymi sem eins konar kvikmyndastjarna. Það er til dæmis ekkert ólíklegt að hlutverkið hafi verið búið til einungis með hann í huga og að persónan hafi verið þróuð með tilliti til séreinkenna Jóns sem leikara og grínista. Það er að segja skýrt sjónarhorn, afdráttarleysi og ákveðin staðhæfingargleði eins og við þekkjum kannski hvað best af Georg Bjarnfreðarsyni en einnig af hafsjó þeirra persóna sem komið hafa fyrir í útvarpsþættinum Tvíhöfða í gegnum tíðina. Þau eiga það meira að segja til að birtast í opinberri persónu Jóns eins og eftirminnileg kosningabarátta Besta flokksins er til marks um. Þessi séreinkenni mætti auðveldlega skilgreina sem stjörnueiginleika. Það er að segja, það skiptir engu máli hvort hárið á Jóni Gnarr sé litað, á hann smurt brúnkukremi og hlaðið skartgripum. Hann er samt alltaf bara Jón Gnarr og handritshöfundar jafnt sem áhorfendur eru meðvitaðir um það þegar hann leggur nafn sitt við verkefni af þessu tagi.

Þessir stjörnueiginleikar Jóns aðgreina hann ekki aðeins frá öðrum leikurum í Eurogarðinum heldur eru þeir einnig til þess fallnir að skilja Badda frá starfsfólkinu á gólfinu, því þótt hann sé alveg jafn fáránlegur og þau er hann engu að síður eigandinn og þar af leiðandi yfirmaður þeirra allra. Svipaða sögu er að segja af Danna, sem sker sig einnig úr hópnum en öfugt við Badda er það vegna þess að hann er eini starfsmaðurinn á svæðinu sem er eðlilegur. Um leið er hann líka eina persónan í þáttunum sem fylgist frekar með uppákomunum á atburðarásinni í stað þess að taka þátt í þeim. Sem frekar fálát og kannski litlaus aðalpersóna er Danni því eins konar fulltrúi áhorfenda sem uppgötva í gegnum sjónarhorn hans hversu vitlaust og skrítið starfsfólkið í Eurogarðinum er.

Tappa af uppsafnaðri gremju

Og það er í rauninni nákvæmlega það sem svona sjónvarpsefni snýst um; að kæta áhorfendur með karakterum sem bæði segja og gera hluti sem hvorki má segja né gera. Á einhvern undarlegan hátt getur svona grín nefnilega auðveldað manni að takast á við allan ákafann og átakasæknina sem fylgir því að lifa í nútímasamfélagi. Það er eins og staðlaðar persónugerðirnar hjálpi okkur að tappa af uppsafnaðri gremju í garð fólksins sem þær eru byggðar á. Að því sögðu er Eurogarðurinn ekkert svo frábrugðinn til dæmis Vaktaseríunum eða öllum þeim fjölmörgu Steindaþáttaröðunum sem gerðar hafa verið síðasta áratuginn. Sögusviðið er vissulega nýtt og persónurnar uppfærðar en grínið er ávallt það sama. Maður upplifir það kannski sterkast í síðari hluta þáttaraðarinnar þegar starfsfólkið yfirgefur garðinn til að heimsækja Slakka eða þegar Danni og Fríða fara á stefnumót í Vinabæ. Þá skín í gegn hversu mikið erindi persónurnar eiga við samfélagið sem þær eru sprottnar úr og hvernig hægt er að leika sér með þær í öðrum aðstæðum. Kannski í annarri þáttaröð?

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Skemmtilegt en stundum fyrirsjáanlegt skákdrama

Kvikmyndir

Borat staðfestir að tvær þjóðir búi í Bandaríkjunum

Sjónvarp

Hvaða fertugi karl byrjar að vinna í Húsdýragarðinum?

Sjónvarp

Alltaf einhver alveg að fara að springa úr hlátri