Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ertu til í að skrúfa upp í fónógrafinum?

Mynd: Francis Barraud / cc

Ertu til í að skrúfa upp í fónógrafinum?

15.11.2020 - 09:14

Höfundar

Í tilefni dags íslenskrar tungu, sem er á morgun, rifjum við upp þátt Orðs af orði frá því fyrr á árinu. Fjallað var um smíði nýrra orða yfir ýmsa tækni til að spila tónlist, allt frá hljóðrita og málvél til kassettu, hljóðstokks og gettóblasters. Þá kemur einnig við sögu tónlistarveitan Spotify, tilurð þeirrar nafngiftar og ýmislegt fleira. Guðrún Línberg Guðjónsdóttir og Kristján Friðbjörn Sigurðarson höfðu umsjón með þættinum.

Áður en snjallsímar tóku við var um tíma vinsælt að nota svokallaða mp3-spilara, lítil stafræn ferðatæki sem geymdu meira af tónlist og voru smærri en áður þekktist, minni en farsímar þess tíma. Sennilega var gullöld þessara spilara fyrsti áratugur 21. aldar. 

Um þetta fyrirbæri, og þá aðallega iPodinn, sem var vinsælastur mp3-spilara, voru mynduð ýmis ný íslensk orð, eða gömlum gefin ný merking, til að vísa til þessa fyrirbæris. Mp3 er nafnið á sniði, á ensku format, þeirra stafrænu skráa sem spilararnir geymdu og innihéldu tónlistina. Í Íðorðabankanum er skemmtilegur listi með mörgum þessara íslensku orða fyrir spilarann en þau hafa líklega flest fallið í gleymskunnar dá.

Vá, hvað það er merkilegt að þetta litla tæki geti geymt svona mikla tónlist

Þarna eru til dæmis ípoti og poddi sem eru nokkurs konar tökuaðlaganir eða hljóðlíkingar við enska nafnið iPod, og orð eins og hlaða og tónhlaða sem mynduð eru út frá orðum eins og rafhlaða fyrir battery. Spilarinn inniheldur þá út frá orðinu ekki rafhleðslu heldur tónhleðslu, eða er hlaðinn tónlist. 

Í Íðorðabankanum má líka finna orð um þetta fyrirbæri sem lýsa smæð þess, eins og dvergspilari, smáspilari og lófaspilari. Sum orðin vísa til geymslueiginleika tækisins, eins og belgur, tónbelgur og sarpur. Ef til vill má heimfæra það upp á orðin hljóðpottur og hljóðstokkur líka. Þá var einnig stungið upp á að gefa gamla orðinu spilastokkur nýju merkinguna mp3-spilari.  

Jóhann Hauksson skrifaði fréttaskýringuna Fréttamiðlar framtíðarinnar í Fréttablaðið í maí 2005. Þar fjallar hann meðal annars um mp3-spilara og notar tvö orð sem ekki verður séð að hafi verið notuð annars staðar, tónbelgjavarp og kísilflöguspilari.

„Litla kísilflöguspilara (iPod), sem tölvurisinn Apple hefur sett á markað, mætti kalla tónbelgi. Unnt er að fylla tónbelginn af tónlist og tappa af honum inn á tölvur eða netið þannig að aðrir geta nálgast tónlistarefnið. Með þessu móti er hægt að stunda tónbelgjavarp á netinu,“ skrifar Jóhann.

Í þriðja tölublaði Verktækni, tímarits Verkfræðingafélags Íslands frá 2007, er meðal annars rætt um orð yfir þetta fyrirbæri. Þar koma fyrir nokkur af fyrrgreindum orðum og til dæmis nefnt að ípoti hafi hlotið góðar undirtektir þeirra sem sátu þá í Orðanefnd rafmagnsverkfræðingadeildar Verkfræðingafélagsins. Auk áðurnefndra orða koma þar fyrir tillögurnar glymskratti, þar sem gömlu orði yfir annars konar spilara sem var algengur á öldurhúsum í Bandaríkjunum væri gefin ný merking, og orðin tónkútur, tölvukútur og tónsarpur, sem vísa öll til geymslueiginleika tækisins. Mörg þessara orða yfir mp3-spilara eiga það sameiginlegt að í þeim felst þetta skemmtilega viðhorf: vá, hvað það er merkilegt að þetta litla tæki geti geymt svona mikla tónlist. 

Á Facebook-síðunni Orð dagsins 28. júní 2010 er svo nefnt nýyrðið lagaserkur, og í athugasemdum er stungið upp á að gefa orðunum hlaðvarpi og hljóðkútur merkinguna mp3-spilari. 

Orðin rokkstokkur og lófaspilari vísa til ólíkra eiginleika sama hlutar

Hvers vegna verða til svona mörg orð til yfir eitt og sama fyrirbærið? Við erum vön því að margir hlutir eigi sér einungis, eða aðallega, eitt fast nafn sem er algengast í daglegu máli, þótt samheiti sumra orða séu auðvitað algeng og jafnvel mörg. 

Í greininni Er íslensk málstefna að verða úrelt? frá 2008 nefna þær Katrín Axelsdóttir og María Garðarsdóttir, auk sumra af áðurnefndum orðum, orðin lagasvampur, tónrantur, lagkaka og rokkstokkur, og nú er listinn yfir orð um mp3-spilara orðinn æði langur. En þær ræða einnig hvers vegna orð af þessu tagi verða til. Oft er talað um að nýyrðasmíði sé hluti af hreintungustefnu, sem hún er vissulega oft. 

Katrín og María vísa hins vegar meðal annars í blaðagrein Guðmundar Andra Thorssonar í Fréttablaðinu frá 2005. Guðmundur Andri segir ekki auðvelt að útskýra hvers vegna skemmtilegt sé að eiga orð eins og sími og hvers vegna honum þyki rafmagn fallegra orð en elektrísítet. Láta verði nægja að nefna að orðin hafi orðið til við umhugsun og þar með löngun til að brjóta fyrirbærið til mergjar og það sé nokkurs virði. Með nýyrðasmíð sé eitthvað ankannalegt og fjarlægt tekið í sundur og krufið og nefnt og í nafninu felist mátturinn. 

Það má sannarlega segja að í nýyrðasmíð af þessu tagi sé fyrirbæri tekið og skoðað gaumgæfilega frá öllum hliðum. Ólík sjónarhorn gefa af sér ólík orð, eins og til dæmis rokkstokkur eða lófaspilari, sem vísa til ólíkra eiginleika sama hlutar. Katrín og María segja auðvelt að vera sammála Guðmundi Andra og í raun sé merkilegt að nýyrðasmíði hafi ekki verið markaðssett, meira á þessum nótum. Sumir standi í þeirri trú að nýyrði séu einungis smíðuð í einhvers konar hreinsunarstarfi sem sé tímafrekt og óþarft.

Eins og Katrín og María nefna þarf nýyrðasmíði ekki að snúast bara um einhvers konar hreinsun og hreinleika, að málið sé tært og ómengað, ef svo má segja. Það er hægt að skapa ný orð til að skilja fyrirbærin betur og hreinlega bara til gamans. Ef til vill var það tilgangur sumra þessara tillagna að orði um mp3-spilara, að henda gaman að fyrirbærinu, eða hreinlega tungumálinu, gera eitthvað skemmtilegt með tungumálinu.

En markmið starfs orðanefnda, líkt og nefndar rafmagnsverkfræðideildar Verkfræðingafélagsins, er líklega fyrst og fremst að skilja fyrirbærin betur eða gera það auðveldara að tala um þau. Það kann auðvitað að vera að einhverjir verkfræðingar séu hreintungusinnar en í íðorðastarfi skiptir máli að hugtök séu skýr og auðveld í notkun og kostur að þau tengist orðum yfir tengd fyrirbæri og gott að auðvelt sé að skilja þau. Þá getur nýyrðasmíð skilað góðum og jafnvel betri orðum en þeim erlendu, fyrir það samhengi sem þau eru notuð í. Það spillir auðvitað ekki fyrir ef orðin eru skemmtileg, en það er ekki nauðsynleg forsenda.

Orð Guðmundar Andra um að kryfja fyrirbærin til mergjar eiga hér vel við. Í nýyrðasmíð er oft lagst yfir fyrirbærið og orð um það og fólk veltir því fyrir sér: hvað gerir fyrirbærið, hvað er gert við það og hvað þýðir orðið sem við notum um það raunverulega? Hvað segir heitið okkur um fyrirbærið? Hvað segir það okkur um skyld fyrirbæri, ef nýyrðið er myndað af sama stofni og skyld hugtök?

Eitt sinn í lúðrasveitabúðum

Núorðið er líklega vinsælla meðal þeirra sem hlusta á tónlist á ferðum sínum að streyma henni, eins og sagt er, af svokölluðum streymis- eða efnisveitum eins og Spotify, YouTube, Bandcamp og fleirum. Að streyma einhverju er í raun myndlíking um það þegar tónlistin eða annað efni flæðir fram jafnharðan. Þetta er bein þýðing úr ensku á sögninni stream, sem er samstofna íslenska orðinu.

Gaman er að geta þess að nafnið á tónlistarveitunni Spotify er raunar misheyrn. Svíarnir Daniel Ek og Martin Lorentzon sem stofnuðu fyrirtækið voru að kasta á milli sín tillögum að nöfnum og Lorentzon kallaði eitthvað sem Ek heyrðist vera orðið Spotify. Hann fór og leitaði að orðinu á Google, og fékk engar niðurstöður. Þeir félagar fóru og nældu sér í lénið Spotify.com í snatri og ekki var aftur snúið. 

Eftiráskýringin, segir Ek sem viðurkennir að nafnið hafi verið misheyrn, var að nafnið væri myndað af ensku orðunum spot og identify. Spot hefur ýmsar merkingar, til dæmis blettur eða staður, og er notað í samsetta orðinu spotlight, sem þýðir sviðsljós eða kastljós fjölmiðla. Sögnin identify þýðir að koma auga á eða bera kennsl á, eða auðkenna. Þegar orðið spot er sagnorð hefur það raunar sömu merkingu að sumu leyti, að koma auga á eitthvað. 

Nafn myndbandasíðunnar Youtube þýðir bókstaflega þúpípa, og skýrist að vissu leyti af fyrrum slagorði vefsins, Broadcast Yourself, sem þýða mætti sem: Sjónvarpið sjálfum ykkur, en tube-hlutinn í nafni Youtube vísar til sjónvarps og einhverjir kannast eflaust við orðið túbusjónvarp, um þau tæki sem voru vinsæl áður en flatskjárinn kom til sögunnar. Túba vísar til stærðar og lögunar tækisins.

Þá vísar nafn streymisvefsins Bandcamp til herbúða hljómsveita, í yfirfærðri merkingu. Þar eiga hljómsveitir nokkurs konar aðsetur og geta leyft aðdáendum að heyra tónlistina og jafnvel kaupa hana stafrænt, eða panta eintök af plötunum sem hægt er að handfjatla. Nafnið Bandcamp vísar reyndar einnig til sumarbúða lúðrasveita en einhverjir kannast kannski við nokkrar sögur sem Michelle Flaherty, leikin af Alyson Hannigan, segir í kvikmyndinni American Pie frá 1999, sem hefjast á orðunum: This One Time at Band Camp, eða: Eitt sinn í lúðrasveitarbúðum...

Vasadiskóið vinsælt á skíðum, hjólum og hjólaskautum

En tónhlaðan eða spilastokkurinn var auðvitað ekki fyrsti fyrirrennari streymiforrita snjallsíma. Á undan tónbelgnum var ferðageislaspilarinn vinsæll. Hann nefnist á ensku meðal annars discman og walkman. Discman vísar til þess að spilarinn hafi spilað geisladiska en walkman til ferðaeiginleika hans. Bæði þessi nöfn eru reyndar vörumerki Sony og walkman var upprunalega notað um vasadiskó.

Geisladiskur er þunn, kringlótt skífa, 12 cm í þvermál, sem geymir stafræn gögn. Geisladiskur, sem er líka nafn á sælindýri af diskaætt, er reyndar ekki eina íslenska orðið um fyrirbærið, sem nefnist CD á ýmsum vestrænum málum, en það er ensk skammstöfun á compact disc. Compact vísar til samþjöppunar þeirra gagna sem geymd eru á disknum. Í Morgunblaðinu 14. desember 1986 er fjallað um geisladiska í stuttri frétt sem nefnist Leysidiskasala eykst enn. Hún hefst á þessum orðum: 

„SALA á svokölluðum leysidiskum (Compact Discs) hefur farið fram úr öllum spám eina ferðina enn. Telja menn lítil takmörk á þenslu þessa geira tónlistariðnaðarins. Sífellt fleiri hljómsveitir hafa nú gefið allt efni sitt frá upphafi út á leysidiskum og má nefna nöfn eins og Rolling Stones, Queen, Duran Duran , Police, Dire Straits og Bruce Springsteen. Er talið að þessi útgáfa muni ýta undir sölu á geislaspilurum, sem aftur eykur eftirspurn.“

Bæði nöfnin, geisladiskur og leysidiskur, vísa til þess að þegar diskurinn er spilaður er leysigeisli notaður án þess að þessi málmhúðaða plastplata sé snert. 

Á undan ferðageislaspilaranum var vasadiskóið vinsælt, en það nefnist sem fyrr segir meðal annars walkman á ensku. Líkt og ferðageislaspilarinn hafði pláss fyrir einn geisladisk tók vasadiskóið eina hljóðsnældu og hlustað var á tónlistina með heyrnartólum. Hér hefur gömlu orði verið gefin ný merking en áður en orðið snælda vísaði til kassettu merkti það handverkfæri með haus og skafti eða teini til að spinna eða tvinna á, eða þráðarkefli í stignum rokki eða spunavélum.

Orðið kassetta kemur líklega í íslensku í gegnum dönsku en er franskt og þýðir bókstaflega lítill kassi, myndað af orðinu casse, með smækkandi viðskeyti. Eins og glöggir hafa eflaust giskað á er það skylt íslenska orðinu kassi, sem berst líka til Íslands með dönsku, en er komið af nákvæmlega sama franska orði. 

Kassetta kemur fyrst fyrir á prenti á Íslandi í Morgunblaðinu í janúar 1920. Loftur nokkur Guðmundsson auglýsti þar til sölu nýja reflex ljósmyndavél og sagði að henni fylgdu 12 kassettur. Orðið vasadiskó kemur hins vegar ekki fyrir á prenti fyrr en mun seinna, í Vestfirska fréttablaðinu, 7. maí 1981. Þar er auglýsing um tækið: 

„Vasadiskóið fer nú eins og eldur í sinu um Evrópu og Ameríku og nýtur gífurlegra vinsælda t.d. á skíðum, hjólum og hjólaskautum.“

Tónlist blastað í fátækrahverfum í Bandaríkjunum

Þá var auðvitað hægt að vera með ferðaútvarp og láta alla viðstadda heyra tónlistina.  Á ensku, og í sumum tilfellum íslensku, eru notuð um stærri ferðaútvörp orð eins og ghettoblaster, boombox eða jambox. Orðin boombox og jambox vísa einfaldlega til þess að tækin séu tónlistar- eða hljóðkassar. Box þýðir kassi og jam er orð sem notað er um tónlist og að spila tónlist. Boom er hljóðlíking um hljóð, notuð um sprengingar en einnig til dæmis bassatóna í tónlist. 

Orðið ghettoblaster á sér ögn flóknari sögu og er þekkt í ensku frá 1982. Orðið gettó, fyrri hlutinn, er þekkt í ensku frá öðrum áratug 17. aldar, um hverfi þar sem gyðingar voru látnir búa, sérstaklega á Ítalíu, og er orðið komið þaðan í ensku. Hvaðan það sprettur nákvæmlega er þó óvíst. Það kann að tengjast jiddíska orðinu get sem vísar til aðskilnaðar, eða feneyska orðinu getto sem þýðir málmsmiðja, þar sem ein slík var nálægt gettóinu í Feneyjum árið 1516. Mögulegt er að orðið sé komið úr ítalska orðinu egitto sem þýðir Egyptaland, eða dregið af orðinu borghetto, sem þýðir lítill hluti bæjar. Þetta er þó óvíst. 

Ekki síðar en 1899 er orðið gettó farið að vísa til þröngra fátækrahverfa annarra minnihlutahópa, sérstaklega svartra í Bandaríkjunum, og þaðan kemur ghetto-hlutinn í ghettoblaster. Blaster-hlutinn þýðir eitthvað sem hægt er að spila tónlist hátt með, og þekkt er í íslensku slangri að tala um að blasta eitthvað eða blasta einhverju, í merkingunni að spila það hátt. 

Einhverjir lesendur kannast eflaust við atriði úr Hollywood-bíómyndum þar sem tæki af þessu tagi koma við sögu, til dæmis í myndinni Say anything frá 1989, þar sem persóna leikin af John Cusack heldur á lofti ghettoblaster og spilar lag fyrir utan gluggann hjá stelpunni sem hann er skotinn í, sem leikin er af Ione Skye. 

Áður en ferðatækin, sem nefnd voru meðal annars boombox, komu til sögunnar var hægt að ferðast um með einhverja af vínylplötuspilurunum sem nú eru komnir aftur og voru vinsælir áður en geisladiskurinn tók yfir um stund, þótt óvíst sé að vínylspilurum hafi verið haldið á öxlum líkt og gettóblasterunum eða þeir látnir leika lag undir gluggum ungra kvenna í bíómyndum. 

Vínyl er orð yfir plastefni byggt á sérstakri tengingu kolefnisatóma, og nafnið færðist svo frá efninu yfir á hljómplötur gerðar úr því, og síðar varð til karlkynsorðmyndin vínyll um plöturnar í íslensku. En dembum okkur þá enn lengra aftur í tímann og förum aftur á 19. öld. 

Hin byltingarkennda málvél

Kannast lesendur við orðið fónógraf? Það fyrirbæri, einnig nefnt á íslensku málvélakefli eða hljóðriti, er elsta tæki til upptöku og afspilunar á hljóði. Thomas Alva Edison fann það upp árið 1877. Tækið virkaði líkt og plötuspilari en vaxhúðaður málmhólkur var notaður í stað plötu. Hólkurinn var mótaður með nál sem látin var tifa eftir hljóðbylgjum sem bárust um trekt.

Orðið phonograph er þekkt í ensku um þetta tæki frá því Edison finnur það upp. Það er myndað úr phono, sem vísar til hljóðs, og graph sem þýðir hér upptökutæki, eða eitthvað sem ritað er niður. Orðið málvélakefli hefur ekki lifað af en orðið hljóðriti er enn notað, til dæmis í flugmáli, um sjálfvirkt upptökutæki sem varðveitir öll fjarskiptasamtöl áhafnar við jörð eða önnur loftför, svo og samtöl innan loftfarsins. Hljóðriti er, ásamt ferðrita, oft nefndur svarti kassinn.

Rætt er um fonograf og fleira í grein í Framfara, 8. ágúst 1878, sem fjallar um Edison. Hún hefst á þessum orðum: 

„Lesendum Framfara er þegar orðið kunnugt um hina merkilegu uppgötvun, málvélina (Hljómritann, fonograf). Það er ætlun sumra, að með málvélinni ásamt fleiri uppgötvunum, sem hugvitsmaður þessi starfar að, muni byrja nýtt tímabil í sögu íþróttalegra uppgötvana.“ 

Einnig er minnst á hljóðritann, eða málvélina, í Þjóðólfi í apríl 1886. Þar er fjallað um svokallaða töfrahöll Edisons:

„Á nýársnóttina í vetur var haldin mikil veizla i hýbýlum Edisons. [...] Það var sem allt væri gjört með göldrum; hnífar og gafflar spúðu eldgneistum, þegar þeir snertu diskana, en þó brá gestunum mest við, þegar líkneski, sem stóð á borðinu tók allt í einu að renna til augunum og mæla fyrir skálum (það var nefnilega útbúið með „fonograf“).“ 

Mikið var fjallað um uppfinningamanninn Thomas Edison í íslenskum tímaritum sem varðveitt eru á Tímarit.is. Í Þjóðólfi árið 1879 er þessi samantekt auk skýringa á afrekum hans fram að því: 

„Sá, sem nú er frægastur allra yngri hugvitsmanna er Edison, maður miðaldra í Bandaríkjunum. Á fáum árum hefur hann uppgötvað ótal undra-vélar. Meðal þeirra eru merkastar: telefóninn, fónografinn og míkrofóninn. 

Telefóninn er málþráður, sem ekki einungis flytur milli tveggja staða hristinginn, svo vélin, sem tekur, við rispi orðin, heldur hljóðið sjálft. Á þennan hátt geta menn nú heyrt hver annars málróm, þó sinn sé í hvoru héraði.

Fónografinn er ekki rafvél, heldur eins kona hljóðvél, sem talað er í, og sem tekur við orðunum og gefur þau aftur eins og skýrt bergmál, en þó ólík klettunum að því, að hún getur geymt bergmálið, ef «dregið er fyrir», þó menn vildu í þúsund ár. Ef þá er dregið frá, hleyptur sama hljóðið eftir sama tónstiga út úr vélinni aftur talandi sömu orð og í sama rómi sem áður var talað inn. 

List þessi er byggð á næmri hljómhimnu í vélinni, sem má hreifa og stöðva eftir vild þess er á hana. 

Míkrófóninn eykur hljóðið (heyrnina) á sinn hátt eins og stækkunarglerið stækkar mynd hlutanna fyrir auganu. Gangur melflugunnar eftir gleri heyrist gegnum þá vél eins skýrt og gangur hests á grjóti. [...] Með næstu skipum berast sjálfsagt meiri tíðindi um þetta.“

Ameríkanar byrjaðir að stela söng með þessari vél

Í Skírni árið 1889 er einnig fjallað um hljóðritann. Þar er því meðal annars spáð að fólk eigi fljótlega eftir að fara að senda raddskilaboð frekar en rituð:

„Hinn nafnkunni Edison hefur árið 1888 fundið tvær vélar Fonograf (hljóðrita) og Lingua-graf (tungurita). Hljóðritinn tekur við hverju hljóði sem er, mannsrödd, barnsgráti, söng o.s.frv. Hann getur tekið við heilum söngleik og heilli ræðu. Svo er honum lokað og geymist hljóðið þá í honum. Þegar honum er lokið upp, þá heyrist aftur sama hljóðið, ræða, söngur o.s.frv. 

Vísindamenn lofa þessa vél ákaflega mikið og segja, að þess muni ekki langt að bíða, að menn fari að sendast á fonogram (hljóðrit) í stað bréfa, því hljóðgeymirinn innan úr hljóðritanum er miklu minni fyrirferðar en bréf og hann má senda manna á milli. 

Með þessari vél má stela söng og söngleikjum o. s. frv. og eru menn byrjaðir á því í Ameríku. Margir spá að þessi vél muni valda eins miklum breytingum á viðskiptum manna, eins og fréttaþráðurinn. Tunguritinn er vél á gufuvagninum á járnbrautarlest sem kallar upp, hátt, nöfn járnbrautarstöðvanna og ýmislegt annað sem farþegar þurfa að heyra. Edison hefur góðar vonir um að þessi vél geti afstýrt járnbrautaslysum. Hún hefur mannsmál, en röddin er tröllaleg.“ 

Þessi spá í Skírni hefur ekki ræst enn, þótt möguleikar á raddskilaboðum hafi aukist með tilkomu snjallsíma og samfélagsmiðla, því enn sem komið er treystum við mun meira á hið ritaða orð en hið talaða þegar við viljum senda fólki skilaboð í snatri. Til að mynda var ekki lengi vinsælt, ef eitthvað, að nota talhólf farsíma; og raddskilaboð í forritum á borð við Facebook Messenger eiga langt í land með að ná sömu vinsældum og textaskilaboð.

Tengdar fréttir

Íslenskt mál

„Við erum Gísli Marteinn barnanna“

Íslenskt mál

Handritin til barnanna og börnin til handritanna

Íslenskt mál

„Zetan aldrei skapað annað en bölvað hringl“

Íslenskt mál

Þegar tungumálið var fullkomið