Flóttafólkið var selflutt frá björgunarskipinu Open Arms í stóra ítalska farþega- og bílaferju, þar sem það verður í sóttkví næstu daga áður en það fær að fara í land á Ítalíu Mynd: EPA-EFE - ANSA

Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.
225 flótta- og förumenn fá að fara í land á Ítalíu
15.11.2020 - 01:13
Erlent · Afríka · flóttafólk · flóttinn yfir miðjarðarhaf · Ítalía · Líbía · Túnis · Evrópa · Stjórnmál
Spænska björgunarskipið Open Arms sigldi upp að ströndum Sikileyjar í dag með 225 föru- og flóttamenn innanborðs, sem færðir voru í umsjá ítalskra yfirvalda. Þetta kemur fram í tilkynningu spænsku hjálparsamtakanna sem gera skipið út. 184 fullorðnir og 71 barn frá 20 Afríkuríkjum voru flutt frá borði yfir í tvö ítölsk skip, þar sem þau munu dvelja í sóttkví á meðan gengið er úr skugga um að enginn í hópnum sé smitaður af COVID-19.
Fólkinu var bjargað um borð í Open Arms á þriðjudag og miðvikudag, af nokkrum bátum sem lentu í hafnauð á Miðjarðarhafinu. Minnst fimm sem voru um borð í einum þeirra, gúmmíbát sem hvolfdi undan ströndum Líbíu, létu lífið áður en björgunarskipið kom að, og sex mánaða kornabarn lést skömmu eftir að því var bjargað.
Nokkuð hefur fjölgað að undanförnu í hópi þeirra sem freista þess að komast til Evrópu í hinum ýmsu manndrápsfleyjum, sem flest leggja upp frá Líbíu og Túnis. Í frétt AFP segir að hlýindi síðustu daga hafi orðið til þess að margir hafi ákveðið að hraða för sinni yfir hafið. Yfir 100 manns drukknuðu á þeirri leið á fimmtudag og tugir til viðbótar fórust á þriðjudag og miðvikudag.