Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Við erum Gísli Marteinn barnanna“

Mynd: Árnastofnun / Árnastofnun

„Við erum Gísli Marteinn barnanna“

14.11.2020 - 11:11

Höfundar

Jakob Birgisson og Snorri Másson eru fræðarar verkefnis Árnastofnunar sem kallast Handritin til barnanna. Til stóð að Jakob og Snorri heimsæktu rúmlega fimmtíu skóla á landinu og fylgdu verkefninu eftir. Skólarnir urðu þó heldur færri vegna samkomutakmarkana og reglna í samfélaginu, vegna farsóttarinnar sem nú geisar.

Í kjallara Árnagarðs, í sérstakri handritageymslu, leynist mikill fjársjóður í formi skinnhandrita frá miðöldum. Í vor, þegar hálf öld er frá heimkomu fyrstu handritanna, verður blásið til hátíðar og verkefnið Handritin til barnanna nær hámarki. Markmið verkefnisins er að hvetja börn til sköpunar og til að koma hugmyndum sínum á framfæri við umheiminn. Þetta er gert með fræðslu um skinnhandritin í Árnagarði, sögu þeirra, tilurð, efni og allt mögulegt þeim tengt.

Bjarni Benedikt Björnsson og Guðrún Línberg Guðjónsdóttir fjölluðu um Handritin til barnanna í Orði af orði á Rás 1 og ræddu við Jakob og Snorra. Til stóð að þeir heimsæktu 50-60 grunnskóla í öllum landsfjórðungum og miðluðu handritafróðleik. Skólarnir urðu þó heldur færri því veiran skæða setti strik í reikninginn.

Ein skrudda álíka verðmæt og nokkur einbýlishús á Þingeyri

Árni Magnússon var á ferð sinni um landið á árunum 1702-1714 og tók saman jarðabókina og manntalið ásamt Páli Vídalín. Jarðabókin er skrá yfir hag Íslendinga og ástand jarða. Jakob og Snorri fóru, eins og Árni og Páll forðum daga, í ferð um landið þó tilgangurinn hafi verið allt annar. Í stað þess að safna upplýsingum miðluðu þeir fróðleik. Hvað fannst börnunum, sem Jakob og Snorri hittu, áhugaverðast?

„Þeim fannst spennandi að það væri hægt að lesa handritin. Við vorum með tvær eftirlíkingar, meðal annars af Flateyjarbók, og þetta eru auðvitað nokkuð læsilegt þó leturgerðin sé aðeins öðruvísi. Þetta er líka mikið skrautskrift skrifara þess tíma en það er hægt að læra hana. Þau höfðu mikinn áhuga á að lesa þetta,“ segir Jakob. „Þau höfðu líka mjög gaman af því þegar við sögðum frá því að Íslendingar keyptu eitt handritið á uppboði í Englandi, sem er Skarðsbók postulasagna, og sú saga hefur svo sem verið skráð að maður var sendur til Englands til þess að kaupa handritið á uppboði árið 1965. Við segjum þessa sögu og þetta varpar ljósi á það hversu ákafir Íslendingar voru í að komast yfir þessi handrit og koma þeim heim. Á þeim tíma borguðu þeir 33 þúsund sterlingspund fyrir handritið sem framreiknað er 110 milljónir. Börnin auðvitað gapa, og fullorðnir líka, þegar þau heyra: 110 milljónir fyrir eina skruddu, sem er nú reyndar vegleg,“ segir Snorri.

Börnin hafi, til að átta sig á verðgildi Skarðsbókar sem keypt var á uppboði fyrir 33 sterlingspund á sínum tíma, velt því fyrir sér hversu margir símar eða PlayStation-tölvur þetta væru. Þetta væru nokkur einbýlishús á Þingeyri en eitt veglegt einbýlishús í Reykjavík. Jakob og Snorri hafa orð á því hvað börnin sem þeir hittu hafi verið praktísk í hugsun. Þau hafi velt því fyrir sér atriðum eins og hvað þyrfti að slátra mörgum kálfum til að hafa efni í eitt handrit; og hvernig Árni Magnússon hafi um landið. Fór hann fótgangandi eða á hesti?„Maður lærir sjálfur að spyrja allt annarra spurninga þegar maður ræðir þetta við börn því þau koma að þessu úr annarri átt,“ segir Snorri.

Í fréttum er þetta elst

Miðaldafréttir, í umsjón Jakobs og Snorra í þættinum Húllumhæ á KrakkaRÚV, eru hluti verkefnisins Handritin til barnanna. Miðaldafréttir eru vikuleg innslög þar sem þeir miðla handritafróðleik á nýstárlegan hátt og slagorð þeirra er: Í fréttum er þetta elst.

„Við segjum stakar sögur eins og um afdrif Skarðsbókar; um Árna kallinn og hans svaðilför um Vestfirðina, Suðurlandið og víðar,“ segir Snorri og Jakob bætir við: „Dæmi um handritafróðleik er að þau voru notuð sem sigti. Blað úr handriti er tekið og gatað og maturinn sigtaður.“ „Þetta eru skemmtilegir fróðleiksmolar og viðtökurnar hafa verið vonum framar. [...] Maður áttar sig bara á því um leið og þetta byrjar allt saman að fólk hefur raunverulega ástríðu og áhuga á þessu, en það þarf auðvitað að setja þetta fram með hætti sem höfðar til fólks,“ segir Snorri.

„Börnin eru augljóslega alveg tilbúin að ræða handritin og hafa ýmsar skoðanir á þeim. Ég held þess vegna að við þurfum að gera þetta meira að einhverju hefðbundnu umræðuefni í grunnskólum landsins, að þetta sé ekki bara menn frá Árnastofnun sem koma og ræða þetta, þó það sé auðvitað gott og gilt,“ segir Jakob og Snorri bætir við: „Börnin taka mark á þeim sem þau hafa séð í sjónvarpinu.“ „Við erum svona Gísli Marteinn barnanna,“ segir Jakob.

Handrit Margrétarsögu nokkurs konar fæðingarhjálp

Þá kom til tals handrit, sem algengt er að sé afar smátt í sniðum, sem geymir Margrétarsögu. Handritið hafi verið notað í fæðingum sem eins konar fæðingarhjálp. „Þetta er saga af Margréti sem var dýrlingur, heilög Margrét. Það sem hún átti að hafa lent í var að dreki gleypti hana og hún barðist um í iðrum drekans um hríð uns hún loks braust út. Þessi frásögn af hennar píslum í iðrum drekans og hvernig hún braust út er síðan táknræn fyrir fæðingu,“ segir Snorri. „Þetta handrit er nú kannski ekki notað mikið í dag en ég á nú von á barni í næsta mánuði og ég fæ víst ekkert að vera viðstaddur fyrr en svokölluð virk fæðing hefst, [...] þannig að ég hef svona verið að velta því fyrir mér að bregða á það að senda konuna mína inn með Margrétarsögu og fá jafnvel ljósmóðurinni þetta litla handrit,“ segir Jakob og bætir við: „Ég gæti allavega beðið rólegur úti í bíl ef Margrétarsaga er þarna.“

Fjallað var um miðaldahandritin, verkefnið Handritin til barnanna og rætt við Jakob Birgisson og Snorra Másson, í Orði af orði á Rás 1, sunnudaginn 8. nóvember.

Tengdar fréttir

Íslenskt mál

Handritin til barnanna og börnin til handritanna